Þetta er ekki búið fyrr en það er búið

Svanhildur Hólm gerir upp árið 2021 - sýninguna sem ekki hefði verið selt inn á.

Í fyrra skrifað ég áramótagrein í Fréttablaðið sem samkvæmt venju fjallaði að mestu um árið sem var að líða. Einkunnin sem það fékk var að ef það hefði verið bíómynd hefði ég ekki keypt miða.

Það er skemmst frá því að segja að 2021 útgáfan er ekki mikið skárri. Karakterarnir sem slógu í gegn 2020 eru orðnir þreyttir, söguþráðurinn þunnur og mikið um endurtekningar. Vissulega voru nokkur spennuatriði í kringum bóluefnin, til dæmis þegar kvisaðist út snemma árs að Íslendingar gætu komist fram fyrir röð hjá Pfizer, en sú bóla sprakk fljótt og örugglega. Bólusetningarpartíið í Laugardalshöll var mjög vel skipulagt og skapaði góða stemningu framan af, en óneitanlega gulnaði majónesan þegar leið á árið og ljóst varð að tvær sprautur væru einungis þokkaleg byrjun. Það breytir ekki því að maður er þakklátur fyrir að hafa verið boðið.

Árið 2021 færði okkur samt sem áður viðspyrnuna sem grunnur var lagður að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og hagvöxtur varð mun kröftugri en ráð var fyrir gert. Kauphöllin hélt áfram að stækka með velheppnaðri sölu á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka, skráningu Síldarvinnslunnar, sem er eina landsbyggðarfyrirtækið á markaði, og Play sem hóf sig til f lugs í júní. Almenningur er aftur orðinn þátttakandi á hlutabréfamarkaði, sem má að einhverju leyti rekja til lækkunar vaxta síðustu misseri, en er vonandi einnig til marks um að traust til viðskiptalífsins sé að aukast.

En áskoranir í atvinnulífinu hafa líka verið margvíslegar á árinu. Ferðaþjónustan á langt í land og meiri aðgangshindranir á landamærum en í nágrannalöndunum hafa gert róðurinn enn þyngri. Sóttvarnaaðgerðir hafa gert fyrirtækjum erfitt fyrir og aukið kostnað eða dregið úr tekjum, nema hvort tveggja sé. Afgreiðslutími veitingaog skemmtistaða hefur verið skertur og fyrirtæki í öllum geirum hafa þurft að grípa til hólfaskiptingar vegna fjöldatakmarkana, auk þess að bregðast við fjarvistum vegna sóttkvíar og einangrunar. Hertar aðgerðir nú í lok árs hljóta að fela í sér að stjórnvöld verði að bæta í stuðning sinn við þau fyrirtæki sem þær koma verst við. Að auki liggur í augum uppi að verði þetta ástand ekki afstaðið þegar kemur að því að setjast að samningaborðinu haustið 2022 verður svigrúm til  launahækkana enn þrengra.

Enn eru brestir í aðfangakeðjum og samspil við hækkanir hrávöruverðs og mikla uppsafnaða eftirspurn hefur leitt til verðhækkana víða. Verðbólga bæði hér á landi og í helstu viðskiptalöndum okkar er meiri en hún hefur lengi verið, og sem dæmi má nefna að árshækkun í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri í 30 ár. Það er áhyggjuefni og full ástæða til að hvetja aðila vinnumarkaðarins, nú í aðdraganda kjarasamninga, til að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að við lendum aftur á kunnuglegum slóðum eitraðrar víxlverkunar verðbólgu og launahækkana.

Á persónulegum nótum má segja að síðustu dagar 2021 rammi þetta ár ágætlega inn, þar sem veiran hefur leikið aðalhlutverk, með vöruskort, fjarvinnu og ýmislegt ófyrirséð í aukahlutverkum. Ekki einungis voru jólin haldin í sóttkví, heldur bilaði þurrkarinn, nýdottinn úr ábyrgð og varahlutir ekki fáanlegir á landinu. Þegar rafmagnið fór svo af húsinu um miðnætti á Þorláksmessu og ekki tókst að finna orsökina var ég komin í stóíska gírinn, búin að hugsa plan B fyrir jólamatinn (grilla hamborgarhrygginn) og þakka forsjóninni fyrir að við þyrftum ekki að húka í myrkri fyrst þetta gerðist um jól þegar kertalagerinn væri í hámarki. Bilunin fannst svo til allrar hamingju á aðfangadag, en það er sennilega ekki ofsögum sagt að það yrði ekki selt inn á þessa sýningu.

En gleðilegt nýtt ár! Megi það færa okkur traustari aðfangakeðjur, ábyrga kjarasamninga, fleiri ferðamenn og frjálsara samfélag.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum í Fréttablaðinu, 29. desember 2021.

Tengt efni

Jafna þarf stöðu innlendra áfengisframleiðenda

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum.
24. mar 2022

Afnema þarf áfengiseinokun að fullu

Viðskiptaráð telur frumvarpið vera skref í rétta átt en að ganga þurfi mun ...
27. feb 2020

Arfleifð Oz

Þessi grein er ein margra í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs ...
23. maí 2011