Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ríkissjóðs, þannig munu fjármunirnir skila sér þangað sem þörfin er mest.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs

„Verðbólgufár, verðbólgutár, vor verðbólguást seint mun mást“ er sungið í laginu Verðbólgan með  Brimkló. Höfundurinn hefur augljóslega sótt innblástur í verðlagsþróun samtímans en þegar lagið kom út árið 1979 mældist verðbólga 45%. Þrátt fyrir ákveðinn stigsmun á inntak textans enn vel við, enda finna landsmenn nú hversu skæð verðbólgan getur verið.

Það má eflaust deila um orsök verðbólgunnar sem Brimkló syngur um en til er önnur tegund verðbólgu sem er af allt öðrum meiði. Það er svokölluð lífstílsverðbólga en hugtakið lýsir því þegar tekjuauka er sífellt varið í að auka ónauðsynleg útgjöld. Að öllum líkindum upplifa hana flestir að loknu námi þegar föst laun taka við af námslánum, við stöðuhækkun eða ríflega launahækkun. Þeir sem lífstílsverðbólgan hrjáir eiga það til að eyða um efni fram sama hvað tekjur hækka. Eina leiðin til velfarnaðar er að taka á rót vandans sem finna má í útgjöldunum. Það má hæglega færa rök fyrir því að íslensk stjórnvöld séu haldin alvarlegri lífsstílsverðbólgu enda er fyrirséð að ríkissjóður verði rekinn með miklum halla, þrátt fyrir gríðarlegan tekjuauka undanfarin ár.

Um mitt ár 2020 var skyggni í efnahagsmálum lítið sem ekkert og ríkti mikil óvissa um hvernig ríkissjóður kæmi undan faraldri. Á fyrstu tveimur árum heimsfaraldurs juku stjórnvöld útgjöld um 186 milljarða, sem samsvarar staðgreiðsluskyldum tekjum allra Kópavogsbúa árið 2022. Útgjaldaaukningin var áður óheyrð en á sínum tíma var nokkur meðbyr með aðgerðunum enda skýrt tekið fram að þær yrðu einungis tímabundin ráðstöfun.

Skyggnið batnaði fljótt og skilaði skarpur viðsnúningur í efnahagnum miklum fjármunum í ríkissjóð og var tekjuvöxtur undanfarinna ára einn sá mesti meðal allra OECD ríkja. Þannig er áætlað að ófyrirséður tekjuauki ársins í ár nemi alls 112 milljörðum og upplagt hefði verið að nýta slíkan hvalreka til að loka fjárlagagatinu. Batnandi tekjuhorfur ár eftir ár duga þó skammt þegar auknu fé er sífellt veitt í ný verkefni og þrátt fyrir viðsnúninginn er ekki áætlað að afgangur verði af rekstri ríkissjóðs fyrr en árið 2026.

Fyrsta skref í átt að bata er að viðurkenna vandann. Stjórnvöld hafa loksins boðað aðhald í fjárlögum næsta árs og ber því að fagna. Aðhaldið er tvískipt. Annars vegar er boðað aðhald á tekjuhlið þar sem fyrirhugað er að auka álögur á fólk og fyrirtæki í landinu. Það skýtur skökku við þar sem skattheimta á Íslandi er ein sú mesta sem fyrirfinnst og tekjustofnar styrkst langt umfram væntingar. Hins vegar eru boðaðar aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið og á að draga úr útgjöldum um 17 milljarða. Dropi í haf útgjaldaæðis undanfarinna ára en ber þó að fagna.

Fögur fyrirheit um aðhald hafa litla merkingu þegar samstaða um markmiðin með þeim er lítil á Alþingi. Allir vilja betri afkomu en fáir vilja spara enda hafa útgjöld ríkissjóðs tilhneigingu til að aukast um 8 – 10% frá fjárlagafrumvarpi til ríkisreiknings. Það gæti hæglega þýtt 120 milljarðar í aukin útgjöld á næsta ári– og allur tekjuauki síðasta árs færi því beint út um gluggann.

„Kort upp á krít, í kostnað ei lít, allt falt vil ég fá,“ svo áfram sé vitnað í tímamótatextasmíði Brimklóar. Með þessu er átt við freistnina til þess að eyða sífellt meira á tímum mikillar verðbólgu en margt bendir til þess að fyrirtæki og heimili falli síður í þá freistni og sýni þess í stað ráðdeild í rekstri. Stjórnvöld ættu að fara að þeirra fordæmi enda fer þriðja hver króna sem verður til hér á landi í ríkisútgjöld. Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ríkissjóðs, þannig munu fjármunirnir skila sér þangað sem þörfin er mest.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.

Tengt efni

Umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024

„Viðskiptaráð fagnar því að lögð sé áhersla á aukið aðhald ríkisfjármála en ...
10. okt 2023

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Stöndum vörð um árangur á vinnumarkaði

Á meðan kaupmáttur í kringum okkur rýrnar stendur hann í stað Íslandi
4. okt 2023