Hvernig eru mínar tekjur?

Ný greining og reiknivél Viðskiptaráðs um tekjudreifingu á Íslandi.

Greining á tekjudreifingu


Mikið hefur verið fjallað um tekjur og dreifingu tekna að undanförnu en orðið tekjur kom alls 4.595 sinnum fyrir í skrifum fjölmiðla á síðasta ári, eða tæplega þrettán sinnum á dag að meðaltali. Í þessu samhengi er oft ýmislegt fullyrt um dreifingu tekna sem stenst þó ekki skoðun en dæmi um það er umræða um vaxandi ójöfnuð hér á landi. Þvert á móti sýna gögn töluverðan stöðugleika og að ójöfnuður hér á landi sé með því minnsta sem gerist í heiminum.

Viðskiptaráð hefur því tekið saman stutta greiningu auk þess að setja í loftið reiknivél þar sem hægt er að bera eigin tekjur saman við tekjur annarra. Reiknivélina má finna efst á þessari síðu.

Svokallaður Gini-stuðull er viðurkenndur mælikvarði á ójöfnuð tekna, en gildi hans eru á bilinu 0-100 þar sem hærra gildi táknar meiri ójöfnuð. Síðustu birtu tölur OECD fyrir Ísland eru frá árinu 2018 en þær gefa til kynna að jöfnuður nú sé yfir meðaltali frá árinu 2004 og hafi haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár.

Sé litið til hlutdeildar þeirra tekjuhæstu af heildartekjum má merkja álíka þróun. Á þennan mælikvarða hefur tekjujöfnuður staðið nokkurn veginn í stað síðasta áratuginn og heldur aukist á allra síðustu árum.

Þá hefur hlutdeild þeirra eignamestu í heildareignum lækkað gífurlega frá árinu 2010. Mest er lækkunin hjá efsta 0,1% eða sem nemur 46%.

Alþjóðlegur samanburður á tekjuójöfnuði gefur auk þess til kynna að jöfnuður hér á landi sé með því mesta sem gerist. Samanburður á bæði Gini stuðlinum og fimmtungastuðlinum rennir stoðum undir þá staðhæfingu en fimmtungastuðullinn mælir tekjumun á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs. Sá stuðull er hvergi lægri en einmitt hér á landi en síðustu mælingar gefa til kynna að tekjuhæsti fimmtungurinn hafi um þrisvar sinnum hærri tekjur en tekjulægsti fimmtungurinn.

Af ofangreindu er ljóst að dreifing tekna og eigna hefur haldist nokkuð stöðug að undanförnu en öðru máli gegnir um tekjurnar sjálfar sem hafa hækkað ríkulega á síðustu tíu árum.

Frá árinu 2010 hefur miðgildi heildartekna hækkað um alls 39% en árið 2020 nam miðgildið 488 þúsundum króna á mánuði. Nokkru munaði á heildartekjum karla og kvenna (byggt á kynjaflokkun Hagstofu Íslands) þar sem miðgildi heildartekna karla nam um 538 þúsundum á mánuði samanborið við 450 þúsund krónur hjá konum. Þá var miðgildi heildartekna lægst hjá fólki á aldrinum 16-19 ára, eða rúmar 92 þúsund krónur en hæstar voru heildartekjur fólks á aldrinum 45-49 ára, eða um 675 þúsund krónur.

Tekið skal fram að miðgildi heildartekna felur í sér að helmingur einstaklinga í viðkomandi þýði er með hærri heildartekjur og helmingur með lægri heildartekjur. Auk þess er mikilvægt að hafa hugfast að ekki er tekið tillit til atvinnuþátttöku, vinnuframlags, menntunar, starfsreynslu eða annarra þátta sem kunna að hafa áhrif á heildartekjur einstaklinga.

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022