17.000 störf til að útrýma atvinnuleysi

Jafnvel þótt horfur séu góðar í baráttunni við kórónuveiruna er enn nokkuð í land, enn mikil óvissa og atvinnuleysi mikið.

Þetta kom fram í kynningu Konráðs S. Guðjónssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, fyrir aðildarfélaga ráðsins síðastliðinn föstudag undir yfirskriftinni „Gengur jafnan upp?“, en í kynningunni fjallaði Konráð um stöðu efnahagsmála um þessar mundir.

Flestar spár gera ráð fyrir kröftugum efnahagsbata og batnandi atvinnustigi frá og með miðju ári, en þó virðist meira þurfa til eigi atvinnuleysi að ganga hratt niður. Til þess að atvinnuleysi verði 3,5% við lok næsta árs, sem er nálægt svokölluðu náttúrulega atvinnuleysi, þyrfti að skapa um 17.000 störf næstu tvö ár, en það jafngildir 700 störfum á mánuði. Til samanburðar hafa um 14.000 störf glatast í ferðaþjónustu sl. ár sem þýðir að ekki dugar að stóla eingöngu á viðspyrnu ferðaþjónustu þótt hún muni gegna lykilhlutverki í efnahagsbatanum. Í því ljósi þurfa stjórnvöld áfram og í frekari mæli að stuðla að fjölgun starfa í einkageiranum. Til þess má beita skattkerfinu og ýta undir auknar fjárfestingar í hvívetna.

Mynd á bls. 12 í kynningunni.

Því var einnig velt upp hvort að krónan væri veikari en stenst til lengdar, en seðlabankastjóri fullyrti á síðasta ári að svo væri. Þá var krónan um 13% of veik miðað við mat Seðlabankans á jafnvægisgengi. Síðan hefur jafnvægisgengið verið endurmetið og nú er svo komið að krónan er lítillega of sterk á sama tíma og horfur um viðskiptaafgang hafa versnað. Þá selur Seðlabankinn gjaldeyri að andvirði margra milljarða króna í hverjum mánuði til að stuðla að sterkara gengi krónunnar. Hér er ekki fullyrt um hvað sé hið „rétta“ gengi svo krónan feti meðalveg þess að styðja við samkeppnishæfni útflutnings og stuðla að lítilli verðbólgu. Mikilvægast er að Seðlabankinn hugi að hvoru tveggja enda mun það koma í bakið á okkur síðar með tilheyrandi gengisfalli ef gengið er of sterkt til lengdar og rýra kaupmátt ef það er of veikt til lengdar.

Mynd á bls. 13 í kynningunni

Konráð fjallaði einnig um það misvægi sem myndast hefur í peningamagni og verðmætasköpun og hliðstætt misvægi í einkaneyslu og ráðstöfunartekjum. Í apríl til september árið 2020 jukust ráðstöfunartekjur heimilanna um 5% á sama tíma og einkaneysla dróst verulega saman. Sparnaður heimila hefur því aukist , en þetta birtist meðal annars í miklum vexti innlána og því, að heimilin keyptu í verðbréfasjóðum fyrir 20 milljarða króna á síðasta ári. Þessir miklu fjármunir munu styðja við efnahagsbatann þegar slakað verður á sóttvarnaaðgerðum en einnig er hætta á að það geti ýtt undir verðbólguþrýsting.

Í kynningunni var ennfremur fjallað um hækkun fasteignaverðs, langtímaþróun á vinnumarkaði, helstu óvissuþætti og horfur erlendis.

Skoða kynningu á efnahagshorfum.

Tengt efni

Skilvirkni og hagkvæmni til lausnar á vanda heilbrigðiskerfisins

Það er mat Viðskiptaráðs að leggja skuli áherslu á að auka hagkvæmni og ...
3. sep 2021

Nýtt haglíkan: Hvers vegna skiptir ábyrg hagstjórn máli?

Viðskiptaráð Íslands kynnir nýtt haglíkan sem meðal annars sýnir hvers vegna ...
11. feb 2021

Ógn við efnahagsbatann?

Erfitt er að átta sig á hvernig má ná niður atvinnuleysi í hálaunalandi án þess ...
15. jan 2021