Landvernd staðfestir tillögu um verri lífskjör þjóðarinnar

„Það er mjög jákvætt að fá staðfestingu á því frá Landvernd að efnahagsleg velferð mæti afgangi í málflutningi þeirra,“ segir Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Ísland, íslendingar, þjóðin
Er öruggt að Íslendingar séu tilbúnir til þess að fórna lífskjörunum eins og Landvernd leggur til?

Viðskiptaráð birti fyrir skömmu greiningu á tillögum Landverndar í orkumálum. Í stuttu máli boðar Landvernd tillögur um að raforkunotkun verði færð úr verðmætasköpun í orkuskipti, án þess að auka orkuframleiðslu á móti. Var því haldið fram að þetta hefði ekki neikvæð áhrif á efnahagslega velferð þjóðarinnar. Við nánari skoðun var það niðurstaða Viðskiptaráðs að tillögur Landverndar hefðu í för með sér mun lakari lífskjör þjóðarinnar en ella.

Stöðnun í stað framfara

Í skýringum með tillögu Landverndar kom fram að ekki væri reiknað með hagvexti næstu áratugi, yrði ráðleggingum samtakanna fylgt. Í viðtali við Morgunblaðið þann 28. júní sl. er haft eftir framkvæmdastjóra Landverndar:

„Við erum að leggja það til að lífskjör verði eins og þau eru í dag að teknu tilliti til fólksfjölgunar.“

Af þessum ummælum má ráða að Landvernd geri ráð fyrir því að hagvöxtur haldi í við mannfjöldaspá næstu áratugi. Með öðrum orðum að landsframleiðsla á mann verði óbreytt næstu áratugi, en vaxi ekki umfram það.

Hvort sem það stenst skoðun eða ekki staðfestir framkvæmdastjóri Landverndar að áhrif af tillögu samtakanna í orkumálum yrðu þau að lífskjör á Íslandi myndu ekki þróast til betri vegar næstu áratugi, heldur í besta falli standa í stað. Með því myndi Ísland dragast aftur úr samanburðarþjóðum auk þess sem lífskjör yrðu mun verri en ella, borið saman við aðrar sviðsmyndir um þróun lífskjara næstu áratugi. Ummælin staðfesta niðurstöðu Viðskiptaráðs um áhrif af tillögunni á lífskjör þjóðarinnar.

Athugasemdir Landverndar leiðréttar

Framkvæmdastjóri Landverndar gerði auk þess athugasemdir við greiningu Viðskiptaráðs. Þar sagði m.a. að orkusækinn iðnaður skapaði fá störf miðað við orkunotkun. Þá var því haldið fram að þessi iðnaður skapaði heilt yfir ekki mikil verðmæti. Betur færi á því að mati Landverndar að fjölga störfum í ferðamannaiðnaði.

Jóhannes Stefánsson lögfræðingur Viðskiptaráðs og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins svöruðu þessum athugasemdum og leiðréttu í viðtali við Morgunblaðið þann 30. júní.

Mokað með skóflu
Ef markmiðið er að fjölga störfum er vissulega hægt að fækka störfum með háa framleiðni í þágu mannaflsfrekra starfa með lága framleiðni. Það er eins og að ætla að byggja veg og nota frekar skóflur í stað vinnuvéla.

Skóflur í stað vinnuvéla?

Framkvæmdastjóri Landverndar benti á að orkusækinn iðnaður skapi fá störf á hverja orkueiningu. Það er rétt og er einn helsti kostur iðnaðarframleiðslu á Íslandi. „Það skýrist einfaldlega af því að framleiðni er mjög há í iðnaðarframleiðslu á Íslandi það er að segja að þetta eru mjög verðmæt störf,“ sagði Jóhannes í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir Landvernd leggja til að auka atvinnusköpun með því að fækka störfum sem stuðla að mikilli framleiðni. Að mati Jóhannesar er það álíka og að nota skóflur í stað vinnuvéla til að auka atvinnu. Jóhannes undirstrikar að það sé nú þegar vinnuaflsskortur á Íslandi. „Þetta er spurning um hvernig störf við viljum. Viljum við verðmæt störf eða ætlum við að skapa störf starfanna vegna?“

Iðnaður skapar víst verðmæti

Þá var því ranglega haldið fram að orkusækinn iðnaður skapaði ekki verðmæti fyrir Íslendinga. Í því samhengi benti Jóhannes á að fjórðungur starfa á Íslandi séu í iðnaði og þaðan komi fimmtungur landsframleiðslu. Þá var bent á að enn væri ósvarað af hálfu Landverndar hvað ætti að koma í stað orkusækins iðnaðar og hver annar ætti að greiða fyrir uppbyggingu á dreifikerfinu.

Í samhengi við ábendingar Landverndar um fjölgun starfa í ferðaþjónustu var auk þess bent á að ferðaþjónusta sé mjög sveiflukennd, eins og dæmin sanni. Ólíkt iðnaðarframleiðslu sé framleiðni einnig gjarnan lág í greininni auk þess sem hún sé vinnuaflsfrek.

„Auðvitað þarf alltaf að huga að forgangsröðun orku en ef við ætlum að viðhalda efnahagslegri velferð þjóðarinnar verður það ekki gert með því að draga úr orkunotkun þjóðarinnar. Það eru draumórar,“ tekur Jóhannes fram í lokin.

Þarfnast frekari skoðunar

Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að skoða raunveruleg áhrif þess sem boðað er í stórum hagsmunamálum fyrir þjóðina. Þau áhrif þarf að setja í samhengi til þess að frekari umræða í málaflokknum eigi sér stað á eðlilegum og hlutlægum forsendum. Umræðunnar vegna er jákvætt að sameiginlegur skilningur sé af áhrifum Landverndar sviðsmynda á lífskjör þjóðarinnar.

Aftur á móti hafa áhrif af boðuðum orkusamdrætti af hálfu Landverndar ekki verið skoðuð til þessa. Viðskiptaráð hyggst fylgja því eftir.

Tengt efni

Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar ...
2. mar 2023

Hitam(ál) – Hvað er málið með álið?

Hugmyndir um takmörkun á stóriðju hér á landi annars vegar og samdrátt í losun á ...
3. apr 2023

Hvað eiga Ísland, Mósambík og Kongó sameiginlegt?

Þá séu svo einfaldir útreikningar fremur til þess fallnir að kasta ryki í augun ...
12. apr 2023