Leiðin að samkeppnishæfasta ríki heims

Niðurstöður úttektar IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja fyrir árið 2022 voru opinberaðar nú á dögunum. Ísland situr í 16. sæti af 63 löndum yfir samkeppnishæfustu ríki heims og færist upp um fimm sæti á milli ára.

Niðurstöður úttektar IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja fyrir árið 2022 voru opinberaðar nú á dögunum. Ísland situr í 16. sæti af 63 löndum yfir samkeppnishæfustu ríki heims og færist upp um fimm sæti á milli ára. Samkvæmt niðurstöðunum erum við svipað samkeppnishæf og Þýskaland, sem er í 15. sæti, og Kína, sem er í 17. sæti.

Íslendingar reka þó enn lestina í samanburði við Norðurlöndin, þar sem Danmörk er fremst meðal þjóða. Þá er Svíþjóð í fjórða sæti, Finnland í því áttunda og Noregur í níunda. Breytingar á toppsætunum eru fyrst og fremst innbyrðis. Þannig bættu Danir samkeppnisstöðu sína og veltu Sviss úr toppsætinu. Á eftir Danmörku og Sviss eru Singapúr, Svíþjóð, Hong Kong og Holland í 3.- 6. sæti listans.

Samkeppnishæfniúttekt IMD háskólans er ein sú umfangsmesta í heiminum og hefur verið framkvæmd í rúm 30 ár. Ísland hefur verið í úttektinni frá árinu 1997 og er Viðskiptaráð samstarfsaðili háskólans hér á landi.

Hvers vegna samkeppnishæfni?

Samkeppnishæfni er forsenda aukinna lífsgæða og efnahagslegra framfara. Samkeppnishæf ríki búa við meiri landsframleiðslu, meiri félagslegar framfarir, betri lífskjör og meiri hamingju. Hugtakið á sér nokkrar skilgreiningar en fyrir nokkrum áratugum var það almennt tengt við hugtakið velsæld. Í þeirri skilgreiningu felst þó ákveðið vandamál því velsæld á sér ólíka merkingu eftir löndum og landsvæðum.

Samkeppnishæfniúttekt IMD byggist því ekki einungis á velsæld ríkja og skilgreinir ekki samkeppnishæfni út frá skammtímamælikvörðum einum og sér, heldur metur hún hvernig ríki stuðla að umhverfi þar sem fyrirtæki geta á sjálfbæran hátt skapað verðmæti til lengri tíma.

Samkeppnishæfniúttekt IMD byggist á breiðum grunni og fjórir meginþættir ráða þar úrslitum. Þeir eru efnahagsleg frammistaða, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og samfélagslegir innviðir. Hver meginþáttur byggist þá á fimm undirþáttum, sem hver ræðst af 10-30 mælikvörðum.

Árangur síðasta áratugar

Síðasta áratuginn hefur samkeppnisstaða Íslands batnað hægt og bítandi, en fyrir áratug raðaði Ísland sér í 26. sæti. Þetta á sér margar skýringar þar sem samkeppnishæfni allra meginþátta hefur batnað verulega, að efnahagslegri frammistöðu undanskilinni. Mestar framfarir hafa orðið í skilvirkni hins opinbera og atvinnulífs. Þá hafa samfélagslegir innviðir styrkst lítillega og standa enn styrkum fótum.

Fjármál hins opinbera og skattastefna dragbítur á skilvirkni hins opinbera

Það eru jákvæðar fréttir að skilvirkni hins opinbera batnar á milli ára og erum við nú í 14. sæti, 24 sætum ofar en fyrir áratug síðan. Helstu framfarirnar má rekja til bætts regluverks atvinnulífs og samfélagslegrar umgjarðar. Opinber fjármál og skattastefna hins opinbera draga þó verulega úr samkeppnishæfni og haldast sætin þar óbreytt á milli ára, eða 24. og 35. sæti.

Jákvæð teikn á lofti í atvinnulífinu

Skilvirkni atvinnulífsins hefur tekið miklum framförum undanfarin ár og sitjum við nú í 8. sæti á listanum, 23 sætum ofar en fyrir áratug síðan. Þannig telst viðhorf og gildismat framúrskarandi, þar sem við mælumst í 1. sæti.

Þar vegur undirflokkurinn sveigjanleiki og gildismat þyngst þar sem við erum fremst meðal þjóða. Það er einkum vegna þess hve opin við erum fyrir alþjóðavæðingu og hversu sveigjanleg við erum þegar áföll dynja yfir, eins og raunin varð í kjölfar útbreiðslu farsóttarinnar. Þar að auki er Ísland í 2. sæti yfir stjórnarhætti fyrirtækja. Þá hefur fjármögnunarumhverfið batnað til muna en aftur á móti er viðskiptaumhverfið aðeins í meðallagi aðlaðandi fyrir erlent starfsfólk, þar sem Ísland skipar 34. sæti.

Samfélagslegir innviðir standa styrkum fótum

Samfélagslegir innviðir styrkjast á milli ára, þar sem við færumst úr 9. sæti upp í það 8. Löngum höfum við staðið styrkum fótum hvað samfélagslegu innviðina varðar en fyrir tíu árum síðan vorum við í 10. sæti.

Bætinguna má helst rekja til aukinna styrkja til rannsóknar- og þróunarstarfsemi, tæknilegra innviða og aukinnar sjálfbærni í atvinnulífinu. Hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa mælist hér mest á byggðu bóli, þar sem Ísland skipar efsta sætið. Tækifæri til framfara felast meðal annars í námsvali þar sem hlutfallslega fáir útskrifast úr raunvísindagreinum hérlendis. Í þeim samanburði er Ísland í 46. sæti. Hér þarf að taka til hendinni.

Veruleg afturför í alþjóðaviðskiptum og alþjóðlegri fjárfestingu

Eins og áður hefur verið komið inn á er efnahagsleg frammistaða eini meginþátturinn þar sem dregið hefur úr samkeppnishæfni og erum við eftirbátur annarra þróaðra ríkja. Við höfum fallið niður um alls tólf sæti á síðustu tíu árum og sitjum nú í 56. sæti, og eru aðeins sjö ríki sem standa verr í þeim efnum.

Þótt staða þjóðarinnar sé góð hvað landsframleiðslu á mann og atvinnustig varðar stöndum við mjög illa þegar kemur að erlendri fjárfestingu og alþjóðaviðskiptum, þar sem við erum 28 og 30 sætum neðar en meðaltal hinna Norðurlandaþjóðanna.

Bæði síðastnefndu atriðin hafa þróast til verri vegar undanfarinn áratug sem bendir til þess að tiltrú umheimsins á íslenska hagkerfinu fari dvínandi. Þannig mælist bein erlend fjárfesting til landsins sem hlutfall af landsframleiðslu svo lág að Ísland skipar 61. sæti af 63 ríkjum í úttektinni. Heilt yfir færist Ísland úr 55. sæti í það 58. hvað alþjóðaviðskipti snertir en fer úr 52. í 49. sæti varðandi alþjóðlega fjárfestingu á milli ára.

Liðka þarf fyrir erlendri fjárfestingu

Af niðurstöðum könnunar IMD að dæma er erlend fjárfesting, bæði til og frá landinu, helsti dragbítur alþjóðlegrar fjárfestingar. Ljóst er að smæðin hefur töluverð áhrif en að teknu tilliti til vergrar landsframleiðslu stöndum við eigi að síður höllum fæti gagnvart öðrum þjóðum og röðum okkur í botnsætin.

Viðskiptaráð Íslands hefur löngum talað fyrir því að liðkað verði fyrir erlendri fjárfestingu en hér draga takmarkanir og séríslenskar reglur úr aðdráttarafli fyrir fjárfesta. Það var því einkum ánægjulegt að heyra menningar-og viðskiptaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, tala um nauðsyn þess að draga úr takmörkunum á erlendar fjárfestingar á morgunfundi Viðskiptaráðs og Arion Banka um samkeppnishæfni sem haldinn var í síðustu viku.

Orð Lilju vöktu mikla athygli en Magnús Harðarson, forstjóri kauphallarinnar á Íslandi, tók í sama streng og benti réttilega á þá staðreynd að hlutfall eigna erlendra fjárfesta í kauphöllinni væri aðeins 5%. Á sama tíma er hlutfall erlendra fjárfesta í viðskiptum hinna Nasdaq Nordic kauphallanna um 72% og því um gífurlegan mun að ræða.

Rétt er að benda á þá staðreynd að samkeppnishæfari hagkerfi upplifa jafnan meiri vöxt á innlendum hlutabréfamörkuðum. Sú staðreynd skiptir sköpum því hagvöxtur einn og sér leiðir ekki sjálfkrafa til vaxtar hlutabréfamarkaða, líkt og The Economist hefur bent á.[1]

Hvað er eftirsóknarvert, og ekki, við Ísland?

Samkeppnishæfni ríkja er að hluta leiðarvísir fyrirtækja um hvar sé vænt rekstrarumhverfi og hvernig ríki stuðli að sjálfbærri verðmætasköpun. Vert er þó að taka fram að mælikvarðinn segir ekki alla söguna. Niðurstöður stjórnendakönnunar IMD, sem er framkvæmd samhliða könnun IMD á samkeppnishæfni, gefa þá auk þess til kynna hvað sé eftirsóknarvert við Ísland að mati stjórnenda. Niðurstöðurnar leiða í ljós að hátt menntunarstig er sá þáttur sem er hvað eftirsóknarverðastur við Ísland en aðlögunarhæfni hagkerfisins batnar jafnframt mikið á milli ára.

Þeir þættir sem eru aftur á móti síst eftirsóknarverðir eru skilvirkni vinnumarkaðarins og samkeppnishæfni í kostnaði. Leiða má líkur að því að ríkulegar launahækkanir hér á landi hafi mikil áhrif. Laun hérlendis í framleiðslugreinum hafa hækkað um tæplega 7% að meðaltali síðustu þrjú ár sem er hátt í þrefalt meiri hækkun en að jafnaði í öðrum þróuðum ríkjum.  Þetta dregur úr samkeppnishæfninni hérlendis en við erum í 59. sæti, eða í því fjórða síðasta, í undirþættinum laun í framleiðslugreinum á vinnustund.

Þessari þróun verður að vinda ofan af og ljúka verður komandi kjaraviðræðum með sátt og skynsemi. Ellegar er hætt við því að samkeppnishæfni Ísland verði teflt í tvísýnu með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðfélagið.

Grein birtist fyrst í Vísbendingu þann 24. júní 2022
Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson, hagfræðingar Viðskiptaráðs

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að ...
4. mar 2024