Rekstur hins opinbera á krossgötum

Hið opinbera gegnir veigamiklu hlutverki í vestrænum ríkjum. Umfang þess hefur vaxið mikið víðast hvar og Ísland er þar engin undantekning. Upp að vissu marki má rekja þetta til breytinga á samfélagsgerð sem almenn sátt ríkir um. Þannig skýra uppbygging mennta- og heilbrigðiskerfisins og félagslegar tilfærslur hluta af útgjaldaaukningu undanfarinna áratuga. En auk þessara verkefna hefur hið opinbera tekið að sér önnur umdeildari hlutverk og umfang þess samhliða vaxið umfram það sem æskilegt getur talist.

Nú er svo komið að blikur eru á lofti hvað varðar sjálfbærni núverandi fyrirkomulags. Þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir síðustu ára eru miklar áskoranir enn framundan í opinberum fjármálum. Skattahækkanir og samdráttur í opinberri fjárfestingu útskýra stærstan hluta þess rekstrarbata sem hefur átt sér stað frá hruni og ekki hefur verið ráðist í endurskoðun á umfangi og hlutverki hins opinbera. Skuldastaða hins opinbera er enn slæm, vaxtabyrði mikil og framundan eru breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar sem enn munu auka á útgjaldaþrýstinginn.

Lausnir krefjast breytinga
Með þetta í huga er mikilvægara en nokkru sinni að auka hagkvæmni í opinberum rekstri. Til þess eru tvær leiðir færar: forgangsröðun verkefna og aukin framleiðni. En til að hægt sé að feta þær leiðir þarf í mörgum tilfellum að ráðast í kerfisbreytingar. Þrátt fyrir að bæði rök og vilji sé til staðar fyrir breytingum hefur innleiðing þeirra reynst erfið. Almennt viðhorf gagnvart breytingum er neikvætt, enda fela þær í sér óvissu og fyrirhöfn. Í þeim tilfellum þar sem sértækir hagsmunir eru miklir standa hagsmunaaðilar gjarnan í vegi fyrir breytingum þrátt fyrir að þær séu í þágu heildarhagsmuna.

Til að vinna á þessu þarf að skapa betri samstöðu um breytingar hérlendis og efla getu stjórnmálanna og annarra til að takast á við þær áskoranir sem þeim fylgja. Færa þarf umræðuna í málefnalegri og uppbyggilegri farveg og draga hagsmunaaðila að borðinu. Slík nálgun er til þess fallin að auka sátt um þær breytingar sem skila framtíðarávinningi, jafnvel þó þær hafi neikvæð áhrif á afmarkaðan hóp til skemmri tíma.

Viðskiptaráð hefur lagt lóð sín á vogarskálarnar til að unnt verði að skapa slíka samtöðu. Ráðið tók virkan þátt í úttekt McKinsey & Company á íslenska hagkerfinu árið 2012, tillögum verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld árið 2013 og fjallar stöðugt um sóknarfæri breytinga í málefnastarfi sínu. Viðskiptaþing er hryggjarstykki málefnastarfs Viðskiptaráðs og viðfangsefni þess í ár er opinberi geirinn. Þar verður meðal annars fjallað um áskoranir við innleiðingu breytinga og leiðir til að skapa aukna samstöðu um umbætur í opinberum rekstri. Það er von okkar að með málefnalegri umræðu um þessi atriði megi breyta viðhorfum margra og greiða fyrir innleiðingu kerfisbreytinga sem bæta lífskjör til lengri tíma litið.

Sameinumst um breytingar
Það er auðvelt að koma sér saman um markmið. Allir geta verið sammála um að hér eigi lífskjör að vera með því besta sem gerist í heiminum, að þau eigi ekki að vera á kostnað komandi kynslóða og að allir eigi að hafa tækifæri til að láta að sér kveða í samfélaginu. Það er aftur á móti erfiðara að koma sér saman um að innleiða þær breytingar sem eru vel til þess fallnar að ná þessum markmiðum.

Það er skýr afstaða Viðskiptaráðs að grundvöllur bættra lífskjara felist í bættri samkeppnishæfni og þar með aðstæðum til aukinnar verðmætasköpunar. Heilbrigt og kraftmikið atvinnulíf, sjálfbær rekstur hins opinbera, efnahagslegur stöðugleiki, hagfellt regluverk og gott skattkerfi eru leiðin að því marki. Til þess að lífskjör á Íslandi geti verið í fremstu röð á nýjan leik þarf því að ríkja einhugur á meðal stjórnvalda, atvinnulífs og íbúa landsins um að byggja hér upp kjöraðstæður til verðmætasköpunar. Takist vel til í þeim efnum er til mikils að vinna.

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2015

Tengt efni

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks

Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, ...
8. maí 2023

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023

Fullkomlega áhugaverðar upplýsingar

Fjár­mál og efna­hags­mál eru stund­um tyrf­in og fæst­um blaðamönn­um eða ...
19. apr 2023