Með nútímann í símanum

Þegar ég flutti að heiman var áskrift að Morgunblaðinu eitt það fyrsta sem ég leyfði mér. Það var einhvern veginn óhugsandi að fá ekki nýjustu fréttir inn um lúguna. Þess ber að geta að þetta var árið 1995, ég var 21 árs og þetta var í alvöru forgangsmál. En svo kom nútíminn og nú les ég meira að segja pappírsútgáfu Moggans í símanum. Og ég held að ég sé ekkert verr upplýst en þegar ég fletti blaðinu með tebollanum mínum á morgnana.

Stafræna byltingin er kannski hljóðlát en hún er mögnuð. Stjórnvöld stukku endanlega á vagninn á þessu kjörtímabili og stofnuðu Stafrænt Ísland. Markmiðið er að gera þjónustu ríkisstofnana við almenning og fyrirtæki aðgengilegri, spara tíma og ekki síst – peninga. Um leið er eðlilegt að hið opinbera geri öðrum kleift að nýta tækifærin til að draga úr kostnaði í samskiptum og viðskiptum með viðeigandi tæknilausnum, en stundum setja lög og reglugerðir því ákveðin mörk.

Betri upplýsingar til neytenda

Á dögunum voru birt drög í samráðsgátt að breytingum á reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Málið snýst um stafrænar merkingar á vörum og getur átt við um allar matvörur, en við fyrstu sýn myndu breytingarnar sérstaklega bæta aðgengi vara sem fluttar eru inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ástæðan er sú að þær þarf yfirleitt að merkja sérstaklega með álímdum miða samkvæmt reglum ESB. Þessar endurmerkingar kosta sitt og hækka því vöruverð, fyrir utan að vera í raun viðskiptahindrun gagnvart ýmsum framleiðendum utan Evrópusambandsins.

Í drögunum er lagt til að neytendur nálgist upplýsingarnar með því að skanna strikamerki eða kóða á vörunni með appi í síma eða búnaði í verslun ef þeir nota ekki snjallsíma. Verði þessi breyting að veruleika verður ekki einungis hægt að leggja af sérmerkingar með límmiðum, og lækka þannig kostnað og vöruverð, heldur er einnig hægt að veita ýtarlegri upplýsingar en komast fyrir á prentuðum miða (sem er hvort sem er með svo smáu letri að enginn yfir fertugu getur lesið hann). Þannig er til dæmis hægt að gefa nákvæmari upplýsingar um vöruna, kolefnisspor eða rekjanleika. Svo eiga neytendur að geta sérsniðið appið að eigin þörfum, svo sem ef þeir vilja að forritið vari þá við ákveðnum innihaldsefnum.

Í umsögnum við málið í samráðsgátt hafa komið fram áhyggjur af misræmi milli áherslna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem leggur þessar breytingar fram, og regluverks ESB. Þessi breyting gengur nefnilega lengra en framkvæmdastjórn ESB treystir sér til að gera núna. Og reyndar á næstu árum.  Engin tillaga um breytingar er í farvatninu hjá sambandinu fyrr en hugsanlega árið 2024, og þá er óvíst hvað gæti falist í slíkri tillögu eða hversu langt hún myndi ganga. Í öllu falli myndi svo taka nokkur ár frá framlagningu að fá breytingar samþykktar, ekki síst sökum þess að ríki ESB eru misvel í stakk búin til þess að innleiða stafræna þjónustu. Það er því útlit fyrir að lægsti samnefnarinn ráði þróun þessara mála innan sambandsins.

Tilgangur merkingareglugerðarinnar, eins og hún er nú, er að tryggja aðgang neytenda að réttum upplýsingum – með límmiða. Það markmið má uppfylla með nútímatæknilausnum, en um leið er unnt að draga úr kostnaði, lækka vöruverð og veita neytendum á Íslandi betri upplýsingar. Það er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir einhvers konar aðlögunartímabili til að tryggja að öll viðmið séu uppfyllt, en vonandi fá neytendur og íslenskt atvinnulíf samt sem áður að njóta þess að nútíminn virðist koma fyrr á Íslandi en í ESB.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24.mars 2021.

Tengt efni

Viðskiptaráð bakhjarl rannsóknar í því hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu

„Tilgangur rannsóknanna og framlag til vísindasamfélagsins er að koma auga á og ...
25. okt 2023

Gerðardómur Viðskiptaráðs innleiðir stafræna lausn Justikal

"Með tilkomu stafræna réttarkerfisins getum við veitt skjólstæðingum okkar ...
24. apr 2023

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022