Árangur í sóttvörnum gefur tilefni til tilslakana

Íslendingar eru meira á ferðinni en erlendir samanburðarhópar, samkvæmt gögnum Facebook á heimsvísu. Þar sem smit hér eru tiltölulega fá og jólabylgjunni virðist hafa verið afstýrt er fullt tilefni til að slaka á takmörkunum og leggja enn frekari áherslu á persónulegar sóttvarnir. Tillögur heilbrigðisráðherra í dag eru skref í rétta átt, en harðari fermetraviðmið í verslunum vekja furðu.

Meirihluta ársins 2020 bjuggu landsmenn við íþyngjandi sóttvarnaaðgerðir sem hafa raskað daglegu lífi með afgerandi hætti. Fyrir jól óttuðust margir, ekki hvað síst yfirvöld, að jólahátíðin með tilheyrandi ferðalögum og hittingum myndi verða eldsneyti fyrir veiruna. Þær áhyggjur voru skiljanlegar enda jókst hreyfanleiki fólks svo mikið á seinni hluta aðventunnar að hann var sambærilegur fyrri hluta september þegar þriðja bylgja rauk af stað. Það er því í senn ánægjulegt og með ólíkindum að smitum hafi í raun fækkað eftir aðventuna. Vikuna fyrir jól voru 68 innanlandssmit en þau voru 34 fyrstu viku nýs árs – nákvæmlega helmings samdráttur.

Íslendingar sýna ábyrgð í sóttvörnum

Þó að sóttvarnaaðgerðir hafi verið íþyngjandi og takmarkað athafnafrelsi okkar hafa landsmenn almennt verið mikið á ferli í faraldrinum ef horft er til nokkurra samanburðarsvæða. Til dæmis hefur hreyfanleiki fólks dregist minna saman hér en í Stokkhólmi þar sem takmarkanir voru á margan hátt slakari framan af. Fara skal varlega í túlkanir á þessum tölum en þó virðist sem Íslendingum takist almennt vel að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum og forðast mestu smithættuna án þess að loka sig af heima hjá sér.

Tímbærar tilslakanir

Í ljósi árangurs síðustu vikna, jólabylgjunnar sem aldrei kom og að bólusetningar eru hafnar er því fullt tilefni til að stíga örugg en afgerandi skref í losun á sóttvarnaaðgerðum. Fagna ber þeim tilslökunum sem heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt um og vonandi skapast forsendur fyrir frekari losunum sem fyrst. Þó skýtur mjög skökku við að herða skuli á fjöldatakmörkunum í verslunum með því að draga úr fjölda leyfilegra gesta, innan fermetraviðmiða, um helming. Viðskiptaráð skorar á ráðherra að endurskoða þá ákvörðun og viðhalda núverandi takmörkunum, enda hafa ekki komið fram upplýsingar um útbreiðslu veirunnar í verslunum.

Þegar liðið er svo langt á faraldurinn skiptir máli að horfa til samfélagslegra áhrifa og að halda í samstöðuna. Taka má tillit til hvors tveggja með skynsamlegum skrefum þannig að landsmenn njóti árangurs erfiðisins. Á hinn bóginn verða landsmenn áfram að fara varlega enda hefur veiran sýnt að hún er nær óútreiknanleg.

Tengt efni

Unglingadrykkja hrunið síðustu 30 ár

Undanfarin 30 ár hefur unglingadrykkja á Íslandi hrunið. Árið 1995 höfðu 80% ...
18. jún 2024

Blessað grasið

Kemur Stóra eftirsjáin á eftir Stóru uppsögninni?
13. maí 2022

Hvar er vondi kallinn?

Eru fyrirtæki vond? Græðir einhver á því að fyrirtæki hagnist? Hvað gera ...
14. jún 2022