Langhlaup leiðtogans

Að vera í forystu snýst um að taka erfiðar ákvarðanir sem í fyrstu kunna að virðast langsóttar ef skammtímakröfur byrgja sýn á langtímaávinning. Þetta þekkja leiðtogar sem náð hafa framúrskarandi árangri. Einn slíkur er gestur á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í dag, Paul Polman, fyrrum forstjóri Unilever, eins stærsta neysluvörufyrirtækis heims.

Hann áttaði sig fljótt á því að ákvarðanir hans féllu ekki öllum í geð, þegar hann, á fyrsta hluthafafundi sínum sem forstjóri, tilkynnti að hann myndi hætta að birta og láta umræður stjórnast af ársfjórðungsuppgjörum. Hann væri með stærri og mikilvægari sýn sem kallaði á langtímaskuldbindingu hluthafa. Samfélagsábyrgð og umhverfismál yrðu sett í öndvegi. Margir stukku frá borði, bréfin féllu í fyrstu, en þeir sem trúðu á stefnuna uppskáru 290% ávöxtun á næstu 10 árum.

Paul Polman áttaði sig á því að hlutverk hans sem leiðtogi var ekki einungis að sýna ábyrgð í rekstri og skila góðri afkomu. Í gegnum vörur og þjónustu fyrirtækisins væru ótal snertifletir og tækifæri til að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif, axla ábyrgð og gera samfélaginu gagn. Gott siðferði í viðskiptum, uppbygging trausts og samvinna þvert á geira voru honum hugleikin sem og velferð og efling starfsfólks fyrirtækisins.

Það verður forvitnilegt að fræðast nánar um hvernig Paul náði að gera fyrirtæki sem selur Knorr súpur, Vaseline og Lipton te að margverðlaunaðri fyrirmynd um gjörvallan heim á örfáum árum. Við vitum þó að skýr sýn og stefna um raunverulegan tilgang fyrirtækis hjálpar við að feta farsælan veg í heimi óvissu, þar sem ekkert er í hendi þrátt fyrir að útlit sé gott. Íslensk fyrirtæki þekkja þetta af eigin raun þar sem breytingar á mörkuðum sem og pólitísku landslagi geta á augabragði umbylt gengi, spám og áætlunum.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Endahnúti Viðskiptablaðsins þann 14. febrúar 2019

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023