Það þarf ekki borg til að reka malbiksstöð

Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands skora á Reykjavíkurborg að nýta tækifærið oglosa sig út úrrekstri Malbikunarstöðvarinnar Höfða

Það er ólíklegt að framleiðsla malbiks sé ofarlega á lista yfir þau verkefni sem borgarbúar telja nauðsynlegt að Reykjavíkurborg sinni. Staðreyndin er samt sem áður sú að borgin rekur eigin malbikunarstöð og hefur gert í meira en 80 ár. Lengi vel þótti eðlilegt að hið opinbera væri yfir og allt um kring, en á síðustu áratugum hefur ýmislegt breyst. Meðal annars það að einkareknum malbiksstöðvum hefur fjölgað sem geta auðveldlega fullnægt malbiksþörf borgarinnar og miklu meira en það.  

Nú liggur fyrir að lóð borgarfyrirtækisins Malbikunarstöðvarinnar Höfða verður lögð undir íbúðabyggð, líkt og lóðir annarra fyrirtækja á Ártúnshöfða, og þarf stöðin því að víkja fyrir árslok 2022. Gera mætti ráð fyrir að þetta væri kjörið tækifæri fyrir borgina til að láta af umsvifum sínum á malbiksmarkaði, en í stað þess hefur hún úthlutað nýrri lóð undir starfsemina á Esjumelum og hyggur á samtals 1,7 milljarða króna lántöku í ár og næsta ár til að fjármagna flutninginn. Ekkert hefur komið fram um að borgin áformi að selja frá sér reksturinn. 

Samkeppniseftirlitið Reykjavíkurborg 

Malbikunarstöðin Höfði hf., sem er í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og Aflvaka hf. (sem er svo aftur í eigu Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahafna, sem sömuleiðis eru aðallega í eigu borgarinnar), rekur grjótmulningsstöð og tvær malbikunarstöðvar, leggur út malbik og annast hálkueyðingu og snjómokstur. Engin þessara verkefna eru þess eðlis að borgin geti ekki boðið þau út og keypt þjónustu af einkaaðilum og til að gæta allrar sanngirni er það einmitt það sem hún gerir. Hún á það bara til að kaupa þjónustuna af sjálfri sér. Það hefur eðlilega vakið tortryggni enda selur fyrirtækið verktökum efni til að leggja og býður svo sjálft í sömu verk og þeir með góðum árangri. 

Um þann góða árangur var einmitt skrifað í úttekt Viðskiptaráðs um Malbiksborgina Reykjavík árið 2017. Þar kom fram að Höfði var valinn í 73% af útboðum Reykjavíkurborgar um malbiksyfirlagningu á árunum 2008-2016. Athugun á útboðum árin 2017-2020 leiðir svo í ljós að hlutdeild Höfða hefur aukist enn frekar, í 91% — í eitt skipti af ellefu vann annað fyrirtæki þess háttar útboð á vegum borgarinnar.  

Þáverandi stjórnarformaður Höfða svaraði athugasemdum Viðskiptaráðs á sínum tíma. Í svarinu kom meðal annars fram að tilvist fyrirtækisins tryggði samkeppni, þar sem aðeins eitt annað fyrirtæki framleiddi malbik á suðvesturhorni landsins. Fyrirtækin eru nú orðin þrjú, fyrir utan Malbikunarstöðina Höfða. Auk þess má nefna að á Íslandi starfar stofnun sem er ætlað að stuðla að virkri samkeppni, hvort sem er á malbiksmarkaði eða öðrum: Samkeppniseftirlitið. Reykjavíkurborg hefur því engum skyldum að gegna í þessu sambandi og hefur alltaf haft þann valkost að selja Höfða. Líka þegar minni samkeppni var í greininni, og þá til nýrra aðila þannig að áhrif á samkeppni væru engin.  

Nægt framboð af malbiki 

Þrír einkaaðilar eru nú með starfsleyfi fyrir fullbúnar malbikunarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Colas í Hafnarfirði, Malbikstöðin á Esjumelum og Munck, sem er með fullbúna stöð í Hafnarfirði sem er ekki í rekstri vegna verkefnaskorts. Við þessar aðstæður ætlar borgin sér að færa tækjabúnað sinn upp á Esjumela fyrir 1,7 milljarða króna lánsfé, að hlið glænýrrar malbiksstöðvar einkaaðila sem kostaði 2,5 milljarða króna að koma upp.  

Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands skora á Reykjavíkurborg að nýta tækifærið og losa sig út úr rekstri Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Önnur fyrirtæki á þessum markaði hafa þekkingu og getu til að sinna þessari mikilvægu þjónustu. Því er engin ástæða til að stærsta sveitarfélag landsins sitji beggja vegna borðsins og sé í beinni og virkri samkeppni við einkaaðila um að framleiða og leggja malbik.   

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins 
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2021.

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023

Annarra manna fé

„Það er engu líkara en að Reykjavíkurborg sé að vinna með kómóreyska franka en ...
3. okt 2023