Unnu sveitarfélögin stóra vinninginn í ár?

Viðskiptaráð hefur rétt þeim sveitarfélögum sem hyggjast lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á næsta ári hjálparhönd með útgáfu reiknivélar.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði

Sveitarfélögin í landinu hafa svo sannarlega notið góðs af kröftugum hækkunum fasteignaverðs og -mats undanfarin ár og fylgst með skatttekjum sínum vaxa á milli ára.

Svo er einnig í ár. Þann 1. júní ár hvert birtir Þjóðskrá uppfært fasteignamat sem tekur svo gildi á síðasta degi ársins. Methækkun fasteignamats nú hefur vart farið fram hjá mörgum og er hún þrefalt meiri en í fyrra. Hækkun fasteignamats veldur því að íbúar og fyrirtæki í landinu greiða 7,6 milljarða króna aukalega í fasteignaskatta, af sama fasteignastofni, ef sveitarfélögin lækka ekki álagningarprósentur næsta árs. Mat íbúðarhúsnæðis hækkar um 23,4% á landinu öllu sem samsvarar 4,5 ma.kr. aukinni skattheimtu árið 2023. Atvinnuhúsnæði hækkar um 10,2% á milli ára og að sama skapi hækka skattar af því um 3,1 ma.kr.

Fasteignaskatturinn er næststærsti tekjustofn sveitarfélaganna og stóð hann undir 16% skatttekna þeirra árið 2020. Fasteignaskattarnir eru m.a. nýttir að til að fjármagna þau ýmsu verkefni sem sveitarfélögin sinna. Í því samhengi er eðlilegt að tekjur af fasteignasköttum haldist að einhverju leyti í hendur við íbúaþróun og aukna þjónustu með fleiri íbúum, en að því sögðu er nauðsynlegt að sveitarfélög forgangsraði verkefnum í þágu íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu.

En hversu mikið geta fasteignaskattar hækkað til viðbótar? Ísland trónir á toppi nágrannaríkja þegar kemur að fasteignasköttum og er hlutfall þeirra af landsframleiðslu um tvöfalt hærra en að jafnaði á Norðurlöndunum. Þar að auki hækkaði hlutfallið um 0,4 prósentustig frá 2016 til 2020 en stóð á sama tíma nokkurn veginn í stað annars staðar á Norðurlöndunum.

Fulltrúar fáeinna sveitarfélaga hafa sagt opinberlega að þau muni lækka fasteignaskatta til þess að koma til móts við íbúa og fyrirtæki. Hér er ekki um nýtt og óþekkt ástand að ræða því fasteignamat hækkaði einnig í fyrra, líkt og árið á undan. Nú ert vert að staldra við og kanna hvernig álagningarhlutföll voru aðlöguð í fyrra í ljósi hækkunar fasteignamats um 7,4% á landsvísu í fyrra.

Í ár héldu 2/3 sveitarfélaga álagningarprósentu fasteignaskatta íbúðarhúsnæðis óbreyttri og tíu sveitarfélög hækkuðu álagningarprósentuna. Það þýðir að aðeins tólf sveitarfélög lækkuðu álagningarprósentuna. Sveitarfélögin virðast hafa minni samkennd með þeim sem standa í atvinnurekstri því þrátt fyrir að gjaldhlutfallið sé í lögbundnu hámarki, eða 1,65%, hjá 31 af 69 sveitarfélögum og leggist u.þ.b. sexfalt þyngra á atvinnuhúsnæði, lækkuðu aðeins sex sveitarfélög álagningarhlutfallið í ár og hélst það óbreytt hjá 85% sveitarfélaga á milli ára.

Viðskiptaráð hefur rétt út hjálparhönd til þeirra sveitarfélaga sem hyggjast lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á næsta ári með útgáfu reiknivélar sem sýnir hversu mikið hvert og eitt sveitarfélag þarf að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta svo að skattar hækki ekki umfram almennar verðlagshækkanir. Reiknivélin er aðgengileg á vefsíðu Viðskiptaráðs. Viðskiptaráð fagnar því að þegar hafi fulltrúar nokkurra sveitarfélaga sýnt vilja til þess að lækka skatthlutfallið á næsta ári og hvetur önnur sveitarfélög til að fylgja fordæmi þeirra.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 14. júlí 2022 og á vb.is 16. júlí 2022.

Tengt efni

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023