Ofeldi neikvæðnipúkans

Geta, hugvit og aðlögunarhæfni mannsins vekur manni undrun á hverjum degi. Öll höfum við samt galla og sumir eiginleikar okkar geta verið til trafala. Einn þeirra er tilhneiging okkar mannfólks til þess að bregðast við neikvæðum hugsunum með sterkari hætti en jákvæðum hugsunum. Sálfræðingar hafa nefnt þennan galla „neikvæðni-bjögun“ sem lýsir sér til dæmis í því að ef við sjáum mynd af einhverju sem vekur jákvæðar tilfinningar (t.d. ungbörn) eða neikvæðar tilfinningar (t.d. dauður fugl) þá sýnir heilinn mun sterkari viðbrögð við því neikvæða. Þetta hafa rannsóknir í sálfræði sýnt fram á og því hefur verið haldið fram að þetta sé hluti af okkar sjálfsbjargarviðleitni til að forðast hættur.

Við erum ekki sálfræðingar og ætlum því ekki að rýna nánar í hvað veldur, en þessi niðurstaða er engu að síður áhugaverð sé henni varpað yfir á stöðu mála á Íslandi. Enginn velkist í vafa um að skortur á heilbrigðri gagnrýni getur komið okkur í koll en engu að síður virðist sem við höfum stundum farið of langt í hina áttina á síðustu mánuðum þegar heyrst hafa daglegar fréttir af átökum á vinnumarkaði, loðnubresti og erfiðleikum í flugrekstri og ferðaþjónustu.

Ekki skal gert lítið úr þeim áskorunum og áhrifum. Hvort sem neikvæðnin hefur sigrað jákvæðnina eða ekki virðist samt gott tilefni til þess að það séu sterkar og efnislegar forsendur til að líta á stöðu mála með björtum augum. Sagt er að á móti hverri neikvæðri tilfinningu þurfi tíu jákvæðar tilfinningar eða upplifanir til að vega upp á móti neikvæðninni svo hér eru 10 jákvæð atriði:

  1. Lífskjör á Íslandi hafa á flesta mælikvarða batnað á undanförnum árum og áratugum. Til að mynda er landsframleiðsla á mann um 18-falt meiri en hún var fyrir 100 árum síðan.
  2. Vextir á Íslandi hafa sjaldan verið lægri og ef horft er á vexti á fjármálamarkaði hafa þeir aldrei verið lægri. Seðlabanki Íslands er í dauðafæri til að lækka vexti enn frekar og koma þeim þannig í samkeppnishæft horf.
  3. Útflutningur Íslands hefur margfaldast síðustu áratugi og þar á meðal aukist um um 269% á árunum 25 frá inngöngu í EES, samanborið við 131% árin 25 á undan.
  4. Á sama tíma, eða frá 1994, hefur kaupmáttur landsmanna aukist um 86% og hefur aldrei verið meiri.
  5. Jafnvel þó að spádómar svartsýnisradda verði ofan á er staða Íslands til að takast á við efnahagslega erfiðleika sterkari en nokkru sinni fyrr. Enn er hér viðskiptaafgangur og Ísland er hreinn lánveitandi við útlönd.
  6. Skuldastaða er almennt hófleg og sögulega lítil, hvort sem horft er á atvinnulífið, heimili eða hið opinbera sem eykur getuna til að takast á við áföll.
  7. Lágmarkslaun á Íslandi voru meðal þeirra hæstu í heiminum áður en lífskjarasamningarnir voru samþykktir.
  8. Þrátt fyrir áföll svo sem loðnubrest og samdrátt í ferðaþjónustu var atvinnuleysi í mars einungis 2,9%.
  9. Ferðamönnum í apríl fækkaði aðeins um 6 prósentustigum meira en spá Isavia gerði ráð fyrir, þrátt fyrir fall Wow air.
  10. Ísland er í 2. sæti af 146 á lista yfir félagslegar framfarir, mælikvarða sem „...endurspeglar hæfni samfélags til að mæta grunnþörfum borgaranna, stuðla að og viðhalda lífgæðum þeirra og skapa hverjum tækifæri til betra lífs“.

Horft fram á veginn eru miklar áskoranir, t.d. uppbygging nýrra atvinnugreina, tæknibreytingar, barátta gegn hlýnun jarðar og öldrun þjóðarinnar. Sagan og upptalningin hér að ofan sýnir okkur að við getum tekist á við þær.

Við erum sífellt að reyna að feta hinn gullna meðalveg bjartsýni og varfærni. Lífið er vissulega hverfult og gangur atvinnulífsins er upp og ofan. Þá er gott að muna að stundum er púki sem togar huga okkur að ósekju á neikvæðar slóðir – höldum honum á mottunni.

Höfundar eru Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, og Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10.maí 2019

Tengt efni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023

Lifandi hundur er öflugri en dautt ljón

„Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun ...
26. sep 2022

Er krónan nógu sterk til að vera sterk?

Hagsmunir allra eru að koma í veg fyrir ofris krónunnar sem leiðir til ...
9. jún 2021