Við getum gert betur

Ísland hefur alla burði til að vera með allra samkeppnishæfustu ríkjum og standa jafnfætis Norðurlöndunum

Í dag birtir IMD viðskiptaháskólinn árlega úttekt sína á samkeppnishæfni ríkja, sem Viðskiptaráð kynnir að vanda. Samkeppnishæfni er stundum loðið og ofnotað hugtak, en í þessari úttekt er meining þess skýr: Hvernig ríki stuðla að umhverfi þar sem fyrirtæki geta á sjálfbæran hátt skapað verðmæti. Áhrif þess á lífsgæði allra landsmanna eru afgerandi og augljós.

Ísland stendur að ýmsu leyti vel í þessum samanburði og er annað árið í röð í 21. sæti af 64 ríkjum. Óvenju mikil áhrif heimsfaraldursins hér á landi vegna vægis ferðaþjónustu vega þungt en þó má víða greina jákvæða þróun, t.d. í tæknilegum innviðum landsins og í fjármögnunarumhverfinu sem lengi hefur verið dragbítur á samkeppnishæfninni.

Það sem er sérstakt áhyggjuefni er að Ísland er langt á eftir Norðurlöndunum. Í 2. sæti úttektarinnar, á eftir Sviss, er Svíþjóð. Danmörk er í 3. sæti, Noregur í því sjötta og loks er Finnland í 11. sæti. Norðurlöndin hafa verið að sækja fram í samkeppnishæfni á meðan Ísland hefur staðnað. Staðan er sú að Ísland hefur ekki staðið Norðurlöndunum jafn langt að baki frá árinu 2013. Sé rýnt nánar í niðurstöðurnar er Ísland undir meðaltali Norðurlandanna í 15 af 20 undirþáttum. Í fjórum þáttum stendur Ísland 1-4 sætum betur og aðeins í skattastefnu virðist Ísland bera af. Við nánari skoðun helgast það þó af því að lífeyriskerfið hér byggist á sjóðsöfnun en ekki gegnumstreymiskerfi.

Yfirskrift nýliðins Viðskiptaþings var að hugsa stærra og í samkeppnishæfninni eigum við sannarlega að hugsa stærra. Ísland hefur alla burði til að vera með allra samkeppnishæfustu ríkjum og standa jafnfætis Norðurlöndunum. Til að svo verði þurfa íslensk fyrirtæki að geta staðið sig í erlendri samkeppni. Rekstrarumhverfið þarf að gera þeim það kleift og þar eru ótal tækifæri til úrbóta, eins og birtist í 22 tillögum alþjóðahóps Viðskiptaráðs sem fjallað var um í skýrslu Viðskiptaþings.

Senn líður að kosningum. Þar sem samkeppnishæfnin hefur skýr og afgerandi áhrif á lífskjör allra landsmanna er fullt tilefni til að hún verði stórt kosningamál. Við skorum á flokkana að sýna á spilin í þeim efnum og leggja fram metnaðarfull en raunhæf markmið um hvernig megi bæta samkeppnishæfnina. Þannig getum við horft björtum augum á spennandi framtíð.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. júní 2021.

Tengt efni

Skýrsla Viðskiptaþings 2024 - Hið opinbera: Get ég aðstoðað?

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024

Skýrsla Viðskiptaþings 2024

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024

Nauðsynlegt er að tryggja samkeppnishæfan vinnumarkað

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ...
15. mar 2023