Um „hverfandi áhrif“ mistaka Hagstofunnar

Mistök Hagstofunnar við mælingu á vísitölu neysluverðs fóru fram hjá fáum. Stofnunin vanmat verðbólgu í mars á þessu ári um 0,27% og uppgötvaði mistökin í september. Vísitala þess mánaðar var þá hækkuð til að leiðrétta mistökin og nam heildarhækkun hennar í september því 0,48% í stað 0,21%.

Í tilkynningu um mistökin sagðist Hagstofan taka málið „mjög alvarlega.“ Í sömu tilkynningu segir hins vegar eftirfarandi: „Áhrif á allan almenning eru hverfandi og verða fæstir lántakendur varir við breytinguna nema að litlu leyti.“ Þessi fullyrðing stenst ekki nánari skoðun.

Áhrif mistakanna eru tvíþætt. Annars vegar hafa þau neikvæð áhrif á traust á fjármálamarkaði. Seðlabankinn byggir vaxtaákvarðanir meðal annars á verðbólgumælingum Hagstofunnar. Bankinn ákvarðaði því vexti út frá minni verðbólgu en raunverulega var til staðar. Sú staðreynd er til þess fallin að draga úr trausti og fyrirsjáanleika á fjármálamörkuðum hérlendis.

Hins vegar hafa mistökin bein áhrif á bæði lántaka og lánveitendur. Þrátt fyrir að skekkjan sé lág í prósentum mæld er umfang verðtryggingar slíkt að um talsverðar fjárhæðir er að ræða. Áhrifin verða fyrst og fremst á þá sem stofnuðu til eða gerðu upp verðtryggðar skuldbindingar á tímabilinu frá því að mistökin voru gerð þar til þau voru leiðrétt.

Eru áhrifin hverfandi?
Ómögulegt er að meta heildarumfang þessara áhrifa. Hins vegar má áætla hluta þeirra með því að skoða bein áhrif mistakanna á lántakendur.

Landsbankinn gaf út að um 1.000 viðskiptavinir þeirra hafi orðið fyrir tjóni vegna mistakanna. Hjá bankanum kom jafnframt fram að mikill meirihluti þeirra séu kaupendur sem eru að taka sitt fyrsta íbúðalán. Ef við áætlum að hlutdeild viðskiptabankanna þriggja í nýjum útlánum sé sambærileg hafa mistökin áhrif á 3.000 einstaklinga. Við það bætast þeir sem tóku lán hjá lífeyrissjóðum, sem standa undir um fjórðungi nýrra íbúðalána, eða 1.000 einstaklingar til viðbótar. Samtals verða því 4.000 lántakendur fyrir fjárhagslegu tjóni vegna mistakanna.

Ef gert er ráð fyrir 30 milljón króna meðalláni nemur tjón þessara einstaklinga 0,27% af þeirri upphæð. Það gera 81.000 kr. á hvern einstakling að meðaltali – eða yfir 300 milljónir króna samtals. Þótt þetta sé gróf áætlun sýnir hún að hér er ekki um hverfandi áhrif að ræða.

Hver á að bera kostnaðinn?
Einhverjir munu þurfa að taka á sig kostnaðinn vegna þessara mistaka. Hagstofan hefur neitað að birta leiðrétta vísitölu neysluverðs fyrir tímabilið sem um ræðir. Þá benti stofnunin lögmanni, sem skoðar nú stöðu þeirra lánþega sem urðu fyrir tjóni, á að leita til fjármálafyrirtækja. Af þessum viðbrögðum að dæma virðist stofnunin ekki ætla að auðvelda úrlausn vandans með frekari upplýsingagjöf. Hugsanlega mun koma til kasta dómstóla að skera úr um þetta álitamál.

Viðbrögð við mistökum skipta máli
Mistök geta átt sér stað hjá Hagstofunni líkt og annars staðar. Til að unnt sé að læra af þeim skipta viðbrögðin máli. Heppilegra hefði verið að Hagstofan gerði ekki lítið úr þessum mistökum sínum og birti jafnframt fullnægjandi upplýsingar svo hægt sé að meta tjón vegna þeirra.

Á meðan verðtrygging er við lýði þurfa útreikningar á vísitölu neysluverðs að vera hafnir yfir vafa. Gera ætti úttekt á vinnubrögðum og aðferðafræði Hagstofunnar við útreikning vísitölunnar til að koma í veg fyrir að mistök sem þessi endurtaki sig. Sú úttekt ætti að vera framkvæmd af óháðum aðila. Þannig má skapa traust um niðurstöðuna og gera betur í framtíðinni.

Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 13. október

Tengt efni

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Ógnar nýsköpun þjóðaröryggi?

Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru ...
21. nóv 2022