Ótímabærar launahækkanir

Að ráðast í launahækkanir á tímum þegar fjölmörg fyrirtæki eiga á hættu að fara í þrot á næstu mánuðum og auka þannig enn á atvinnuleysið er ekki að mínu viti skilgreining samstöðu.

Staða mála í dag er einfaldlega þannig að íslensk fyrirtæki, með dyggri aðstoð stjórnvalda, róa nú öllum árum að því að verja störf í landinu, verðmætasköpun og þar með lífsviðurværi heimilanna. Mitt í þessum stormi standa svo til umtalsverðar almennar launahækkanir. Ég velti því fyrir mér hvort ekki færi best á því, svo hægt væri að halda fleirum frá atvinnuleysisskrá, að fresta þeim launahækkunum, að minnsta kosti fram á árið.

Ljóst er að útbreiðsla kórónaveirunnar og ráðstafanir til að hamla útbreiðslu hennar hafa þegar haft víðtæk efnahags- og samfélagsleg áhrif. Þessi áhrif munu aðeins aukast á næstu vikum. Ferðaþjónustan er nánast í alfrosti, henni fylgja mörg afleidd störf sem tapast, auk þess sem einkaneysla og fjárfesting dregst saman. Áhrifanna gætir í nær öllum atvinnugreinum um allt land.

Við þessar aðstæður liggur fyrir að atvinnuleysi eykst verulega. Hins vegar er ekki ástæða til að ætla annað á þessu stigi en að samdráttarskeiðið geti orðið skammvinnt og því er mikilvægt að reyna að halda fyrirtækjum gangandi með öllum tiltækum ráðum. Hlutabótaúrlausn stjórnvalda hefur þegar sannað gildi sitt t.a.m þegar kemur að flugrekstri en tvö flugfélög á Norðurlöndunum hafa sagt upp 90% af starfsfólki sínu. Á Íslandi er sú tala ekki nema 5% þó annað starfsfólk þurfi að taka á sig einhverja skerðingu ýmist í formi starfshlutfalls, launalausra leyfa eða launa.

Að óbreyttu mun launakostnaður hækka um tugi milljarða á ársgrundvelli miðað við fyrirliggjandi launahækkanir. Hafa íslensk fyrirtæki efni á því í núverandi árferði? Einfalda svarið við þeirri spurningu er: Nei. Um þessar hækkanir var samið við allt aðrar aðstæður en uppi eru nú. Mætti ekki a.m.k. slá þeim á frest en skoða um leið hvort að einhverju marki megi verja þá sem lægstu launin hafa?

Það er hagsmunamál allra að halda sem flestum í vinnu, koma sem flestum fyrirtækum í gegnum þessar áskoranir, sem flestir standi í báða fætur þegar þessum ósköpum lýkur. Hér ætti allur vinnumarkaðurinn að vera undir. Hið opinbera þarf líka að ganga á undan með góðu fordæmi og það gildir einnig þar að tími til almennra launahækkana verður að bíða. Þar er ennfremur fólk í þeirri forréttindastöðu að eiga í bili ekki hættu á atvinnumissi.

Einhver stærsta áskorun okkar samfélags síðustu ár kallar á að allir taki stöðunni alvarlega og sýni samstöðu. Að ráðast í launahækkanir á tímum þegar fjölmörg fyrirtæki eiga á hættu að fara í þrot á næstu mánuðum og auka þannig enn á atvinnuleysið er ekki að mínu viti skilgreining samstöðu.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. mars 2020

#COVID-19-vaktin

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Fleiri víti 

„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og ...
31. jan 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023