Sigur leiðindanna

Ókeypis peningar hafa í raun aldrei verið til

„Þetta eru endalok ókeypis peninga,“ sagði stjórnandi í erlendu eignastýringarfyrirtæki sem ég hitti um daginn. Það sem hann átti við var að það væri ekki lengur endalaust framboð af glóandi fjárfestingartækifærum og - kannski ekki ókeypis peningum, en í það minnsta ódýrum.

Viðbrögð stjórnvalda víða um heim við faraldrinum juku framboð á fé. Það hefði því ekki átt að koma neinum á óvart að verðbólga fylgdi í kjölfarið, en ýmislegt annað og ófyrirsjáanlegra hefur ýkt áhrifin. Náttúruleg viðbrögð seðlabanka til að hemja verðbólgu eru vaxtahækkanir, sem njóta sjaldan mikilla vinsælda, en eru þó mun skynsamlegri en stefna tyrkneska seðlabankans. Tyrkneski seðlabankinn rekur nefnilega vaxtastefnu forseta Tyrklands sem telur að háir vextir skapi verðbólgu. Við síðustu vaxtalækkun í september var verðbólgan í Tyrklandi 80%, en öfugt við hagfræðikenningar Erdogans, hækkaði hún og er nú 83,4%.

Seðlabanki Íslands er ekki klikkaður og því hafa vextir hækkað hér á landi og eru nú jafnháir og þeir voru 2016. Það má svo deila um hvort ferlið hafi verið of skarpt eða gengið of langt, en vonir vöknuðu eftir síðasta fund peningastefnunefndar um að við hefðum náð hámarki í vaxtahækkunarferlinu. Vonandi er það raunin en eins og við í Viðskiptaráði þreytumst ekki á að benda á, er bankinn ekki einn með þennan kaleik. Allar þrjár hliðar hagstjórnarinnar þurfa að vinna saman; peningastefnan, vinnumarkaðurinn og ríkisfjármálin, ekkert endilega í þessari röð.

Og talandi um ríkisfjármálin - umsögn okkar um fjárlagafrumvarpið hefur vakið nokkra athygli, en það verður að segjast eins og er að hún er sennilega mjög í ætt við ansi margar umsagnir um ýmsa þætti ríkisfjármálanna sem Viðskiptaráð hefur sent frá sér í gegnum árin. Við erum almennt á því að ríkisvaldið sé of útgjaldaglatt, hafi of mikla tilhneigingu til að gera hlutina sjálft í stað þess að nýta krafta einkaframtaksins og vanti meiri langtímahugsun.

Stundum er meira að segja fólk við ríkisstjórnarborðið og á Alþingi sem er sammála okkur, en niðurstaðan er samt sem áður sú að útgjöld vaxa stöðugt, opinberum starfsmönnum fjölgar og eftir stutt tímabil rekstrarafgangs hjá ríkissjóði, erum við komin aftur í kunnuglegan hallarekstur og skuldasöfnun. Til að allrar sanngirni sé gætt setti faraldurinn vissulega verulegt strik í reikninginn, en það er ekki hægt að skella allri skuldinni (eða skuldunum) á hann. Hallareksturinn var hafinn fyrir faraldur.

Í lýðræðisríkjum eins og okkar halda kjörnir fulltrúar um stjórnartaumana. Þeir þurfa að endurnýja umboð sitt reglulega og venjulega gerist það með þeim formerkjum að þeir lofa að gera allskonar hluti sem kosta fullt af peningum en sjaldnar að þeir lofi að hætta einhverju eða skera niður.

Það sýndi sig líka í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins í Bretlandi í sumar að kjósendum þóttu ábyrg ríkisfjármál ekki nógu spennandi, þannig að Rishi Sunak, sem verið hafði fjármálaráðherra, tapaði fyrir Liz Truss sem lofaði öllu fögru. Truss misreiknaði viðbrögð markaða við því að leggja fram ófjármögnuð fjáraukalög, pundið féll, áhlaup var gert á lífeyrissjóði og um stund hrikti verulega í stoðum breska hagkerfisins. Maðurinn með leiðinlegu ríkisfjármálastefnuna er því orðinn forsætisráðherra.

Við erum sem betur fer ekki að glíma við sömu vandamál og Bretar, þar sem pólitískur órói og innanflokksátök í stjórnarflokknum hafa aukið á efnahagsvandann. Við búum hér við pólitískan stöðugleika sem ætti að treysta tökin á ríkisfjármálunum, ekki síst í ljósi þess að það eru þrjú ár í næstu kosningar. Nú er því rétti tíminn til að taka í hemilinn og vinna með Seðlabankanum að því að ná tökum á verðbólgunni.

Kannski þurfum við, almenningur, líka að horfast í augu við að vera fjórði öxull hagstjórnarinnar. Viðbrögð okkar og væntingar hafa áhrif á þá sem taka ákvarðanir og eiga því til að raungerast í ríkisútgjöldum og kjarasamningum, sem síðan hefur áhrif á peningastefnuna. Það er ekki ókeypis, enda hafa ókeypis peningar í raun aldrei verið til. Á endanum þurfum við, eða næstu kynslóðir, því að greiða reikninginn.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greining birtist fyrst í ViðskiptaMogganum, 26. október 2022

Tengt efni

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024

Ný skoðun Viðskiptaráðs: Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024