Vinnumarkaður: Lágmörkun óvissu eða uppspretta óvissu?

Fátt bendir til þess að vinnumarkaðurinn verði veigaminni óvissuþáttur á næstu misserum. Það er til alls að vinna að breyta því, bæði fyrir fyrirtæki og starfsfólk þeirra og til að þróun á vinnumarkaði þurfi ekki að vera „óþekkt óvissa“.

Orðið „óvissa“ hefur komið fyrir 1.747 sinnum í íslenskum fjölmiðlum síðasta árið skv. fjölmiðlavakt Creditinfo. Það þarf ekki að koma neinum á óvart og eru margir búnir að fá nóg af óvissu-tali, enda hafa síðustu mánuðir verið hjúpaðir óvissu kórónuveirunnar. Óvissan er þó ekki nýtilkomin heldur viðvarandi ástand, árið þar á undan kom fyrirbærið 1.078 sinnum fyrir í fjölmiðlum.

Vilji okkar flestra til að draga úr óvissu og vera varin fyrir áhættu vegna óvissu hefur ótal birtingarmyndir, allt frá kaupum á tryggingum til þess að spá í bolla eða spil. Í atvinnurekstri er of mikil óvissa litin hornauga enda eru raunhæfar áætlanir gulls ígildi og forsenda þess að ráðist sé í metnaðarfullar fjárfestingar. Ein helsta ástæða þess að atvinnuvegafjárfesting er lítil um þessar mundir, þrátt fyrir sögulega lága vexti og nægt framboð fjármagns, er vafalítið kórónuóvissan.

Lágmörkun þekktrar óvissu

Allt þetta kann að liggja í augum uppi en lærdómurinn er þó mikilvægur: Allir hafa mikla hagsmuni af því að óvissa sé sem minnst þar sem því er við komið. Donald Rumsfeld, hinn umdeildi fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði eitthvað á þá leið að það væru tvær tegundir af hinu óþekkta: Þekkt óvissa (e. known unknowns) og óþekkt óvissa (e. unknown unknowns). Ræða hans féll í grýttan jarðveg og á silfurfat grínista, en við nánari athugun er dýpri sannleikur í orðum hans. Sumt er einfaldlega algjörlega óþekkt og um það fáum við engu ráðið. Annað þekkjum við hins vegar að sé hjúpað óvissu og getum þannig aðlagað okkur að því og jafnvel lágmarkað áhættuna sem af henni hlýst.

Ef við snúum þessu upp á íslenskt efnahagslíf skiptir þetta miklu máli enda má segja að viðfangsefni hagstjórnar sé að takast á við þessa þekktu óvissu og lágmarka hana. Þar gegna bæði stjórnvöld og Seðlabankinn lykilhlutverki í að halda verðlagi stöðugu. Nokkuð sem hefur tekist vel á síðustu árum en gæti reynt á í vægast sagt óvenjulegu efnahagsumhverfi og fordæmalausum hallarekstri ríkissjóðs. Að takmarka óvissu tengda verðlagi er ekki bara mikilvægt fyrir fyrirtækjarekstur og atvinnuvegafjárfestingu heldur einnig því að þeir sem hafa hvað lægstu tekjurnar eru hvað berskjaldaðastir fyrir verðbólgu og atvinnuleysi.

Ætlar vinnumarkaðurinn að vera rót óvissu og áhættu?

Vegna stærðar hins miðstýrða íslenska vinnumarkaðar verður hann óhjákvæmilega þriðji armur hagstjórnarinnar og ber þannig mikla ábyrgð á að stuðla að þessum verð- og efnahagsstöðugleika. Draga má þessa ábyrgð oft og tíðum í efa. Nýjasta dæmið er algjört viljaleysi ASÍ til að breyta kjarasamningum á síðasta ári þó að efnahagslegar forsendur þeirra væru bersýnilega fyrir bí vegna kreppunnar.

Þrátt fyrir horfur um að á þriðja hundrað milljarða króna minna yrði til skiptanna úr þjóðarbúinu og nýtt met væri að myndast í fráviki launakostnaðar og framleiðni (mynd 1) var viljinn enginn. Að atvinnuleysi stefndi í vafasamt Íslandsmet hafði einnig lítið að segja. Staðan nú er sú að þessar horfur hafa allar raungerst. Líkt og 2+2=4 eru það algild sannindi að launakostnaður og framleiðni verða að fylgjast að til lengri tíma ef atvinnustig, kaupmáttur og verðlag eiga ekki að bresta.  Eigi að síður er eins og þessi augljósu sannindi séu ekki alltaf samþykkt.

Þess vegna má vinnumarkaðurinn aldrei aftur segja pass

Nýtt haglíkan Viðskiptaráðs, sem birt var á dögunum (sjá vi.is), varpar skýru ljósi á þessi sannindi og mikilvægi þess að vinnumarkaðurinn hafi tengsl framleiðni og launakostnaðar ávallt í forgrunni. Í líkaninu getur hver sem er sett inn sínar forsendur um laun, verðlag, framleiðni og fleira og séð hvernig það hefur áhrif á hlutfall launa í verðmætasköpuninni, viðskiptajöfnuð, hagvöxt, laun og raungengi krónunnar. Grunnsviðsmyndin er hófsöm að því leyti að hún er í takt við sögulega þróun framleiðni og verðbólgumarkmið þannig að þessar mikilvægu hagstærðir haldist stöðugar til lengri tíma. Hvað ef svo er ekki?

Á mynd 2 ber að líta hvað gerist ef sumar forsendurnar breytast. Í grunnsviðsmynd hækka laun um rúm 4% eða sem nemur verðbólgu (2,5%) og framleiðni (1,5%). Ef launin aftur á móti hækka um 6% á hverju ári og annað er óbreytt er ójafnvægi fljótt að myndast. Launahlutfall færi innan fárra missera yfir fyrri met, sem einhverjum kann að þykja jákvætt. Sú skoðun breytist þó ef til vill ef haft er í huga að árið 2034 yrði nákvæmlega ekkert eftir til skiptanna í vaxtagreiðslur og hagnað og viðskiptahallinn jafnaði metið frá árinu 2006 (-23% af landsframleiðslu). Haldi þetta svo áfram er niðurstaðan sú að árið 2050 yrði launahlutfallið 113%, sem þýðir að launakostnaður yrði meiri en nemur allri verðmætasköpun sem kallar þá á stórfellda erlenda lántöku. Enda er niðurstaðan líka sú að viðskiptahallinn er -57% af landsframleiðslu sem kallar þá að samsvarandi erlenda lántöku á hverju ári.

Dæmið að framan myndi augljóslega ekki ganga upp, eins og reynslan sýnir. Til að ná aftur einhverju eðlilegu og sjálfbæru jafnvægi myndi verðbólga þurfa að aukast og gengið að gefa eftir í samræmi við laun. Niðurstaðan þá væri mjög svipuð og í grunnsviðsmynd og kaupmáttur launa nær sá sami, en á kostnað mikillar verðbólgu sem myndi ef eitthvað er grafa undan framleiðslugetu hagkerfisins og þannig rýra kaupmáttinn.

Þetta þýðir þó alls ekki að launin geti ekki hækkað. Ef framleiðni hækkar ekki nema um einu prósentustigi meira en í grunnsviðsmynd og laun þá um rúm 5% er niðurstaðan sú að kaupmáttur (raunlaun) er nærri þriðjungi meiri þegar fram í sækir, á sama tíma og verðlag er stöðugt.

Niðurstaðan af þessari æfingu kann að liggja í augum uppi: Þessar hagstærðir, eða hvaða hagstærðir sem er, verða að þróast í takt við það sem stenst til lengri tíma. Þetta ættu allir að vita, en af hverju voru þá almennar launahækkanir um síðustu ármót í mikilli óvissu á meðan 26.473 einstaklingar voru atvinnulausir eða á hlutabótaleið?

Víðtækari ályktanir en bara gagnvart vinnumarkaðnum

Hægt er að draga mun víðtækari ályktanir af framangreindri æfingu. Í grunninn á þetta við um allt sem viðkemur hagstjórn: Hvernig Seðlabankinn beitir gjaldeyrisforða, stjórnvöld ríkisfjármálum og svo framvegis verður alltaf að vera í samræmi við undirliggjandi stöðu í hagkerfinu ef óstöðugleiki og frekari óvissa á ekki að taka völdin. Ef út í það er farið má yfirfæra lærdóminn á margt annað í lífinu, jafnvel lífstílsbreytingar sem verða ekki nema það sé unnið fyrir þeim og horft til lengri tíma. Sárafáir geta reimað á sig skó og hlaupið maraþon á innan við þremur klukkutímum nema með löngum undirbúningi, aga og þrotlausum æfingum. En það er önnur saga.

Eitthvað þarf að breytast

Hingað til hefur íslensk hagsaga verið lituð af innstæðulausum launahækkunum á víxl við kostnaðarsama verðbólgu. Þau spor hræða og í sannleika sagt er fátt sem bendir til þess að vinnumarkaðurinn verði veigaminni óvissuþáttur á næstu misserum. Það er til alls að vinna að breyta því, bæði fyrir fyrirtæki og starfsfólk þeirra og til að þróun á vinnumarkaði þurfi ekki að vera „óþekkt óvissa“. Til þess þarf eitthvað að breytast, hvort sem það er vitundarvakning um framleiðni eða gjörbreytt vinnumarkaðsmódel.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu 12. febrúar 2021.

Tengt efni

Aukið framboð af íþyngjandi kvöðum 

„Auðvitað eiga leikreglur á markaði að vera skýrar og stuðla að jafnræði milli ...
22. maí 2024

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Engan ærsladraug í Karphúsið

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, fer yfir stöðu mála í kjaraviðræðum aðila ...
29. jan 2024