Mótsagnakenndar áhyggjur af bankasölu

Staðreyndin er sú að enginn er að tala um að draga að miklu leyti úr eigin fé bankanna eða að það verði á sömu slóðum og fyrir 2008.

Er umræða um kosti og galla þess að draga úr eignarhlut ríkisins í bönkunum mikilvæg? Tvímælalaust, enda er að ýmsu að huga til að slíkt ferli gangi vel. Um helgina var rætt við Gylfa Magnússon prófessor í Sprengisandi á Bylgjunni um þessi mál. Þar kom fram ýmislegt sem horfa þarf til við sölu á eignarhlut í bönkunum og að margir væru skiljanlega brenndir af reynslu síðustu bankasölu, sem líka þarf að horfa til svo sömu mistök verði ekki aftur gerð. Því miður komu líka fram atriði sem eru ekki endilega til þess fallin að stuðla að upplýstri umræðu um málið.

Í fyrsta lagi sagði Gylfi að „kalt vatn [renni] milli skinns og hörunds þegar maður heyrir þessa frekar glannalegu umræðu um eigið fé banka aftur“ og vísaði, að því er virðist, til umræðu um hvort eitthvert svigrúm sé til að greiða út það eigið fé sem er umfram lágmörk Seðlabankans. Þá minntist Gylfi á að bankarnir hefðu verið endurskipulagðir árið 2009 með mun meira eigin fé en áður. Það eru nokkrar ýkjur af gögnum Seðlabankans að dæma enda var vogunarhlutfall, sá mælikvarði á eigið fé sem Gylfi kýs að nota, einungis einu prósentustigi hærra í árslok 2009 heldur en í árslok 2007. Síðan þá hefur eigið fé þó aukist og er 15,6% á þennan mælikvarða, sem er sögulega mjög hátt. Þá kom fram í Hvítbók um fjármálakerfið árið 2018 að hvergi í Evrópu búi bankar við jafn hátt vogunarhlutfall. Það hefur lítið breyst síðustu misseri og er hlutfallið í Arion banka t.d. ekki aðeins hærra, heldur tvö- til þrefalt hærra en í bönkum á Norðurlöndunum. Athyglisvert er að prófessor í fjármálum og hagfræði bregðist svo sterkt við umræðu um að lækka lítillega mesta eigið fé í Evrópu og (nánast) í Íslandssögunni. Staðreyndin er sú að enginn er að tala um að draga að miklu leyti úr eigin fé bankanna eða að það verði á sömu slóðum og fyrir 2008.

Í öðru lagi hefur Gylfi áhyggjur af því að hugsanlegir verðandi eigendur Íslandsbanka lækki eigið fé bankans með arðgreiðslum sem muni draga úr lánveitingum til heimila og fyrirtækja og vísaði þar til Arion banka. Hér þarf að staldra við. Á árunum fyrir fjármálakreppu var hlutfall eigin fjár í bankakerfinu mun lægra en samt jukust útlán um tugi prósenta á hverju ári. Enda er það svo að margt annað en arðgreiðslur hefur ráðandi áhrif á útlánagetu, t.d. regluverk og rekstrarumhverfi. Þá er staðreyndin sú, án þess að hér sé mælt með því, að lækkun eiginfjárhlutfalls getur einnig endurspeglað aukinn útlánavöxt. Fleiri þættir í ytra umhverfinu, t.d. skattlagning, beiting peningastefnu og lausafjárkröfur, geta haft afgerandi áhrif. Það er allavega mótsagnakennt að vara við því að einkaaðilar fari of glæfralega í bankarekstri á sama tíma og það er varað við því að bankar í eigu einkaaðila dragi saman seglin.

Loks sagði Gylfi það borga sig fyrir ríkið að eiga Íslandsbanka áfram og fá arðgreiðslur sökum þess hve lágir vextir ríkisins eru. Ríkið býr raunar í öllu samhengi að því að búa við lægstu vextina, í krafti skattlagningar og peningaprentunar. Ég er að velta fyrir mér að kaupa eða taka bíl í langtímaleigu þessa dagana, en með rökum Gylfa væri hagstæðast að ríkið myndi fjármagna bílinn og ég myndi svo greiða ríkinu leigu (arð). Með öðrum orðum ætti ríkið að fjármagna allt mögulegt og ómögulegt í heiminum með rökum Gylfa. Skautað er þægilega fram hjá þeirri áhættu sem felst í bankarekstri og leiða til þess að arðgreiðslur geta verið mjög sveiflukenndar eins og í öðrum rekstri.

Sem fyrr segir benti Gylfi á ýmis atriði sem þarf að hafa í huga við sölu bankanna, t.d. að eignarhald skipti máli og að það sé ekki gefið að bankarekstur á höndum einkaaðila eða ríkisaðila sé landsmönnum til hagsbóta. Mikilvægt er að huga að hvoru tveggja og mun nýeflt fjármálaeftirlit og aukin áhersla á fjármálastöðugleika í Seðlabankanum þar skipta miklu máli. Það eru sjónarmið sem þarfnast umræðu, miklu frekar en illa rökstuddur hræðsluáróður.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24.febrúar 2021.

Tengt efni

Umsögn um frumvarp til laga um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka

Viðskiptaráð Íslands fagnar áformum um að gengið verði frá sölu á eignarhlut ...

Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir ...
12. mar 2024