Jón er hálfviti

Það er þetta með fólkið í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og hástig.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Þessi pistill fjallar alls ekki um kennara (og reyndar ekki heldur neinn Jón). Við þekkjum bara öll ólíkar týpur af kennurum og hvaða áhrif þær höfðu á mann. Þess vegna er svo hentugt að vísa til kennara þegar maður hugsar um framkomu fólks.

Ég man eftir kennurum sem voru iðulega á háa c-inu. Þegar þeim misbauð var tónninn hækkaður enn frekar, hnefa barið í borð eða lófa skellt á töfluna og þessari týpu var, í það minnsta í minningunni, býsna oft misboðið. Það skrýtna var að maður vandist þessu og kippti sér ekkert sérstaklega upp við enn einn hárblásarann.

Svo voru það kennararnir sem beittu algerlega öndverðri taktík. Þeir töluðu lágum rómi þannig að við urðum að hafa sæmilegt hljóð í bekknum til að efnið færi ekki fyrir ofan garð og neðan. Þessir kennarar virtust mun sjaldnar hafa ástæðu til að byrsta sig en sumir kollegar þeirra - og gerðu það líka mun hóflegar. Þegar það gerðist fannst manni eins og eitthvað háalvarlegt hefði átt sér stað. Og gott ef maður skammaðist sín ekki svolítið líka.

Ég hugsa stundum um þetta þegar ég fylgist með fólki í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og hástig. Þegar andstæðingurinn er sakaður um viðbjóðslegt framferði eða fjárhagslegt ofbeldi og hryðjuverk eða kallaður kynþáttahatari, svo nefnd séu nokkur nýleg dæmi úr ólíkum áttum. Fjölmiðlar og lesendur þeirra magna þetta svo upp, enda er fyrirsögnin „Jón er hálfviti“ líklegri til að fá klikk en „Jón gæti gert betur“.

Auðvitað getur sú staða komið upp að ástandið sé einfaldlega í efsta stigi, en ef það verður viðvarandi minnkar áhrifamáttur orðanna. Rétt eins og við myndum sennilega hætta að taka mark á viðvörunum Veðurstofunnar ef spáin væri alltaf appelsínugul eða rauð viðvörun.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Birtist fyrst í Viðskiptablaðinu, fimmtudaginn 23. febrúar 2023.

Tengt efni

Raunverulegt val. Eftir Sigþrúði Ármann

Formaður fræðsluráðs Reykjavíkur sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins undrast ...
10. feb 2004

Niðurstöður skoðanakönnunar Viðskiptaráðs birtar í heild

Í tengslum við Viðskiptaþing fékk Viðskiptaráð Íslands Capacent Gallup til þess ...
21. feb 2014

Niðurstöður skoðanakönnunar Viðskiptaráðs birtar í heild

Í tengslum við Viðskiptaþing fékk Viðskiptaráð Íslands Capacent Gallup til þess ...
21. feb 2014