Kjaragæsin og kaupmáttareggin

Einu sinni fyrir langa löngu í þorpi nokkru bjuggu verslunarmaður og verkakona með börnum sínum. Fjölskyldan hafði það nokkuð gott og vanhagaði um fátt. Þau áttu undurfagra kjaragæs sem verpti eggi á hverjum degi. Það var ekki venjulegt egg, heldur gullegg!

Verslunarmanninum og verkakonunni hafði áskotnast gæsin eitt kvöldið. Það kvöld hafði hann ekki átt neitt í matinn og fór á stúfana. Eftir stutta leit sá hann útundan sér gæs og reyndist það auðveldur eftirleikur að ná henni. Verslunarmaðurinn og verkakonan hugsuðu sér gott til glóðarinnar enda veislumatur í huga fjölskyldunnar, en í þann mund sem þau ætlaðu að snúa gæsina úr hálsliðnum skrækti hún upp: „Ekki drepa mig, miskunnsama fólk, ég mun hjálpa ykkur.“ Undrandi stundu þau upp: „Hvernig getur þú hjálpað okkur?“

Gæsin svaraði því til að á hverjum degi myndi hún verpa gulleggi sem myndi falla í þeirra hlut. „En af hverju ætti ég að trúa þér? Þú gætir verið að ljúga,“ spurði verslunarmaðurinn en gæsin, snögg til svars, sagði honum að ef hún verpti ekki gullnu eggi daginn eftir gætu þau drepið hana. Verslunarmaðurinn og verkakonan féllust á þetta, þyrmdu gæsinni og viti menn, gæsin verpti gulleggi daginn eftir og alla daga þar eftir.

Kaupmáttur fjölskyldunnar jókst hratt og leið ekki á löngu áður en þau urðu vel stæð. En eftir nokkur ár af gósentíð fór þeim að leiðast þófið. „Hvers vegna að sætta okkur við eitt egg á hverjum degi og bíða þess á milli eftir því næsta? Ef við ristum gæsina á hol þá hljótum við að ná öllum gullnu eggjunum út í einu!“

Verslunarmaðurinn og verkakonan biðu ekki boðanna. Strax um kvöldið sótti þau gæsina og skáru hana upp. En engin fundu þau gulleggin í kvið gæsarinnar. Í angist sinni kallaði verslunarmaðurinn upp yfir sig: „Hér eru engin egg og nú hef ég drepið gæsina sem sá fyrir mér og fjölskyldunni! Hvað hef ég gert?“

Og víkur þá að samtímanum. Frá 2014 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna allra tekjutíunda aukist um meira en fimmtung og í dag eru allar líkur á að óvenju hraðri uppsveiflu sé að mestu lokið. Hvað ætli verkalýðsforystan geri við kjaragæsina og kaup­máttar­eggin á komandi kjaravetri?

Ísak Einar Rúnarsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. nóvember 2018.

Tengt efni

Fjaðramegn ræður flugi

Góð skattkerfi byggja á fyrirsjáanleika. Stöðugleiki skiptir miklu máli þegar ...
28. nóv 2022

Eigum við að drepa fuglana?

Þegar við grípum inn í flókin kerfi getur það haft ófyrirséðar afleiðingar, ...
31. ágú 2022

Hvar er best að búa?

Viðskiptaráð hefur uppfært gagnvirka reiknivél sína á vefnum Hvar er best að búa ...
6. maí 2022