Heimilin þungamiðja COVID-úrræða

Úrræði stjórnvalda hafa í meira mæli runnið til heimila en fyrirtækja þrátt fyrir vísbendingar um að kreppan leggist af meiri krafti á fyrirtæki. Aðgerðir sem stuðla að sköpun starfa eru forgangsverkefnið til skemmri tíma.

Frá upphafi kórónuveirufaraldursins fyrir ári hafa stjórnvöld ráðist í ótal úrræði og aðgerðir í efnahagsmálum – stórar og smáar. Heildarsamhengi þessara úrræða og hversu stór hluti þeirra hefur runnið til fyrirtækja og heimila hefur þó oft verið á reiki. Hér er gerð tilraun til að varpa ljósi á það.

Samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs á úrræðum stjórnvalda hafa úrræðin að megninu til runnið til heimila eða sem nemur 81 milljarði króna (mynd 1)[1]. Úrræði að umfangi 51 milljarði króna hafa á sama tíma runnið til fyrirtækja. Úrræðin eru afar misjöfn, t.d. lán í samanburði við beinar peningagreiðslur. Þannig fóru 48 milljarðar króna sem rekja má til faraldursins í beinum peningagreiðslum til heimila, nærri því fimmföld sú fjárhæð sem rann til fyrirtækja.

Mikilvægt er að hafa í huga að þegar upp er staðið nýtast vel heppnuð úrræði hvort tveggja heimilum og fyrirtækjum þótt það sé með ólíkum hætti, enda eru hagsmunirnir samofnir. Þau úrræði sem nýtast hvað helst bæði fyrirtækjum og heimilum nema um 47 milljörðum króna. Mörkin á milli þess hverjum úrræðin nýtast eru oft óljós og því eru úrræðin sundurliðuð eftir þeim helstu á mynd 2. Gott dæmi um úrræði sem nýtist báðum aðilum er hlutabótaleiðin svokallaða, sem gerir fyrirtækjum og starfsfólki kleift að viðhalda ráðningarsambandi með sem minnstri skerðingu á tekjum einstaklinga. Endurgreiðsla virðisaukaskatts er einnig til þess fallin að nýtast fyrirtækjum með auknum umsvifum og heimilum með lægra verði fyrir þjónustu. Það úrræði sem vegur þyngst hjá fyrirtækjum eins og sakir standa er greiðsluhlé lána, eða 27 milljarðar króna. Brúar- og stuðningslán eru um 12 milljarðar króna og öll önnur úrræði, t.d lokunar-, og tekjufallsstyrkir, nema einnig 12 ma.kr. Fjárhæð hinna fjölmörgu annarra úrræða var um 34 milljarðar króna.[2]

Hvað heimili varðar vega atvinnuleysisbætur þyngst eða 34 milljarðar króna. Hér er eingöngu horft til atvinnuleysisbóta vegna COVID til og með febrúar sl. Gert var ráð fyrir nokkru atvinnuleysi á árinu 2020 og því aðeins horft á atvinnuleysisbætur sem voru umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Rétt er að nefna að hækkun á greiðslum atvinnuleysisbóta kallaði ekki á sérstakar ákvarðanir, fyrir utan hækkun grunnbóta sl. áramót og lengingu tekjutengingar. Um er að ræða það sem kalla má sjálfvirka sveiflujöfnun, sem dregur eðlilega úr þörf á öðrum úrræðum. Til samanburðar voru ekki til staðar sambærileg sveiflujafnandi úrræði fyrir fyrirtæki þegar faraldurinn hófst.

Kreppan leggst þyngst á fyrirtæki

Að horfa einvörðungu á umfang aðgerða segir ekki alla söguna. Einnig þarf að horfa til þess að faraldurinn lendir mjög misjafnlega á fólki og fyrirtækjum, sem helgast meðal annars af því að frá upphafi mælinga hafa ekki áður sést jafnmiklar breytingar á neyslumynstri heimila, þar sem sumir hafa notið góðs af. Á sama tíma hefur stærsta atvinnugreinin, ferðaþjónusta, að miklu leyti legið í dvala í heilt ár.

Ein birtingarmyndin er að kreppan hefur almennt lagst af meiri þunga á fyrirtæki en heimili, eins langt og slíkur samanburður nær. Annars vegar vegna þess að ráðstöfunartekjur heimila jukust almennt um 5% milli ára fyrsta hálfa ár faraldursins en til samanburðar drógust tekjur fyrirtækja saman um 8% milli ára á síðasta ári. Hins vegar nam greiðsluhlé lána hjá fyrirtækjum 27,1 ma.kr. 17. febrúar sl. til samanburðar við 7,4 ma.kr. hjá heimilum – nærri því fjórfaldur munur. Jafnvel þótt tekið sé tillit til heildarskuldsetningar, sem er 14% meiri hjá fyrirtækjum heldur en hjá heimilum, breytir sú niðurstaða því ekki að líklegra er að fyrirtæki eigi erfiðara með að greiða af lánum.

Sköpun nýrra starfa forgangsmál til skemmri tíma

Rekja má nánast öll úrræðin hér að framan til þess mikla atvinnumissis sem dunið hefur á þjóðinni síðasta árið en eins og stendur eru um 26.400 einstaklingar atvinnulausir eða í skertu starfshlutfalli. Aðgerðir hingað til hafa að miklu leyti snúist um viðbragð við þeirri stöðu en nú er tími til að snúa vörn í sókn af krafti og forgangsraða aðgerðum og úrræðum sem sporna gegn atvinnuleysinu. Til dæmis má  bæta í fjárfestingu, þar meðtalið í samstarfi við einkaaðila, lækka skatta og leitast við að draga úr óþarfa hindrunum í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Þessi úrræði nýtast ekki einungis fyrirtækjum og heimilum, heldur einnig ríkissjóði og sveitarfélögum með auknum skatttekjum og lægri bótagreiðslum. Einnig gætu stjórnvöld hvatt fyrirtæki til að nýta ráðningarstyrki Vinnumálastofnunar. Samhliða þyrfti að gefa skýr skilaboð um að fyrirtæki eigi ekki á hættu á skömmum eftir á, þrátt fyrir að hafa fylgt lögum og hvatningu um að nýta úrræði, líkt og gerðist varðandi hlutabótaleiðina.

[1] Fjallað er um úrræðin á sérstakri síðu fjármálaráðuneytisins auk fyrri og seinni skýrslum starfshóps um úrræði vegna faraldursins.

[2] Fyrirtæki: Tekjufalls- og lokunarstyrkir og frestun gjalda (staðan febrúar). Bæði heimili og fyrirtæki: Ferðagjöf, laun í sóttkví, samkeppnissjóðir vísindarannsókna og nýsköpunar. Heimili: Aðgerðir vegna hópa í viðkvæmri stöðu, lenging tekjutengingar og desemberuppbót atvinnuleysisbóta, stuðningur við sveitarfélög sem beint er til viðkvæmra hópa, úrræði til námsmanna, barnabótaauki, stuðningur við listamenn, íþróttir o.fl.

Tengt efni

Ný skoðun Viðskiptaráðs: Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mar 2024

Icelandic Economy 2F 2023

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
28. apr 2023