Jafnvægislist ríkisfjármála

Af öllum þeim verðmætum sem verða til á Íslandi á ári hverju ráðstafar hið opinbera 43% af þeim.Útgjöld ríkissjóðs munu rjúfa 1.000 milljarða króna múrinn árið 2023. Ríkisfjármál og opinber fjármál hljóma kannski álíka spennandi og skattaskýrslur eða uppvask en þessar tölur sýna samt að mikið er í húfi þegar kemur að stjórn þeirra. Raunar má færa rök fyrir því að of mikið sé í húfi því umsvif hins opinbera eru óvíða meiri en hér á landi. Sitt sýnist hverjum um hver umsvifin eigi að vera á mismunandi sviðum samfélagsins. Til að mynda telur Viðskiptaráð að leggja eigi áherslu á samkeppnishæfni atvinnulífsins, sem er forsenda almennrar velsældar, og að nýta eigi krafta einkaframtaksins eftir fremsta megni.

Það sem er þó minna umdeilt er að ríkisfjármálunum sé stýrt með þeim hætti að þau ýti ekki undir hagsveiflur og að horft sé til lengri tíma. Með lögum um opinber fjármál, sem tóku gildi 2016, hefur orðið jákvæð þróun í þeim málum. Gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlana, sem samþykkja þarf af Alþingi, festir betur í sessi fyrirjáanleika og stefnufestu í opinberum fjármálum og forgangsröðun þeirra.

Lögin fólu í sér mikla breytingu svo eðlilegt er að ekki hafi allt heppnast í fyrstu tilraun. Eitt það helsta sem bent hefur verið á að þarfnist betri útfærslu er afkomumarkmiðið í fjármálastefnu. Í sjálfu sér er markmiðið ágætt enda gerir það ráð fyrir ágætum afgangi af rekstri ríkissjóðs eða sem nemur um 1% af landsframleiðslu á ári. Vandinn er hins vegar sá að sú stefna byggir á forsendum um efnahagsþróun frá árinu 2017 og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þá var gert ráð fyrir fordæmalausum uppgangi og bókstaflega stanslausum hagvexti. Þannig var unnt að auka og lofa auknum útgjöldum til hinna ýmsu málaflokka. Nú hefur komið í ljós að þeim uppgangi er lokið í bili og miðað við nýjustu spár verður lítilsháttar samdráttur í stað hagvaxtar á yfirstandandi ári.

Breyttar og verri horfur leiða að óbreyttu til þess að sýna þarf aukið aðhald og draga saman seglin til þess að ná þeim markmiðum sem fjármálastefnan kveður á um. Slíkt er til þess fallið að ýkja þessa litlu niðursveiflu sem nú á sér stað sem er afar óheppilegt og kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Stjórnvöld ættu frekar að leitast við að milda hagsveifluna án þess að það ógni verðstöðugleika eða öðrum hagstjórnarmarkmiðum.

Hvað er þá til ráða? Við því er ekkert einfalt svar enda er stjórn opinberra fjármála ákveðin jafnvægislist. Ein breyting gæti þó hjálpað mikið við að auka fyrirsjáanleika og stefnufestu auk þess að stuðla að efnahagslegum stöðugleika: Í stað þess að miða eingöngu við heildarafkomu ætti að setja markmið um hagsveifluleiðrétta afkomu eða frumjöfnuð, að teknu tilliti til skuldastöðu. Í einföldu máli þýðir það að þegar hvorki er þensla né hægagangur í hagkerfinu, eða hvorki framleiðsluslaki né -spenna, þá yrði heildarafkoma nálægt núlli ef skuldsetning er lítil. Með þessu væri sjálfvirk sveiflujöfnun ríkisfjármála virkari þar sem afgangur væri meiri í uppsveiflu sem myndar þá svigrúm til að draga hratt úr afgangi með minni tekjum ef í harðbakkann slær. Því gætu útgjöld verið stöðugri. Slíkt auðveldar fyrirsjáanleika og áætlanagerð sem er til þess fallið að bæta nýtingu opinberra fjármuna, öllum til hagsbóta.

Útfærslan á því að miða við hagsveifluleiðrétta afkomu er ekki einföld og mat hennar nokkurri óvissu háð. Það ætti þó ekki að vera óyfirstíganlegt verkefni og er hún nú þegar metin í Fjármálaráðuneytinu og af Seðlabankanum. Ísland er sögulega séð sveiflukennt hagkerfi og hafa sveiflurnar oft verið kostnaðarsamar fyrir fólk og fyrirtæki. Því er til mikils að vinna með því að hið opinbera auki ekki þær sveiflur og reyni eftir fremsta megni að draga úr sveiflunum.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum þann 15. maí 2019

Tengt efni

Aukið framboð af íþyngjandi kvöðum 

„Auðvitað eiga leikreglur á markaði að vera skýrar og stuðla að jafnræði milli ...
22. maí 2024

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023

Fjaðramegn ræður flugi

Góð skattkerfi byggja á fyrirsjáanleika. Stöðugleiki skiptir miklu máli þegar ...
28. nóv 2022