Það verður að vera gaman

Hvers vegna er svona mikil­vægt að hafa gaman í vinnunni?

Síðastliðin tvö ár hafa bæði ýkt og hraðað ýmsum breytingum á vinnulagi og viðhorfi fólks til vinnu, sem þó hafa verið í farvatninu í nokkurn tíma. Um leið horfum við upp á mikinn skort á vinnuafli.

Samtök iðnaðarins segja að 9.000 manns vanti í hugverka­geirann á næstu fimm árum ef hann á að geta nýtt vaxtartækifæri sín til fulls og um 8.000 vantar í ferðaþjónustuna, gangi spár um fjölda ferðamanna eftir. Á næstu árum getum við að óbreyttu einungis mannað um 20% nýrra starfa með náttúrulegri fjölgun á vinnumarkaði.

Þetta er mikill viðsnúningur á skömmum tíma, jafnvel svo að tala megi um vatnaskil á vinnumarkaði. Þessu fylgja ýmsar áskoranir en líka tækifæri eins og oft er og um það fjöllum við á Viðskiptaþingi í dag. Vatnaskilin felast líka í breyttum áherslum og væntingum til vinnunnar, en þegar litið er til þess að ef okkur endist líf og heilsa verjum við flest meira en 10 þúsund dögum í vinnunni yfir ævina er ekkert skrýtið að hún skipti okkur miklu máli.

Til þess að bregðast við starfsmannaskorti, til lengri og skemmri tíma, þarf að efla menntakerfið í því að undirbúa nemendur fyrir þátttöku á vinnumarkaði, tengja betur skóla og atvinnulíf, og gera eftirsóknarvert fyrir erlent starfsfólk og sérfræðinga að setjast að á Íslandi. Sjálfvirknivæðing gerir fámennri þjóð kleift að nýta krafta sína betur, en við þurfum að vera vakandi fyrir því, hvert og eitt og sem samfélag, að byggja stöðugt upp nýja hæfni til að sitja ekki eftir þegar störfin breytast eða hverfa og ný verða til.

Það ættu ekki að vera nein tíðindi að starfsánægja haldist í hendur við möguleika fólks á að nýta og þróa styrkleika sína í starfi. Starfsánægja dregur úr starfsmannaveltu og eykur framleiðni. Því má slá því föstu að það sé þjóðhagslega mikilvægt að hafa gaman í vinnunni!

Svanhildur Hólm Valsdóttir er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Greinin birtist í Fréttablaðinu og á frettbladid.is, föstudaginn 20. maí.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022

Viðskiptaþing á Hilton á morgun

Árlegt Viðskiptaþing fer fram á Hilton Reykjavík Nordica á morgun, 20. maí og ...
19. maí 2022