Lífskjarasamningur síns tíma í húfi

Það er erfitt að sitja á sér í ljósi þess hvert umræðan um þriðja orkupakkann er komin - en svo virðist sem umfangsmesta og mikilvægasta milliríkjasamningi Íslands að ósekju teflt í tvísýnu.

Yfirlýsingar þeirra semfara fremstir í flokki í andstöðu við þriðja orkupakkann og halda að þjóðin muni missa vald yfir orkuauðlindum landsins (sem er ekki rétt) og að sæstrengur verði lagður að okkur forspurðum (sem er heldur ekki rétt),vekja upp grunsemdir um, að það sem raunverulega liggur undir, sé andstaða við veru Íslands í EES.

Vert er því að minna á að útflutningur er forsenda blómlegs atvinnulífs og nútíma lífsgæða. Með EES samningnum hefur Ísland aðgang að um 500 milljón manna innri-markaði ESB og EFTA einu stærsta fríverslunarsvæði heims. Á þeim 25 árum sem liðin eru frá innleiðingu EES hefur útflutningur Íslands vaxið um 269% - um tvöfalt meira en 25 árin þar á undan. Samhliða hefur kaupmáttur launa aukist um 86%. EES samningurinn er því í vissum skilningi lífskjarasamningur síns tíma og verður það áfram.

Það er gömul saga og ný að helstu vonarstjörnur íslensks viðskiptalífs eru þau fyrirtæki sem byggja útflutning sinn á tækni og hugviti fremur en íslenskum auðlindum. Þau eru ekki landfræðilega bundin og hefðu geta byggst upp annars staðar. Dæmi um slík fyrirtæki eru velþekkt; Marel, Össur, o.fl. - sem líklega hefðu ekki orðið til í þeirri mynd sem þau eru hefðu þau ekki fengið að keppa á jafnræðisgrundvelli án tolla og annarra viðskiptahindrana innan EES.

Sé markmið okkar að tryggja áframahaldandi hagvöxt og góð lífskjör hér á landi er lykilatriði að slík fyrirtæki fái að vaxa og dafna hér á landi. Forsenda þess er samkeppnishæft, upplýst og opið hagkerfi – og áframhald á veru okkar í EES.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaraáðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 9. maí 2019

Tengt efni

​Í grænu gervi: Grænir skattar og aðgerðir í loftslagsmálum

Grænir skattar hafa vaxið og breyst síðustu ár. Mikilvægt er að þeir séu ...
15. jan 2020