Klæðlausar Kjarafréttir

Enn og aftur eru nýju fötin sem Keisarinn fékk frá Kjarafréttum í efnisminni kantinum.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs og Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs.

Þær jákvæðu fréttir bárust í síðustu viku að íslenska lífeyriskerfið væri best lífeyriskerfa í alþjóðlegri úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute standa að. Þetta er annað árið í röð sem Ísland hreppir efsta sætið, en í ár náði samanburðurinn til 44 ríkja og er byggður á meira en 50 mælikvörðum. Jafnframt er mikið fagnaðarefni að heildareinkunn Íslands hækkar á milli ára en Holland og Danmörk, sem raða sér í annað og þriðja sætið, fylgja þó fast á hæla Íslands.

Þessi niðurstaða rennir stoðum undir þá kenningu að íslenska lífeyriskerfið sé eitt það sterkasta meðal vestrænna þjóða en aðrar úttektir hafa einmitt sýnt fram á slíkt hið sama. Til að mynda trónum við nú á toppnum hvað lífeyriskerfið varðar í árlegri úttekt IMD-viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni 63 ríkja.

Besta lífeyriskerfið það versta?

Það er almennt góð regla að halda aðalatriðum til haga þegar kanna á mál til hlítar. Til dæmis er vart hægt að draga ályktanir um ágæti fasteignar án þess að horfa til staðsetningar eða fermetrafjölda, eða um ágæti bíls án upplýsinga um fjölda ekinna kílómetra. Þessu er hins vegar ekki að skipta í Kjarafréttum Eflingar frá því í síðasta mánuði.

Þar er íslenska lífeyriskerfinu fundið flest til foráttu og fullyrt að lífeyrir á Íslandi sé óeðlilega lágur og látið að því liggja að erlendar úttektir á íslenska lífeyriskerfinu séu í raun blekkingar. Á fimlegan hátt er skautað fram hjá merg málsins. Greinarhöfundi ferst þannig alfarið fyrir að nefna hvernig tekjur eldri borgara hér á landi eru í alþjóðlegu samhengi og því mikla sérkenni sem felst í sjóðasöfnun lífeyriskerfisins. Meginmarkmið hvers lífeyriskerfis hlýtur að vera að skila eldri borgurum, nú og til framtíðar, góðum lífskjörum en í téðum Kjarafréttum er það hreinlega hundsað.

Að skilja hismið frá kjarnanum

Í umfjöllun Kjarafrétta er ekki orði minnst á þá staðreynd að fátækt meðal eldri borgara (e. Old-age income poverty) er, að Danmörku undanskilinni, hvergi minni meðal OECD ríkja. Þannig er hlutfall þeirra sem eru 65 ára og eldri og búa við fátækt [1] um 3,1% hér á landi samanborið við 13% hlutfall að meðaltali innan OECD. Þá er hlutfallið hér á landi enn lægra, eða um 1,1%, ef litið er til þeirra sem eru 75 ára og eldri. Öðru máli gegnir um meðaltal OECD ríkjanna þar sem hlutfallið fer hækkandi með hækkandi aldri. Ísland er nefnilega eitt sex ríkja innan OECD þar sem íbúum sem eru 75 ára og eldri farnast betur en þeim sem yngri eru.

Að jafnaði er hlutfall þeirra sem búa við fátækt á þennan mælikvarða um tveimur prósentustigum hærra ef eingöngu er litið til eldri borgara samanborið við alla þegna viðkomandi ríkis. Annað er þó upp á teningnum hér á landi þar sem hlutfallið er tæpum tveimur prósentustigum lægra ef aðeins er litið til þeirra sem eru 65 ára og eldri í samanburði við alla íbúa landsins. Af þessu má ráða að lífeyrisþegar hér á landi eru betur settir í þessu samhengi en margir aðrir aldurshópar. Því til staðfestingar má líta til dreifingar ráðstöfunartekna en fólk á aldrinum 65-69 ára var að meðaltali með hærri tekjur en allir aldurshópar undir fertugu. Ef horft er til Norðurlanda, þá eru tekjur lífeyrisþega hvergi eins nálægt því að vera þær sömu og vinnandi fólks eins og hér á landi. Meðaltekjur 65 ára og eldri, sem hlutfall af meðaltekjum allra þjóðfélagshópa, eru um 95% hér á landi samanborið við 82% á Norðurlöndunum.

Sjálfbærara lífeyriskerfi en meðal nágrannaþjóða

Að lokum fjalla Kjarafréttir Eflingar um að opinber framlög til lífeyrismála séu óvenju lág hér á landi. Þar virðist þó aftur hafa gleymst að horfa á heildarmyndina. Grundvöllur þess að lífeyriskerfi sé sjálfbært til lengri tíma, án framlags af hálfu ríkissjóðs, felst í því að umsamin iðgjöld sjóðfélaga standi undir framtíðarlífeyrisgreiðslum þeirra. Með sjóðsöfnunarkerfi af þessu tagi er létt verulega undir ríkissjóði og hér á landi útskýrir það hin lágu framlög ríkissjóðs, þar sem sjóðsöfnunin er ein sú mesta í heimi. Eigur íslenska lífeyrissjóðakerfisins, sem standa undir framtíðarlífeyrisgreiðslum, nema 208% af vergri landsframleiðslu á Íslandi samanborið við 61% í Finnlandi, 50% í Danmörku, 11% í Noregi og 4% í Svíþjóð árið 2021, samkvæmt OECD. Lífeyrissjóðakerfi Íslendinga er því sjálfbærara en annarra Norðurlanda og fyrir vikið útheimtir það ekki eins mikla aðkomu hins opinbera, eitthvað sem vert er að fagna frekar en hitt.

Það má vel takast á um fyrirkomulag lífeyriskerfisins og hér verður sannarlega ekki fullyrt að almannatryggingakerfið sé fullkomið eða að fátækt sé ekki til staðar á Íslandi. En til að unnt sé að taka mark á gagnrýni, og þá bregðast við henni, þurfa aðalatriði og staðreyndir málsins að vera uppi á borðum. Fullyrðingar um að lífeyrir hér á landi sé óeðlilega lágur og að erlendar úttektir á lífeyriskerfinu séu byggðar á röngum forsendum ganga í því samhengi hreinlega ekki upp. Enn og aftur eru nýju fötin sem Keisarinn fékk frá Kjarafréttum í efnisminni kantinum.

Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst á Innherja, áskriftarmiðli Vísis um viðskipti og efnahagsmál, 20. október 2022.

[1] Skilgreint sem tekjur lægri en helmingur af miðgildi ráðstöfunartekna heimilanna skv. OECD.

Tengt efni

Umsögn breytingar á lögum um endurskoðun og ársreikninga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA og SFF um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022

Nágrannalöndin nýta oftar en ekki undanþágur sem Ísland nýtir ekki

Umsögn SA og Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um endurskoðendur og endurskoðun ...
29. mar 2023