Ísland fellur niður um fjögur sæti í samkeppnishæfni

Skoða kynningu á samkeppnishæfni Íslands

Viðskiptaráð kynnir í samstarfi við Íslandsbanka árlega úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja. Ísland fellur niður um fjögur sæti og niður í 24. sæti að þessu sinni. Ísland er enn talsvert að baki hinum Norðurlöndunum sem eru 6.- 16. sæti. Bandaríkin eru í fyrsta sæti og ná toppsætinu af Hong Kong.

Þróun og staða Íslands er misjöfn eftir fjórum meginþáttum. Í efnahagslegri frammistöðu fellur Ísland um 18 sæti og niður í 57. sæti að þessu sinni. Minni hagvöxtur árið 2017 heldur en 2016 ásamt sterku gengi krónunnar skýrir þá þróun að miklu leyti. Skilvirkni hins opinbera minnkar einnig milli ára og fellur Ísland þar úr 8. sæti niður í 16. sæti. Þar hefur gengi gjaldmiðilsins einnig áhrif, auk meiri hættu á pólitískum óstöðugleika og að áhrif stöðugleikaframlaga á opinber fjármál nýtur ekki eins sterkt við, svo eitthvað sé nefnt. Skilvirkni atvinnulífsins batnar lítillega milli ára og situr Ísland nú í 22. sæti en innviðir standa í stað og er Ísland í 17. sæti þriðja árið í röð.

Til að snúa vörn í sókn þarf bæði að mæta áskorunum dagsins í dag, en einng að hlúa að styrkleikum Íslands og bæta úr veikleikum. Losa ætti það sem eftir er af fjármagnshöftum, endurskoða samkeppnislög og vinna markvisst að leiðum til að bæta rekstrargrundvöll hugvitsdrifins útflutnings, svo eitthvað sé nefnt.

Skoða kynningu á samkeppnishæfni Íslands

Nokkur atriði sem koma fram í kynningunni:

  • Skilgreining samkeppnishæfni er hvernig ríki stuðla að umhverfi þar sem fyrirtæki geta á sjálfbæran hátt skapað verðmæti.
  • Sterk tengsl eru á milli samkeppnishæfni og lífskjara. Af efstu 20 ríkjunum í félagslegum framförum (SPI) eru 17 í topp 20 í samkeppnishæfni.
  • Ísland er að baki hinum Norðurlöndunum í öllum fjórum meginþáttum samkeppnishæfni
  • Sterk króna og kostnaðarhækkanir hafa mikil áhrif víða í úttektinni. Ísland er í 49. til 56. sæti af 63 löndum þar sem flutningur starfsemi frá landinu er ógn við hagkerfið.
  • Styrkleikar Íslands felast meðal annars í náttúruauðlindum, sveigjanleika atvinnulífsins og háu atvinnustigi.
  • Viðhorf og mat stjórnenda breyttist til hins verra við fjármálakreppuna og hefur lítið þokast upp á við síðan þá.
  • Í kynningunni eru listaðar fimm áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir sem tengjast samkeppnishæfni. Einnig eru tekin dæmi um hvernig er hægt að bæta úr veikleikum Íslands í samkeppnishæfni.

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands minnkar á milli ára

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfni og situr í 17. sæti af 67 ...
20. jún 2024

Greiðslumiðlun Schrödingers

„Með frumvarpinu er ekki einungis verið að veita Seðlabankanum heimild til að ...
4. mar 2024

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022