Leið út úr atvinnuleysinu

Fátt í heiminum er ókeypis, en vel útfærðir hvatar geta einnig verið ábatasamir fyrir ríkissjóð, ekki bara atvinnulausa og fyrirtæki.

Af öllum þeim slæmu áhrifum sem Covid-19 faraldurinn hefur á efnahagslíf landsins er vaxandi atvinnuleysi, líklega þau verstu. Í júlí síðastliðnum, mánuði þegar atvinnuleysi er vanalega einna minnst, voru 21.435 manns á atvinnuleysiskrá eða á hlutabótaleiðinni og samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans verður atvinnuleysi hátt allavega til ársins 2022. Afleiðingin er að fólk fær ekki tækifæri til að sýna hvað í sér býr og sjá fyrir sér og sínum. Það sem meira er þá getur langavarandi atvinnuleysi haft neikvæð áhrif á heilsu, atvinnumöguleika og félagsleg tengsl. 

Lækningar – ekki plástra 

Ómarkviss aukning ríkisútgjalda og hækkun bóta, sem hefur mikið komið til tals í umræðunni, munu því miður ekki leysa grundvallarvandamálið en munu í besta falli milda höggið tímabundið. Við þurfum ekki bara plástra, heldur þurfa bæði stjórnvöld og atvinnulífið að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa viðspyrnu svo draga megi sem hraðast og sem mest úr atvinnuleysinu. Því þarf sérstaklega að vanda til verka og tryggja grundvöll verðmætasköpunar til lengri tíma. Aðeins með það að leiðarljósi getur efnahagslífið náð vopnum sínum. 

Beinskeytt aðgerð að góðu markmiði 

Til að landið rísi á ný þurfa með öðrum orðum að vera forsendur fyrir því að fyrirtæki ráði inn fólk og auki verðmætasköpun sem aftur myndi sporna gegn skaðlegu langtímaatvinnuleysi. Í því ljósi hlýtur að koma til greina að skapa fyrirtækjum einhverskonar aukinn hvata, t.d. með skattaívilnunum, til þess að ráða fólk til starfa. Hægt er að nota fyrirmynd frá Danmörku þar sem ríkið greiðir tímabundið og í sumum tilfellum 50% launa starfsmanna sem eru að koma úr langtímaatvinnuleysi. Rannsóknir hafa bent til þess að þetta hækki atvinnustig til lengri tíma. Sambærilegum úrræðum hefur verið beitt víðar, til dæmis í Sviss og í Frakklandi, með góðum árangri.  

Fleiri störf þegar þörfin er sem mest 

Útfærslan skiptir vitanlega máli en hvernig þetta getur haft góðar afleiðingar hér á landi er auðvelt að gera sér í hugarlund. Launakostnaður fyrirtækja, í hlutfalli við verðmætasköpun þeirra, jókst um 26% á árunum 2014-2019. Nú þegar Covid- 19 faraldurinn stoppar að mestu ferðaþjónustuna og veldur vandræðum víðar í hagkerfinu eru fá fyrirtæki sem hafa mikið bolmagn til sóknar og ráðninga. Með ráðningarhvötum myndu þeir möguleikar aukast og hjálpa fyrirtækjum að vaxa og dafna hraðar en ella. Það skiptir hér máli að það er yfirleitt nokkur kostnaður við það að ráða starfsmann, einkum því fólk þarf þjálfun og að aðlagast nýju starfi. Að komast yfir þann hjalla verður eðli málsins samkvæmt mun kostnaðarminna með ráðningarhvötum. 

Á hinni hliðinni skapast með þessu aukin tækifæri fyrir þá sem hafa verið  án vinnu að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Neikvæðar afleiðingar atvinnuleysis aukast eftir því sem tími þess lengist og því væri ráðningarhvati mikilvægt innlegg til þess að sporna gegn því. 

Rúsínan í pylsuendanum 

Fátt í heiminum er ókeypis, en vel útfærðir hvatar geta einnig verið ábatasamir fyrir ríkissjóð, ekki bara atvinnulausa og fyrirtæki. Bótaþegum myndi fækka, sem dregur úr ríkisútgjöldum, en á hinn bóginn myndu skatttekjur aukast. Þannig má létta á þeim þunga sem Covid-19 faraldurinn leggur á ríkissjóð á sama tíma og atvinnulífið verður betur í stakk búið fyrir viðspyrnuna. 

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 2.september 2020

Tengt efni

Þegar betur er að gáð - Staðreyndir um stöðu heimilanna

Margt bendir til þess að staða heimila sé sterkari en haldið hefur verið fram og ...
11. feb 2022

Er Ísland ekki norrænt velferðarríki?

Efling heldur því fram að Ísland geti ekki talist vera norrænt velferðarríki. ...
6. júl 2022

Það er efnahagslífið, kjáninn þinn

Vonandi farnast ríkisstjórn næstu fjögurra ára vel við að treysta undirstöður ...
29. sep 2021