Samkeppnishæfni Íslands minnkar á milli ára

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfni og situr í 17. sæti af 67 árið 2024 samkvæmt úttekt IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni ríkja. Í fyrra sat Ísland í 16. sæti.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kynnti niðurstöður IMD fyrir Ísland.

Undanfarinn áratug hefur samkeppnishæfni Íslands smám saman batnað, en fyrir tíu árum sat Ísland í 25. sæti. Litlar framfarir hafa þó orðið síðustu 2-3 ár og Ísland er ennþá eftirbátur annarra Norðurlanda í samkeppnishæfni. 

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, kynnti niðurstöður IMD fyrir Ísland á morgunfundi Viðskiptaráðs þann 20. júní. Hér má sjá glærur Gunnars frá fundinum.

Samkeppnishæfniúttekt IMD háskólans er ein sú umfangsmesta í heimi og hefur verið framkvæmd í 36 ár. IMD vinnur úttektina í samstarfi við stjórnvöld og félagasamtök þátttökuríkja. Hún samanstendur af yfir 300 undirþáttum en tveir þriðju þeirra eru í formi haggagna sem safnað er af IMD og samstarfsaðilum í hverju ríki fyrir sig. Þriðjungur byggir á alþjóðlegri stjórnendakönnun sem um 6.200 stjórnendur fyrirtækja og annarra samtaka taka þátt í. Viðskiptaráð hefur annast úttektina fyrir hönd Íslands frá því að landið tók fyrst þátt árið 2004. 

Tenglar

  Þrír af fjórum meginþáttum samkeppnishæfni gefa eftir 

  Við mat IMD á samkeppnishæfni er litið til fjögurra meginþátta og er þróun og staða Íslands nokkuð ólík á milli þessara þátta. Að þessu sinni dregur mest úr efnahagslegri frammistöðu, þar sem Ísland fellur úr 45. sæti niður í það 53., skilvirkni hins opinbera batnar lítillega á milli ára eftir að hafa fallið um fimm sæti árið á undan , og færist úr 19. sæti í 17. sæti. Skilvirkni atvinnulífsins fellur úr 10. sæti niður í 13. sæti. Samkeppnishæfni samfélagslegra innviða fellur úr 7. sæti í 12. sæti, en Ísland hafði verið á meðal tíu samkeppnishæfustu ríkja í þeim meginflokki árin 2021 – 2023. 

  Samfélagslegir innviðir 

  Lengi vel hafa samfélagslegir innviðir verið einn helsti styrkleiki Íslands í úttektinni en Ísland hefur verið á meðal tíu samkeppnihæfustu ríkja í þessum meginþætti. Íslandi fer aftur í öllum undirþáttum samfélagslegra innviða á milli ára og fer úr 7. sæti í 12. sæti. Mestar afturfarir eru í undirþættinum tæknilegir innviðir, en einnig er eftirtektarvert að menntun og heilbrigði og umhverfi fellur einnig á milli ára. 

  Efnahagsleg frammistaða 

  Efnahagsleg frammistaða Íslands fellur um átta sæti á milli ára, úr 45. í 53. sæti. Allir undirþættir að þættinum atvinnustigi undanskildu eru á niðurleið, en það er jafnframt sterkasti undirflokkur Íslands í efnahagslegri frammistöðu og færumst við úr 13. sæti í 8. sæti. Helstu veikleikar Íslands eru alþjóðaviðskipti, alþjóðleg fjárfesting og verðlag en Ísland situr í 59. – 60. sæti í þeim undirþáttum. 

  Skilvirkni atvinnulífs 

  Ísland situr í 13. sæti þegar kemur að skilvirkni atvinnulífsins og fellur um þrjú sæti á milli ára en árin 2022 – 2023 sat Ísland í topp tíu sætunum í þeim meginflokki. Íslandi fer fram í skilvirkni og framleiðni og færist upp um þrjú sæti í undirflokknum, úr 17. sæti í 14. sæti. Samkeppnishæfni vinnumarkaðar batnar einnig verulega, og fer úr 27. sæti í 18. sæti. Ísland færist aftur undirþáttunum í stjórnarháttum fyrirtækja og viðhorfi og gildismati en samkeppnishæfni þessara tveggja þátta mælist enn há. Helsti dragbítur á skilvirkni atvinnulífs er fjármögnun fyrirtækja og sitjum við í 26. sæti í ár, og færumst aftur um fimm sæti á milli ára. 

  Skilvirkni hins opinbera 

  Skilvirkni hins opinbera er eini meginþátturinn sem batnar á milli ára og færist úr 19. Sæti í 17. sæti. Framfarirnar má rekja til góðrar stöðu í samfélagslegri umgjörð, en Ísland situr í 2. sæti allra ríkja og heldur sætinu á milli ára. Staða opinberra fjármála er einnig óbreytt á milli ára. Staða regluverks atvinnulífs breytist lítillega og fellur um eitt sæti. Mestar afturfarir eru þó í skattastefnu og fellur Ísland um 8 sæti á milli ára, og situr í 41. sæti. 

  Þrjú samkeppnishæfustu ríkin 

  Í ár endurheimti Singapúr 1. sætið vegna góðrar frammistöðu í samkeppnishæfni allra fjögurra meginþátta, þá sérstaklega í skilvirkni hins opinbera og skilvirkni atvinnulífsins. Sviss færist í 2. sætið og á bætingum í efnahagslegri frammistöðu og skilvirkni atvinnulífsins því að þakka en sömuleiðis heldur ríkið forskoti sínu í skilvirkni hins opinbera og samfélagslegum innviðum. Danmörk situr í 3. sæti í ár en ríkið sat jafnframt í 1. sæti árin 2022 og 2023. Afturförin er helst vegna lakari samkeppnishæfni efnahagslegrar frammistöðu, einna helst vegna fallandi frammistöðu í atvinnustigi og alþjóðaviðskiptum. 

  Árið 2024 eru 67 ríki í samkeppnishæfniúttektinni og bættust þrjú ríki við í úttektinni: Gana, Nígería og Púertó ríkó. 

  IMD um Ísland

  Niðurstöður IMD í heild

  Glærur Gunnars Úlfarssonar

  Tengt efni

  Lægri skattar og sjálfbær ríkisfjármál bæta samkeppnishæfni Íslands 

  Undanfarinn áratug hefur samkeppnishæfni Íslands smám saman batnað, en fyrir tíu ...
  21. jún 2024

  Vel heppnað Viðskiptaþing

  Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
  14. feb 2024

  Vel heppnað Viðskiptaþing 2023

  Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2023 sem fór fram á Hilton Reykjavík ...
  20. feb 2023