Of sterk króna leiðir til of veikrar krónu

Hvers virði er stöðugleiki? Síðasta áratug hefur orðið stöðugleiki komið um 20.000 sinnum fyrir í íslenskum fjölmiðlum samkvæmt Fjölmiðlavaktinni. Ekki þarf ítarlegri rannsóknir til að sjá að virði stöðugleika er umtalsvert og kom það berlega í ljós á Viðskiptaþingi í síðasta mánuði. Stöðugleiki í hvívetna er stjórnendum mjög ofarlega í huga og birtist það skýrt í tillögum alþjóðahóps Viðskiptaráðs sem komu út samhliða þinginu.

Óskar eftir gengisstöðugleika

Ein af tillögum hópsins var að lögð yrði aukin áhersla á gengisstöðugleika í hagstjórn. Það er ekki tilviljun enda geta of miklar og kostnaðarsamar sveiflur hreinlega fælt fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni úr landi með tilheyrandi tjóni fyrir samfélagið allt. Íslendingar þekkja þessar sveiflur alltof vel og í mesta lagi má finna engan Íslending sem hefur unun af sveiflum krónunnar.

Miklar framfarir síðustu ár

Mikill sigur er fólginn í því að sveiflurnar hafi minnkað síðustu ár. Gjörbreytt skuldastaða, stór gjaldeyrisforði og viðskiptaafgangur ráða hvað mestu um það. Ein birtingarmyndin er að áhrif þess að stærsta útflutningsgreinin stöðvaðist í rúmt ár voru sáralítil á gengi krónunnar. Í öllum niðursveiflum síðustu 60 ár hefur krónan veikst umtalsvert meira, en í dag er krónan, á mælikvarða raungengis, á nánast sama stað og fyrir heimsfaraldurinn.

Enn hætta á óhóflegum sveiflum

Þrátt fyrir framfarir er krónan enn duttlungafullur gjaldmiðill og hún mun sveiflast áfram. Spár greiningaraðila og kannanir Seðlabankans á væntingum markaðsaðila benda til væntinga um styrkingu krónunnar á næstu misserum. Mögulegt er að krónan eigi eftir að styrkjast á næstunni. Hversu mikið, er þó ætíð takmörkunum háð. Ef gengið styrkist meira en hagkerfið og útflutningsgreinar standa undir, eykst sífellt hættan á að gengið taki skell með tilheyrandi tjóni og kaupmáttartapi almennings.

Í umræðu um gengismál er því hins vegar oft haldið fram að sterkt gengi sé hagfellt heimilunum, enda lækki þá verð á innflutningi. Þetta er einfaldlega rangt ef styrkingin er hluti af óhóflegum sveiflum. Það er heldur varasamt markmið að gengi krónunnar sé sérstaklega veikt eða sterkt. Gengið á einfaldlega að endurspegla stöðuna í hagkerfinu og sem fyrr segir er æskilegt að það sé sem stöðugast.

Seðlabankinn með veglegt vopnabúr

Hvernig á svo að koma í veg fyrir óhóflegar sveiflur? Eðlilegt er að augun beinist fyrst að Seðlabankanum sem hefur ýmis tól og ber þar hæst 839 milljarða króna gjaldeyrisforða. Ekki er víst að einhvers konar fastgengi eigi að vera markmið, en staðreyndin er þó sú að innan núverandi verðbólgumarkmiðs hefur Seðlabankinn talsvert rými til að beita sér á gjaldeyrismarkaði og hafa áhrif á gengið. Það hefur bankinn gert með ágætum árangri síðasta árið, þegar þrýstingur var á veikingu. Nú þegar vindar hafa snúist er alveg jafn mikilvægt að bankinn sé vakandi yfir því að krónan sveiflist ekki of mikið. Vorið 2017 styrktist krónan í einhverjar hæstu hæðir sem hafa sést síðustu áratugi, án þess að Seðlabankinn svo mikið sem hringdi viðvörunarbjöllum. Sú styrking var eftir á að hyggja umfram það sem tilefni var til.

Fjárfestar þurfa líka að mynda sér skoðun

Óeðlilegt er að sjónarmið Seðlabankans séu þau einu sem birtast á gjaldeyrismarkaði. Allir sem eiga viðskipti með gjaldeyri fyrir krónur ættu að mynda sér skoðun á því hvert sé rétt gengi krónunnar miðað við undirliggjandi getu hagkerfisins. Oft hefur skort á þetta en fyrir fjárfesta hljóta að myndast tækifæri í því að leggjast á móti vindinum. Augljósasta tækifærið er lífeyrissjóður sem sér tækifæri í því að fjárfesta meira erlendis en annars þegar krónan er fremur sterk. Slíkt getur unnið gegn óhóflegum sveiflum og stuðlað að gengisstöðugleika.

Hvar eru afleiðuviðskiptin?

Meira þarf til en einhvers konar hugarfarsbreytingu til að dýpka gjaldeyrismarkaðinn. Slaka þarf á séríslenskum takmörkunum á afleiðuviðskipti sem eru til þess fallin að draga úr þeim nauðsynlegu skoðanaskiptum sem felast í mörkuðum. Á peningamálafundi Viðskiptaráðs í nóvember á síðasta ári sagði varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika að til skoðunar væri að leyfa aukin afleiðuviðskipti. Síðan hefur lítið heyrst og ekkert breyst.

Litlar forsendur fyrir mikilli styrkingu

En hversu mikið getur krónan styrkst?

Í nýlegri greiningu Viðskiptaráðs er bent á að undirliggjandi þættir eins og framleiðni, viðskiptakjör og erlend eignastaða þjóðarbúsins bendi ekki til þess að krónan geti verið mun sterkari en fyrir heimsfaraldurinn. Í dag er krónan til samanburðar á svipuðum stað og árið 2019. Þá bendir einföld flæðisgreining á gjaldeyrismarkaði ekki heldur til þess að afgerandi styrkingarþrýstingur verði á krónunni í ár.

Um þetta allt er þó óvissa sem er vel yfir meðallagi. En til að fá svarið væri fyrsta skref að fjárfestar og seðlabankinn sýni á spilin frekar en að fólk skrifi blaðagreinar. Og til þess þarf tól á borð við afleiðuviðskipti sem nú eru bönnuð. Breytum því.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum 23. júní 2021.

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022

Að kippa vísitölu úr (húsnæðis)lið

Þegar allt kemur til alls er varhugavert að breyta undirliggjandi þáttum ...
10. mar 2022