Jörðin er flöt

Eitt það fyrsta sem við lærum um heiminn er að jörðin er hnöttur. Þetta er svo viðtekin staðreynd að ég hef aldrei hitt manneskju sem heldur öðru fram. Hnöttótt jörð er heldur ekki ný af nálinni, því Forn-Grikkir vissu af kúlulögun jarðar fjögur hundruð árum fyrir Krist. Engu að síður er til fólk sem trúir því að jörðin sé flöt. Eins og eitt félag um þennan málstað, Flatjarðarfélagið, (e. The Flat Earth Society), á að hafa komist að orði, þá er „meðlimi félagsins að finna allt í kringum hnöttinn“. Já, hnöttinn.

Samkvæmt frammámönnum í samfélagi Flatjarðarfólks eru stuðningsmenn málstaðarins ekki bara allt í kringum hnöttinn heldur fer þeim einnig fjölgandi. Ekki nóg með það heldur hafa körfuboltastjörnur og aðrir frægir lýst yfir stuðningi sínum við þvæluna. Í nýlegri heimildarmynd á Netflix kom fram að 53 þúsund manns væru meðlimir í Facebook hópi sem snerust um umræður um þessa tilgátu. Þeim hefur nú fjölgað í 123 þúsund.

Einn þessara forsprakka gengur meira að segja svo langt að halda því fram að „kenningin“ um flata jörð sé að sigra vísindin eða vísindahyggjuna. Ástæðan er sú að vísindin benda bara á flóknar stærðfræðiformúlur en flatjarðarfólk geti einfaldlega bent á það sem er beint af augum: Flatneskjuna.

Þrátt fyrir að þetta mál sé hið fjarstæðukenndasta er engu að síður heillandi að fylgjast með því hvernig fólk getur virt helstu mat sérfræðinga, staðreyndir og rannsóknir að vettugi og jafnvel sagt vísindunum, sjálfri leitinni að sannleikanum, stríð á hendur. Það skiptir þetta fólk engu máli að sjá mynd af hnettinum, því jörðin er flöt, allt annað er samsæri og blekkingar. Það skiptir engu máli að heyra færustu sérfræðinga lýsa því yfir að jörðin sé vissulega hnöttur, því það eru lygar. Sjálf geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, er erkióvinurinn.

Orkupakkinn er flatur

Maður prísar sig sælan yfir því að flatjarðarkenningin hafi ekki náð fótfestu hér á landi. Umræðan um þriðja orkupakkann býður hins vegar upp á hliðstæður, þó flatjarðarfólkið sé töluvert lengra komið í samsæriskenningasmíð. Andstæðingar pakkans mála upp hamfaramynd af Íslandi, frelsissnauðu undir oki Evrópusambandsins, verði pakkinn tekinn upp í íslenska löggjöf. Orkuverð mun hækka, sæstrengur verður lagður að okkur forspurðum og erlendar stofnanir verða einráðar um tilhögun orkumála á Íslandi. Hatrið mun sigra.

Sama heillandi viðhorfið einkennir andstæðinga pakkans og hina flatneskjuþenkjandi bræður þeirra og systur víðsvegar um hnöttinn. Í þeirra Facebook hópi eru 5 þúsund manns og meira að segja sjónvarpsstjörnur hafa lýst yfir stuðningi við málstaðinn.

Andstæðingar pakkans benda jú á það sem allir hljóta að sjá, að hér sé verið að framselja fullveldi og brjóta gegn stjórnarskrá. Þar skiptir engu þó fræðimenn komist að gagnstæðri niðurstöðu, orð þeirra eru einfaldlega skrumskæld til að þjóna málstaðnum. Þannig þurfa hinir sömu fræðimenn sífellt að koma fram að nýju og taka aftur af öll tvímæli um niðurstöður sínar. Fyrir vikið verða andstæðingar pakkans heitari í sinni trú og umfram allt verður umræðan sífellt ruglingslegri.

Ráðamenn eru sagðir spilltir, blekktir eða latir við að kynna sér málið ef þeir vilja samþykkja pakkann. Fyrirvarar eru sagðir marklausir og allt tal um að erlendar stofnanir muni ekki hafa tögl og haldir í orkumálum hér á landi eru sagðar lygar. Ekki er heldur mark takandi á lagafrumvarpi um að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs án samþykkis Alþingis. Það er hluti af stærra plotti með Evrópusambandinu. Látum vera að hann kosti mörg hundruð milljarða króna og muni því krefjast raforkuverðs sem er miklu hærra en markaðsverð í ESB löndum. Samstarfsstofnun eftirlitsaðila í orkumarkaði í Evrópu, ACER, er þeirra NASA – erkióvinurinn. Og allt er þetta eitt stórt samsæri um fullveldisframsal.

Brjóstvörnin gegn Djúpríkinu

Engu skiptir heldur að EES samningurinn hefur lagt grundvöllinn að lífsgæðum Íslendinga síðustu áratugi og tryggt frjáls viðskipti við 500 milljóna markað. Honum skal sagt stríð á hendur því orkupakkinn er flatur.

Hliðstæðurnar eru grátbroslegar. Djúpríkið er greinilega víða og verkefni þess fjölbreytt. Allt frá blekkingum um lögun jarðar til skipulagningar á samsæri gegn fullveldi Íslands. Til varnar Djúpríkinu hafa forlögin þó sem betur fer sent okkur Flatjarðarfélagið en líka Flatpakkafélagið – félag fólks sem lætur ekki staðreyndir sérfræðinganna um orkupakkann flækjast fyrir „hinum raunverulega sannleika“. Staðreyndir á borð við þær, að Ísland mun eftir innleiðingu þriðja orkupakkans áfram hafa fullt forræði yfir orkuauðlindum sínum, að enginn sæstrengur verður lagður án samþykkis okkar og að Landsvirkjun mun áfram geta starfað undir sama eignarhaldi, nema Íslendingar sjálfir ákveði annað. En þannig staðreyndir skipta Flatpakkafélagið engu máli.

Ísak EInar Rúnarsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2019.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023