Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar Landverndar sem ekki gerir ráð fyrir nokkrum einasta hagvexti umfram mannfjölgun.

Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson, hagfræðingar Viðskiptaráðs.

Í síðustu viku birtist grein formanns Landverndar undir titlinum Viðskiptaráð á villigötum. Þar var ætlunin að leiðrétta meintar rangfærslur Viðskiptaráðs um orkumál.

Í grein um leiðréttingar vildi reyndar svo óheppilega til að strax í níunda orði lendir höfundurinn í ógöngum þegar hann vísar til hagfræðinga ráðsins „Elísu Önnu Gunnarsdóttir og Gunnars Úlfarssonar.“ Árangur greinarhöfundar var ekki meiri en svo að hann náði aðeins 60% nafnanna rétt sem því miður gaf tóninn fyrir greinina.

Tilgangurinn með útgáfu Viðskiptaráðs á skýrslunni ORKULAUS/NIR og skrifum hagfræðinga ráðsins í Viðskiptaþingsútgáfu Viðskiptablaðsins þann 9. febrúar var að gera orkuskiptunum greinargóð skil svo taka megi upplýstar ákvarðanir þegar kemur að orkumálum og áhrifum þeirra á lífskjör og efnahag þjóðarinnar.

Í skýrslu Viðskiptaráðs, sem gefin var út samhliða Viðskiptaþingi, voru m.a. settar fram þær sviðsmyndir sem uppfylla markmið stjórnvalda um full orkuskipti. Yfirlit þessara sviðsmynda var fyrst kynnt í stöðuskýrslu orku-, umhverfis- og loftslagsráðuneytis um orkumál.

Verðlaunapallur eða fallbarátta?

Formaður Landverndar segir útreikninga um hagrænan ávinning sviðsmynda orkuskipta, sem gera ráð fyrir aukinni raforkuframleiðslu, háðan mikilli óvissu og í þessu samhengi fullyrðir greindarhöfundur að „almennt viðurkenndar hagfræðikenningar virðast [því] miður ekki vera í miklum metum hjá Viðskiptaráði“.

Þessi athugasemd kemur okkur talsvert á óvart og vekur um leið upp þá spurning hvort greinarhöfundur hafi yfirhöfuð lesið skýrslu Viðskiptaráðs áður en hann hófst handa við ritdóminn. Í skýrslunni segir meðal annars: „Að því sögðu er óljóst hver nákvæm magnáhrif […] eru, þar sem vöxtur greinarinnar getur til dæmis dregið úr vægi annarra atvinnugreina í hagkerfinu og ekki er hægt að segja með fullri vissu hvert framlag þeirra til landsframleiðslu verður í raun.“

Hér er átt við sviðsmyndir sem ganga út frá aukinni raforkuframleiðslu í þágu orkuskiptanna. Mergur málsins er þó að engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar Landverndar sem ekki gerir ráð fyrir nokkrum einasta hagvexti umfram mannfjölgun.

Ef við skoðum áhrifin í stærra samhengi sjáum við að árið 2022 skipaði Ísland 9. sæti á lista OECD-ríkja þegar kom að landsframleiðslu á mann að kaupmáttarjafnvirði, en hagspá stofnunarinnar gerir ráð fyrir því að Íslandi verði í 6. sæti árið 2060. Staðan yrði hins vegar allt önnur ef farið yrði að ráðum Landverndar sem, að öðru óbreyttu, yrðu til þess að Ísland færðist úr því að vera framarlega á meðal hátekjuþjóða í að reka lestina árið 2060, eða í 34. sæti af 38 ríkjum.

Orkuskipti mega ekki bíða

Formaður Landverndar beinir því næst sjónum sínum að grunnstoðum landsins og segir skýrslu Viðskiptaráðs bera þess merki að ráðið hafi litla trú á öðrum greinum atvinnulífsins en orkufrekum iðnaði. Sú túlkun stenst enga skoðun. Ráðið tekur heilshugar undir skrif formannsins þess efnis að hagsæld hvíli á mörgum stoðum atvinnulífsins. Hins vegar liggur í augum uppi að engin atvinnugrein er fullkomlega óháð orku og leikur orka þannig mikilvægt hlutverk í verðmætasköpun þjóðarinnar. Það er því vænlegra til vinnings að fjölga stoðum hagvaxtarins fremur en að útrýma þeim markvisst, t.d. með orkuskorti.

Af skrifum formannsins að dæma virðist hann auk þess telja að Viðskiptaráð leggi til sniðgöngu á þeim reglum sem eiga að tryggja að gætt sé að áhrifum virkjunarkosta á náttúru og umhverfi og vísar í því samhengi til faglegrar og vandaðrar rammaáætlunar. Staðreyndin er hins vegar sú að afgreiðsla leyfisveitinga í orkumálum hefur ekki einkennst af faglegum vinnubrögðum að undanförnu. Lögbundnir frestir hafa verið virtir að vettugi og afgreiðsla rammaáætlunar sífellt dregist á langinn.

Viðskiptaráð kallar sannarlega ekki eftir neinum afslætti af ferlinu sem slíku, þvert á móti, heldur að leikreglum sé fylgt og að skilvirkni sé höfð að leiðarljósi þegar kemur að ákvörðunum um framtíðarorkuöflun þjóðarinnar í þágu orkuskipta og vaxtar þjóðfélagsins.

Hvað tæknilausnir varðar telur Viðskiptaráð að þegar orkuþörf orkuskiptanna er áætluð sé nærtækast að styðjast við þá tækni sem við búum að í dag frekar en að sitja og bíða eftir lausnum framtíðarinnar, sem vissulega munu samt létta róðurinn þegar þar að kemur. Við eftirlátum þó sérfræðingunum að fjalla um og koma með téðar lausnir sem iðulega koma frá einkaframtakinu og því er brýnt að auka þeirra aðkomu, hvort sem um er að ræða innlendar eða erlendar lausnir.

Líkt og Landvernd, kallar Viðskiptaráð eftir orkuskiptum sem við getum verið stolt af. Full orkuskipti í sátt og samlyndi við náttúru þar sem gætt er að efnahagslegum áhrifum. Við skulum stefna ótrauð áfram á verðlaunapallinn í öllum greinum þessara þríþrautar.

Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson, hagfræðingar Viðskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu og á vb.is 1. mars.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um ...
21. mar 2024