Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um kjaraviðræður.

Það hefur sennilega enginn dottið af stólnum af undrun þegar fréttir bárust af því að breiðfylking stéttarfélaganna hefði slitið viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA). Samt sem áður virðist vera tiltölulega lítill ágreiningur um launaliðinn, enda liggur í augum uppi að ef meginmarkmiðið er að ná böndum á verðlag og vexti, þurfa launahækkanir að vera innan skynsamlegra marka.  

Vilhjálmur Birgisson staðfesti í Silfrinu á mánudagskvöldið að kostnaðarmatið, á því sem um hefði verið rætt, væri í kringum fjögur prósent. Á það hefur reyndar verið bent að samningsaðilar hafa verið býsna sammála um að velta ýmsum kostnaði yfir á hið opinbera. Um það sagði Vilhjálmur að það myndi í raun ekki kosta ríkið neitt að bæta í bótakerfin, því þar hefði verið reiknað með 9% hækkunum, en launahækkanir yrðu mun hóflegri. Kannski gleymist í þessu samhengi að 4% hækkun launa skilar sér í um það bil helmingi hærri launakostnaði fyrir vinnuveitandann og að við borgum á endanum öll framlag ríkisins. Það er þó ekki neinn sérstakur ágreiningur um að það þurfi samvinnu allra hliða hagstjórnarinnar til ná tökum á efnahagsmálunum og gera hóflega kjarasamninga að vænlegri söluvöru. Þá má spyrja, af hverju þurfti að slíta? 

Það er hægt að gera sér ýmsar skýringar í hugarlund. Kannski er vandamálið að einhvern langar til að hnykla vöðvana og sýna hver ræður. Kannski er það hluti af fléttunni sem gengur út á það að múlbinda Seðlabankann með forsenduákvæði um tíma- og tölusetta vaxtalækkun. Ef til vill örlar innst inni á einhverri vantrú um það að tilboðið sem liggur á borðinu sé í raun og veru nógu hófstillt til að vera það innlegg í baráttuna við verðbólgu og hátt vaxtastig sem því er ætlað að vera. Hugsanlega endurspeglar þessi tilraun til að læsa ýmsa aðila inni, sem sitja ekki við samningaborðið með breiðfylkingunni, óttann við það að aðrir komi á eftir og semji ekki eftir handritinu. Kannski er sá ótti ekki úr lausu lofti gripinn, ef marka má færslu Friðriks Jónssonar, fyrrverandi formanns BHM, þar sem hann talar fyrir munn fólks sem er um og yfir millitekjum: „Krafa Eflingar og félaga er í hnotskurn að fá hækkun launa umfram alla aðra og ennþá meira úr þessum millifærslukerfum – en allir aðrir taki á sig beina kjararýrnun í formi lægri raunlauna og hærri skattbyrði.“ 

Nóg til – og meira frammi 

Sennilega er engin ein skýring á því hvers vegna viðræðurnar hökta. Nú hefur ríkissáttasemjari boðað aðilana til fundar við sig í dag. Vonandi verða samræður þar byggðar á traustari grunni en auglýsing VR sem birt var í síðustu viku, um að það sé nóg til og meira frammi, enda skili fyrirtækin methagnaði.  

Langflest fyrirtæki á Íslandi eru lítil og meðalstór. Sumum gengur vel en fæst þeirra skila methagnaði. Líkt og launafólk hafa fyrirtæki þurft að glíma við háa vexti og hækkandi verðlag, á vörum, þjónustu og opinberum gjöldum - að launakostnaðinum ógleymdum. Þau eru flest í harðri samkeppni og geta því ekki velt auknum kostnaði að fullu út í verðlag. Sum ná að hagræða en önnur ekki, og nefna má að gjaldþrot næstum þrefölduðust milli ára í fyrra. Hjá fyrirtækjum sem urðu gjaldþrota árið 2023 unnu um tvö þúsund manns.  

Í könnun SA í haust meðal almennings kom fram að rúmlega helmingur fólks telur að það sé lítið eða ekkert svigrúm til hækkana hjá þeirra vinnuveitanda. Tæp 40 prósent telja að það sé nokkurt svigrúm og einungis níu að svigrúmið sé mikið.  Mat hins almenna launamanns virðist því ekki vera að vinnuveitandi hans viti ekki aura sinna tal.  

Aftur á móti hvarflar stundum að manni að sumir verkalýðsleiðtogar haldi að rekinn sé einhvers konar jöfnunarsjóður atvinnulífsins, en staðreyndin er sú að afkoma banka hjálpar veitingastað eða ferðaþjónustufyrirtæki ekki neitt í baráttunni við hærri launakostnað.  

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2024.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)
15. mar 2023

Nauðsynlegt að skapa rétta hvata

Umsögn Viðskiptaráðs og SA um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs ...
31. mar 2023