Virkjum fallega

Skiptar skoðanir eru um raforkuframleiðslu á Íslandi. Dæmin sanna að efnahagslegir- og samfélagslegir hagsmunir þjóðarinnar geta vel farið saman við hagsmuni náttúrunnar.

Bláa lónið er manngert en er jafnframt einn vinsælasti ferðamannastaður landsins
Bláa lónið er manngert en er jafnframt einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.

Khao Sok þjóðgarðurinn í Tælandi er mögulega sá staður sem kemst næst því að vera paradís á jörðu. Hann einkennist af þverhníptum, háum kalksteinsfjöllum sem standa upp úr kristaltæru, smaragðsgrænu stöðuvatni. Í fjöllunum vex iðagrænn frumskógur, fullur af lífi. 

Þrátt fyrir að vera ekki nema um þrefalt stærri en Reykjavík er þjóðgarðurinn heimkynni gríðarlegs fjölda dýrategunda, meira en 5% þeirra sem þekktar eru á heimsvísu. Stöðuvatnið, lífríkið og landslagið hefur gríðarlegt aðdráttarafl og fyrir vikið er Khao Sok vinsæll ferðamannastaður. En það er nýlega til komið.

Khao Sok þjóðgarðurinn í Tælandi.
Stöðuvatnið í Khao Sok þjóðgarðinum í Tælandi er uppistöðulón vatnsaflsvirkjunar.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að stöðuvatnið, sem má segja að sé þungamiðja þjóðgarðsins, er manngert. Það heitir Cheow Larn og þekur um fjórðung garðsins. Vatnið er uppistöðulón Ratchaprapha stíflunnar sem var tekin í gagnið 1987. Framleiðslugetan er 240 megavött af hreinni, endurnýjanlegri orku sem slagar í uppsett afl Búrfellsvirkjunar, 270 megavött. Þrátt fyrir óspillta náttúru hafði Khao Sok ekki það aðdráttarafl sem það nú hefur eftir að stíflan var reist.

Lífið er orka og orka er lífið

Óreiða er náttúrulegt ástand alheimsins. Manneskjan reynir að aðlaga umhverfið að þörfum sínum og þar með koma reiðu á það. Tilvera okkar er barátta gegn óreiðunni. Skjárinn sem þú ert að horfa á núna er birtingarmynd þessa og beinn afrakstur þess að mannshöndin hefur beislað náttúruöflin til orkuframleiðslu og búið til úr þeim eitthvað sem hjálpar okkur í lífsbaráttunni. Skjárinn er í þeim skilningi ónáttúrulegur og það sama má segja um raflagnirnar í húsinu þínu, ljósaperurnar og kaffivélina. Meira að segja pottaplönturnar þínar eru þar ekki af náttúrulegum orsökum. Sennilega vilt þú ekki án þessa vera.

Mannleg tilvera útheimtir orku, hvort sem hún fer fram í hellum eða háhýsum. Orkan er notuð til þess að búa til heimili, vegi, skóla, lyf og lækningatæki. Lífskjör og velferð okkar allra eru, enn sem komið er, í órjúfanlegu samhengi við orkuna sem við beislum. Lífið er orka og orka er lífið.

Lífið er ekki sársaukalaust

Baráttan við óreiðuna fer fram með inngripum í náttúruna. Það fylgir því samt alltaf fórnarkostnaður að raska óspilltri náttúru. Það veit sennilega enginn nákvæmlega hver sá fórnarkostnaður var í Khao Sok og þrátt fyrir mótvægis- og björgunaraðgerðir er ljóst að fjöldi dýra af ólíkum tegundum lifði framkvæmdina ekki af enda breytti hún vistkerfi stórs hluta þjóðgarðsins verulega[1].

Í þessu tilfelli var ávinningurinn talinn meiri en fórnarkostnaðurinn. Þrátt fyrir allt þrífst fjölbreytt lífríki áfram í Khao Sok. Svæðið tók stakkaskiptum og er í dag gríðarfallegt og laðar að sér fjölda gesta árlega. Tælendingar búa nú einnig yfir hreinni, endurnýjanlegri orku. Þessi orka er svo undirstaða verðmætasköpunar, sem aftur er órjúfanleg forsenda velferðar.

Það skal ósagt látið hvort virkjunin í Khao Sok hefði getað orðið að veruleika í íslensku laga- og stofnanaumhverfi. Sennilega ekki. Hvað sem því líður má samt færa sannfærandi rök fyrir því að ákvörðun um að reisa Ratchaprapha stífluna hafi verið skynsamleg, þótt hún hafi ekki verið sársaukalaus.

Stuðlagil varð vinsæll ferðamannastaður eftir virkjun Kárahnjúka.
„Eftir að Kárahnjúkastífla varð að veruleika þá fer jökuláin í burtu og eftir situr æðislega falleg á, græn og það magnar svolítið upp alla upplifunina. Þaðer allt önnur upplifun að hafa græna á heldur en svona kolmórauða, og hún virkar ekki eins hættuleg eins og þegar jökuláin var á sínum tíma.“ Stuðlagil - áfangastaður í mótun (2019)

Náttúran er líka mikilvæg

Dæmið um Khao Sok þjóðgarðinn á brýnt erindi við þau okkar sem hafa bæði áhuga á velferð og náttúruvernd. Það eru líklega flestir Íslendingar sem falla þar undir. Saga okkar, afkoma og lífsgæði eru svo nátengd íslenskri náttúru að það eru harla fáir sem skilja ekki mikilvægi hennar. Að sama skapi er sá vandfundinn sem segist ekki vera umhugað um velferð. En það er ekki síður mikilvægt að skilja hvað velferð er og hvernig hún verður til.

Velferð okkar sem þjóð byggir ekki síst á gæfu okkar til þess að virkja náttúruöflin til orkuframleiðslu. Það er jafnvægislist að gæta að náttúrunni en beisla krafta hennar á sama tíma, eins og dæmið um Khao Sok sýnir okkur. Þetta er vel hægt með skynsemi að leiðarljósi og við eigum aldrei að raska óspilltri náttúru meira en þörf krefur.

Við eigum alltaf að velja þá kosti sem veita mestan ávinning með minnstum fórnarkostnaði. Það er líka mikilvægt að nýta orkuna skynsamlega og að sama skapi eru einhverjir hlutar náttúrunnar sem við viljum af góðum og gildum ástæðum ekki undir neinum kringumstæðum hrófla við.

Ekki gefast upp 

En það er aldrei hægt að fallast á að það megi ekki undir nokkrum kringumstæðum hrófla við neinum hluta náttúrunnar. Ef náttúran á alltaf að njóta vafans þá er engin mannleg velferð í boði og rangt að halda öðru fram. Svo öfgakennd afstaða getur ekkert annað leitt af sér en versnandi lífskjör okkar allra til langrar framtíðar. Þá neitum við okkur og afkomendum okkar um lífskjörin sem við þekkjum í dag. Þeim mun hratt versna, nema ófyrirséðar tækniframfarir séu handan við hornið.

Vonandi bíður okkar bylting í orkuframleiðslu, til dæmis með kjarnasamruna. Það gæti breytt dæminu verulega. Við getum hins vegar ekki stefnt inn í framtíðina upp á von og óvon að það gerist einhvern tímann á næstunni.

Eina leiðin til að fullnægja þessari stefnu til hins ítrasta er að leggjast niður, deyja og verða sjálf hluti af óreiðunni. Við gerum það vissulega öll á endanum, en eigum við ekki að reyna að vera til þar til að því kemur?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. ágúst 2022.

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Brýnt að auka orkuframleiðslu

Að mati Viðskiptaráðs skýtur það skökku við að færa virkjunarkosti í ...
21. jún 2024

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlunar (virkjunarkostir í vindorku)

Viðskiptaráð Íslands hefur staðfastlega hvatt stjórnvöld til þess að greiða ...