Þarf þetta að vera svona?

„Hérlendis má aftur á móti ætla að læknar þurfi að meðaltali að biðja Sjúkratryggingar árlega um endurnýjun fyrir um tíu þúsund manns vegna þessa lyfjaflokks. Einhver gæti sagt að þarna væri rakið tækifæri til einföldunar og sparnaðar.“

Um daginn fór ég í apótek að sækja lyf sem ég nota daglega og komst þá að því að lyfjaskírteinið mitt var útrunnið. Gildistíminn er sem sagt tvö ár og sennilega hef ég átt að vita að það rynni út. Þess má kannski geta að ég byrjaði á þessu lyfi fyrir rúmum tveimur árum, meðal annars til þess að vera aðeins minna utan við mig. 

Fyrstu viðbrögð voru að hugsa að mér hlyti að hafa yfirsést einhver tilkynning áður en skírteinið rann út. Svo var ekki en aftur á móti voru nokkrar áminningar frá Sjúkratryggingum í pósthólfinu um að svara könnun um þjónustu heilsugæslunnar. Það er reyndar fínt en hjálpaði lítið í stóra skírteinismálinu.

Þetta lyf er bara afgreitt á ákveðnum fresti og því getur svona uppgötvun verið smá vesen og það er ekki laust við að maður velti fyrir sér hver tilgangurinn sé. Það er nefnilega ekki hægt að fá lyf nema eftir greiningu og einungis ef læknir metur að það sé nauðsynlegt, en lyfjaskírteinið tryggir ekki bara greiðsluþátttöku heldur er líka heimild fyrir afgreiðslu. Ekkert skírteini, engin lyf, ekki einu sinni þótt maður vildi greiða fullu verði til að komast hjá óþægindum. 

Í Danmörku gildir fyrsta skírteinið í sex mánuði og ef endurnýjun gleymist er hægt að fá lyfið afgreitt gegn fullu verði. Endurnýjað skírteini rennur svo ekki út. Hérlendis má aftur á móti ætla að læknar þurfi að meðaltali að biðja Sjúkratryggingar árlega um endurnýjun fyrir um tíu þúsund manns vegna þessa lyfjaflokks. Einhver gæti sagt að þarna væri rakið tækifæri til einföldunar og sparnaðar. 

Ég er þó hæfilega bjartsýn á að það gerist, svo ég er búin að setja áminningu um endurnýjun í dagbók í nóvember 2025.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 13. desember 2023.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023

Nauðsynlegt að tryggja félagafrelsi á vinnumarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs um félagafrelsi á vinnumarkaði (mál nr. 24)
8. des 2022