Sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar

Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja áskoranir en um leið ýmis tækifæri

Hin svokallaða fjórða iðnbylting hefur verið mikið í deiglunni undanfarin ár, þá einkum vegna áhrifa hennar á atvinnuuppbyggingu í landinu. Byltingin er knúin áfram af hröðum tækninýjungum, sér í lagi á sviði sjálfvirknivæðingar og gervigreindar sem hefur valdið töluverðu umróti á vinnumarkaði. Með aukinni sjálfvirknivæðingu og framþróun á sviði gervigreindar hefur fjöldi starfa horfið en á sama tíma hefur fjöldi nýrra starfa skapast. Sem dæmi má nefna að með tilkomu einkatölvunnar hurfu um 3,5 milljónir starfa á heimsvísu en um leið sköpuðust 19 milljónir nýrra starfa. Þá störfuðu eitt sinn átta af hverjum tíu við landbúnað en nú eru það aðeins um 2% af starfandi, þó svo að landbúnaðarframleiðsla hafi stóraukist á sama tíma. Ástæðuna má rekja til aukinnar sjálfvirknivæðingar. 

Sterkar vísbendingar eru um að heimsfaraldurinn hafi hraðað atvinnuþróun um allan heim með töluverðri uppstokkun á vinnumarkaði enda leituðust fyrirtæki við að viðhalda afköstum þrátt fyrir fækkun starfsfólks sökum samkomu- og nándartakmarkana. Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja tækifæri en einnig áskoranir. Því er brýnt að marka stefnuna og nýta vel tækninýjungar til að byggja upp öflugt og samkeppnishæft atvinnulíf. 

Atvinnuþróun í kjölfar faraldursins 

Áhrif faraldursins teygja anga sína víða og hefur atvinnulífið ekki farið varhluta af neikvæðum áhrifum hans. Skráð atvinnuleysi hér á landi náði nýjum hæðum og mældist rúmlega 11% á fyrsta fjórðungi ársins 2021 auk þess sem atvinnuþátttaka dróst saman og mældist aðeins um 76% á síðasta fjórðungi ársins 2020. Vinnumarkaðurinn náði sér þó tiltölulega fljótt á strik en í dag er skráð atvinnuleysi 5,2% og atvinnuþátttakan mælist 82% en raunar hafa aldrei fleiri verið á vinnumarkaði en í febrúar síðastliðnum. 

Þrátt fyrir hraðan bata á vinnumarkaði eru sterkar vísbendingar um að efnahagsþrengingarnar í kjölfar útbreiðslu farsóttarinnar hafi leitt til varanlegs brottfalls fjölda starfa um allan heim sökum hraðari sjálfvirknivæðingar. Auk þess hefur töluverð tilfærsla orðið á milli atvinnugreina og þeim störfum sem eru berskjölduð fyrir sjálfvirknivæðingu fækkað.[1] Sú þróun hefur verið áberandi síðastliðna áratugi en á árinu 2020 fækkaði þessum störfum allverulega, eða um 9,5% á milli ára, og hefur hlutfallsleg fækkun þeirra aldrei verið jafn mikil. Að sama skapi jókst hlutfall þeirra starfa sem teljast ekki berskjölduð fyrir sjálfvirknivæðingu um 1,4% á árinu 2020. Af ofangreindu má því ætla að hluti þeirra sem missti vinnuna sína í faraldrinum hafi þurft, eða muni þurfa, að leita á ný mið og hefja störf á öðrum vettvangi. Niðurstöður rannsóknar í Bandaríkjunum renna stoðum undir þessa kenningu en þar kom fram að um 42% þeirra starfa sem voru lögð niður í faraldrinum verði ekki endurheimt í sömu mynd.[2] Þá er viðbúið að þessi þróun haldi áfram á næstu árum en samkvæmt skýrslu nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra, Ísland og fjórða iðnbyltingin, var sjálfvirknivæðing 28% allra starfa árið 2017 talin mjög líkleg á næstu tíu til fimmtán árum.[3] 

Þau störf sem eru hvað mest berskjölduð fyrir sjálfvirknivæðingu fela í sér mikla endurtekningu á einföldum og fyrirsjáanlegum verkefnum. Meirihluti þessara starfa er unninn af ungu og/eða lítt menntuðu fólki og verða þeir hópar því verst úti þegar viðlíka áföll dynja yfir. Hér er þó ekkert nýtt undir sólinni, en sú er einmitt reynslan frá fyrri efnahagsáföllum þar sem sviptingarnar hafa verið mestar fyrir þá sem hafa einungis lokið grunnskólaprófi. Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16-24 ára var 20% á öðrum ársfjórðungi 2021 og hafði þá ekki mælst meira í áratug, en atvinnuleysi meðal sama hóps mældist 23,5% á öðrum ársfjórðungi 2009 í kjölfar fjármálahrunsins. Þá fækkaði starfandi einstaklingum með grunnskólapróf um 6,3% árið 2020 á meðan starfandi með háskólamenntun fækkaði aðeins um 0,4%. Atvinnuleysistölur segja svipaða sögu en atvinnuleysi meðal þeirra sem eru með grunnskólapróf mældist 9,4% árið 2020 samanborið við 4,3% atvinnuleysi meðal háskólamenntaðra. 

Stuðningsaðgerðir ríkisstjórnar milda höggið 

Þrátt fyrir mikið efnahagslegt áfall, með tilheyrandi vandkvæðum á vinnumarkaði, reyndist unnt að sporna gegn frekari skaðlegum áhrifum af völdum faraldursins. Stuðningsaðgerðir ríkisstjórnar spiluðu þar veigamikið hlutverk en aðgerðirnar voru meðal annars til þess fallnar að viðhalda ráðningarsamböndum og draga úr atvinnuleysi með hlutabótum og öðrum úrræðum, svo sem tekjutengdum atvinnuleysisbótum og átakinu Hefjum störf. Áform ríkisstjórnar voru í takt við niðurstöður greiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins[4] sem taldi stefnu stjórnvalda um að viðhalda ráðningarsamböndum (e. job retention policies) öflugt tól til að draga úr skaðlegum áhrifum sem vinnumarkaðir kynnu að verða fyrir á meðan faraldurinn stæði yfir.  

Sjóðurinn áréttaði þó að ekki væri síður mikilvægt að móta stefnu sem gerði starfsfólki kleift að flytja sig á milli atvinnugreina (e. reallocation policies) að faraldrinum loknum. Samkvæmt sjóðnum er slík stefna betur til þess fallin að styðja við atvinnusköpun í samræmi við aukna sjálfvirknivæðingu en í henni felst til dæmis aukin áhersla á sí- og endurmenntun og aukin aðstoð við atvinnuleit og samsvörun. Þá er sú stefna talin fýsilegri kostur til aðlögunar vegna varanlegra áhrifa af völdum faraldursins og um leið talin auðvelda starfsskipti úr atvinnugreinum sem eru berskjaldaðar fyrir sjálfvirknivæðingu yfir í greinar sem eru minna eða ekki berskjaldaðar. Auk þess hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD)[5] hvatt stefnumótendur (e. policy makers) til þess að grípa inn í á vinnumarkaði með því að beina ungu fólki og lítt menntuðum í störf sem ekki eru berskjölduð fyrir sjálfvirknivæðingu. 

Sóknarfæri og í senn dauðafæri 

Á þessum umbrotatímum, í hringiðu fjórðu iðnbyltingarinnar og við lok heimsfaraldurs með tilheyrandi umróti, er nauðsynlegt að marka skýra stefnu í atvinnulífinu og hlúa að samkeppnishæfni vinnumarkaðarins. Nú er mikilvægara en oft áður að tryggja menntun í samræmi við þarfir vinnumarkaðarins en eftir því sem menntunarstig einstaklings í starfi er hærra, því minni líkur eru á sjálfvirknivæðingu viðkomandi starfs.[6] Á sama tíma fer störfum sem krefjast lítillar eða engrar menntunar sífellt fækkandi og því einkar nauðsynlegt að hvetja ungt fólk til að öðlast nauðsynlega og eftirsótta færni til að starfa í atvinnugreinum sem ekki eru berskjaldaðar fyrir sjálfvirknivæðingu. 

Menntakerfið leikur lykilhlutverk í því að takast á við þær tæknibreytingar sem fram undan eru og þar er að mörgu að huga. Sterkar vísbendingar eru um að hér ríki töluvert ósamræmi í menntun vinnuafls og þeirra starfa sem viðkomandi einstaklingar sinna. Á þessu tapa allir. Jafnvel þótt ekki hafi náðst fullt samkomulag um það hvernig mæla skuli ósamræmi í framboði og eftirspurn á færni fólks til að gegna ákveðnu starfi, hefur Hagstofa Evrópusambandsins (Eurostat) birt tölulegar upplýsingar í þá veru (e. skills mismatch indicator)[7]. Mælikvarði Hagstofunnar, sem mælir ósamræmi milli starfs og háskólamenntunar fólks á aldrinum 25-34 ára, gefur til kynna að misræmi hér á landi sé umtalsvert og mun meira en á Norðurlöndunum og að meðaltali innan Evrópu. 

Leiða má líkur að því að ósamræmi milli pörunar starfa og menntunar skýrist að hluta af lágu hlutfalli STEM-menntaðra (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði) hér á landi. Ísland stendur einkar illa í þeim efnum og hefur á síðustu árum verið eftirbátur annarra þjóða í Evrópu. Um 20% háskólamenntaðra einstaklinga hér á landi eru STEM-menntaðir samanborið við 25% hlutfall að meðaltali á Norðurlöndunum. Til frekari rökstuðnings má líta til Finnlands þar sem hlutfall STEM-menntaðra er 34%, hæst allra Norðurlanda, en jafnframt ríkir þar lítið ósamræmi milli pörunar starfa og menntunar og er ósamræmið hvergi minna á Norðurlöndunum. Með aukinni sjálfvirknivæðingu hefur eftirspurn eftir STEM-menntuðum aukist til muna og þörfin er raunar orðin svo mikil að hlutfall þeirra sem hljóta slíka menntun er orðið einn helsti vísir á samkeppnishæfni ríkja. 

Mikilvægt er að hlutfall STEM-menntaðra hækki hér á landi til að mögulegt sé að mæta þeim tæknibreytingum sem er fyrirséð að eigi sér stað á næstu árum. Þá er nauðsynlegt að halda vel á spöðunum því mikil barátta milli þjóða um sérmenntað fólk er hafin. Liðka þarf fyrir komu erlendra sérfræðinga hingað til lands, en ítrekað hefur verið bent á það hve flókið það reynist að flytja og hefja störf hér á landi. Þá þarf einnig að hlúa að þeim sérfræðingum sem þegar eru starfandi hér á landi í þeirri viðleitni að missa þá ekki úr landi.  

Eins og áður hefur verið komið inn á er þó ekki síður mikilvægt að huga að þeim sem eiga á hættu að missa störf sín vegna sjálfvirknivæðingar. Augljóst úrræði er aukið vægi viðeigandi sí- og endurmenntunar og hafa Danir til að mynda lagt áherslu á aukna endurmenntun. Þrátt fyrir vaxandi þörf vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar hefur starfandi einstaklingum á aldrinum 16-74 ára sem sótt hafa sí- og/eða endurmenntun farið fækkandi að undanförnu hér á landi. Þeim sem sækja sér slíka menntun fækkaði um 20% á árunum 2015-2020 og hafa ekki verið færri frá árinu 2009. Það getur reynst þjóðinni allri dýrkeypt ef vægi sí- og endurmenntunar verður ekki aukið enda munu tækniframfarir og aukin sjálfvirknivæðing ekki skila sér í viðunandi framleiðni- og velsældaraukningu nema viðeigandi vinnuafl sé til staðar. Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að einstaklingar sem missa vinnu vegna sjálfvirknivæðingar upplifa að meðaltali tekjumissi sem nemur um 15% við það að ráða sig í annars konar starf án þess að hafa aflað sér nýrrar þekkingar eða færni í millitíðinni.[8] 

Að endingu er það þó sennilega einstaklinganna að bera sig eftir björginni og þróa og viðhalda eigin hæfni í hinum síbreytilega heimi. Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja töluverðar áskoranir en um leið eru ýmis tækifæri í augsýn. Okkur hefur gengið vel að tileinka okkur nýja tækni hingað til og erum í dag í 7. sæti af 141 þjóð hvað það varðar, samkvæmt World Economic Forum.[9] Okkur ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði en mikilvægt er, nú sem áður, að vel sé haldið á spöðunum og þá sér í lagi í menntakerfinu. 

[1] Sjá nánar hér
[2] Sjá nánar hér
[3] Sjá nánar hér
[4] Sjá nánar hér
[5] Sjá nánar hér
[6] Sjá nánar hér
[7] Sjá nánar hér
[8] Sjá nánar hér
[9] Sjá nánar hér

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu (13. tbl) 1. apríl 2022.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023