Regluráð - sameiginlegur flötur?

Hægðarleikur ætti að vera fyrir ríkisstjórnarflokkana að bæta umhverfi lagasetningar í sátt.

Fréttaflutningur undanfarinna daga bendir til þess að stjórnarmyndunarviðræður séu á síðustu metrunum og að sú ríkisstjórn sem við þekkjum núorðið ágætlega, verði að veruleika. Miðað við þá ólíku hugmyndafræði sem flokkarnir aðhyllast hefur vafalaust þurft að yfirstíga ýmsar hindranir í viðræðunum og miðla málum í hinum ýmsu málaflokkum. Þegar þrætueplunum sleppir eru þó innan seilingar framfaramál sem passa vel við stefnumál flestra stjórnmálaflokka og hlýtur að vera kappsmál þeirra að framkvæma. Eitt slíkt mál varðar í raun og veru vinnubrögðin sem eru viðhöfð við lagasetningu. 

Viðskiptaráð hefur í gegnum tíðina ítrekað beitt sér fyrir einfaldari löggjöf og regluverki, öllum til hagsbóta. Líkt og fram kom í nýrri útgáfu Viðskiptaráðs: Laglegt regluverk óskast, og finna má á vefsíðu ráðsins, vi.is, er ástæða til að setja þessi mál sérstaklega á oddinn á kjörtímabilinu enda hefur Ísland dregist aftur úr helstu samanburðarlöndum þegar kemur að lagaumhverfi atvinnulífs, til dæmis þegar kemur að mælingum IMD á samkeppnishæfni. OECD hefur einnig bent á tækifæri til úrbóta hvað þetta varðar, n.t.t. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Til að gera langa sögu stutta er skilvirkt regluverk lykilatriði til að Ísland geti staðist öðrum ríkjum snúninginn í alþjóðasamkeppni og tryggja lífsgæði. 

Leiða má líkur að því, í það minnsta í einhverjum tilvikum, að ástæðan fyrir þyngslum í regluverki sé að hlutirnir hafi í upphafi ekki verið hugsaðir til enda. Með því að lágmarka í hvert sinn líkur á því að lög íþyngi umfram tilefni má þannig stuðla að einfaldari löggjöf heilt á litið; margt smátt gerir eitt stórt. Skref í rétta átt hafa verið tekin í þessa veru, en í 66. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015 er mælt fyrir um að ætluð áhrif lagafrumvarpa skuli metin áður en þau eru lögð fram í ríkisstjórn og á Alþingi. Greinin hefur yfirleitt orðið til þess að ítarlegri upplýsingar um fjárhagsleg áhrif lagafrumvarpa á ríkissjóð hafa komið upp á yfirborðið, en borið hefur á því að matinu hafi að öðru leyti ekki verið sinnt sem skyldi.  

Ein leið, sem nágrannaríki okkar hafa farið, er að stofnsetja sjálfstætt regluráð sem leggur heildstætt hagfræðilegt mat á lagafrumvörp áður en slík mál koma til umfjöllunar á þjóðþingi. Slík ráð þjóna því í senn aðhalds- og upplýsingarhlutverki og eru sjálfstæð í störfum sínum. Í slíkum ráðum sitja yfirleit hvort tveggja fræðimenn og fólk með reynslu úr viðskiptalífi. Svo dæmi sé tekið er meginhlutverk norska regluráðsins fjórþætt: Að gera ráðgefandi skrifleg álit á lagafrumvörpum og breytingum á reglugerðum sem hafa áhrif á umhverfi viðskiptalífsins og önnur viðeigandi mál, að fylgja nýjustu stefnum og straumum á sviði einföldunar regluverks og leiðbeina með almennum hætti um leiðir til að gera löggjöf skilvirka og aðstoða ráðuneyti við rannsókn á mati á áhrifum sem fylgja gerðum Evrópusambandsins. Með þessi verkefni í farteskinu er lagafrumvörpum gefnar einkunnir og nýju ljósi varpað á þau, sem til dæmis getur nýst í hefðbundnum umræðum um málin á vettvangi löggjafans.  

Með framangreint í huga er þörf á því að formfesta betur hvernig skilvirk löggjöf er mótuð með hliðsjón af bestu mögulegu þekkingu. Þar þyrfti til dæmis reynslan af 66. gr. laga um opinber fjármál að koma til skoðunar auk þess sem að æskilegt væri að móta nýjar leiðir til að hámarka gæði löggjafarinnar. Mat á áhrifum laga og reglna, bæði fyrir fram og eftir á, er sjálfsagt gæðamál sem þarf að leggja áherslu á. Í ljósi þess hve vel ríkisstjórnarsamstarf tókst á síðasta kjörtímabili, þrátt fyrir ólíkar hugsjónir, ætti það að vera sömu flokkum hægðarleikur að bæta umhverfi lagasetningar í sátt. 

Jón Birgir Eiríksson, sérfræðingur á lögfræðisviði Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum, 10. nóvember 2021.

 

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Laglegt regluverk óskast

Átak og áhersla á einfaldara og skilvirkara regluverk var á meðal loforða ...
2. nóv 2021

Viðskiptaráð kynnti áherslur sínar á kosningafundi í morgun

Viðskiptaráð Íslands bauð fulltrúum stjórnmálaflokka til fundar og þáðu ...
15. sep 2021