Lög Viðskiptaráðs Íslands

Samþykkt á aðalfundi 23. febrúar 1994. Breytt á aðalfundum 11/2 1998, 8/2 2006, 17/2 2010, 12/2 2014, 11/2 2016 og 14/2 2018.

I. kafli - Nafn og tilgangur

1. gr.
Samtök þau, er lög þessi varða, heita Viðskiptaráð Íslands (VÍ). Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Viðskiptaráð Íslands vinnur að framförum í atvinnulífinu og frjálsum og heilbrigðum viðskiptaháttum.

Viðskiptaráð Íslands er málsvari aðildarfélaga sinna í samskiptum við opinbera aðila á grundvelli viðskiptafrelsis og jafnréttis milli fyrirtækja og atvinnugreina.

Viðskiptaráð skal meðal annars:

 1. Vera vettvangur fyrir nýjar hugmyndir, opnar umræður og skoðanaskipti um framfaramál íslensks atvinnulífs. Í því felst m.a. að beita sér fyrir breytingum á lögum, reglum og stjórnarháttum með útgefnu efni, viðburðum og með því að veita umsagnir um lagafrumvörp er varða íslenskt viðskiptalíf.
 2. Stuðla að málefnalegum umræðum og aukinni samvinnu milli stjórnvalda, atvinnulífsins og annarra hagsmunaaðila um mótun framtíðarstefnu í efnahagsmálum og mikilvægi verðamætasköpunar einkageirans.
 3. Vinna að auknum viðskiptatengslum milli Íslands og annarra ríkja, veita erlendum aðilum upplýsingar um viðskipti við Ísland og vera fulltrúi íslensks viðskiptalífs gagnvart erlendum viðskiptaráðum og öðrum erlendum aðilum á starfssviði sínu.
 4. Stuðla að aukinni þekkingu, menntun, rannsóknum og nýsköpun innan atvinnulífsins og reka starfsemi tengda þessu markmiði ef svo ber undir.
 5. Vinna að aukinni framleiðni, virkri samkeppni og hagfelldum fjárfestingarskilyrðum á öllum sviðum efnahagslífsins.
 6. Vinna gegn útþenslu hins opinbera og aukinni skattheimtu á kostnað atvinnulífsins. Í því felst m.a. að stuðla að umbótum í skattamálum, bættri nýtingu opinberra fjármuna og auknu vægi einkaframtaks.

II. kafli - Aðildarfélagar, inntaka þeirra, úrsögn og brottvikning

3. gr.
Aðild að Viðskiptaráði Íslands geta átt fyrirtæki, samtök fyrirtækja, félög og einstaklingar sem reka viðskipti á samkeppnisgrundvelli.

Einnig geta átt aðild að Viðskiptaráði einstaklingar sem áður áttu aðild að því skv. 1. mgr., eru orðnir 70 ára og eldri og hættir viðskiptarekstri. Stjórn Viðskiptaráðs skal setja sérstakar reglur um slíka félagsaðild og ákvarða sérstakt árgjald slíkra aðildarfélaga.

4. gr.
Þegar einhver óskar að gerast aðildarfélagi í Viðskiptaráði skal viðkomandi senda skriflega umsókn til skrifstofu ráðsins. Skylt er að leggja hana fyrir framkvæmdastjórn til afgreiðslu á fyrsta fundi hennar eftir að umsókn er móttekin.

Til þess að umsókn teljist samþykkt þarf hún samþykki meirihluta framkvæmdastjórnar. Sé umsókn hafnað skal synjun borin upp til staðfestingar á stjórnarfundi.

Þegar umsókn hefur verið samþykkt telst viðkomandi löglegur félagi og skal nafn hans skráð í félagaskrá Viðskiptaráðs.

5. gr.
Hver aðildarfélagi er skyldur til, án sérstakrar yfirlýsingar af hans hálfu, að hlíta lögum Viðskiptaráðs.

6. gr.
Aðildarfélagar Viðskiptaráðs skulu tilkynna skrifstofu ráðsins hverjir fari með félagsaðild að ráðinu fyrir þeirra hönd. Skrifstofa Viðskiptaráðs á rétt á upplýsingum um það hverjir skipi stjórn eða séu prókúruhafar aðildarfélaga ráðsins.

Séu félagasamtök aðilar að Viðskiptaráði á skrifstofa ráðsins rétt á árlegum upplýsingum um það hverjir séu félagsmenn í viðkomandi samtökum.

7. gr.
Úrsögn úr Viðskiptaráði telst lögleg, ef hún er skrifleg. Úrsögn miðast við áramót og þarf að berast skrifstofu ráðsins fyrir 1. október til þess að taka gildi frá næstu áramótum.

Þeir sem segja sig úr ráðinu eiga ekki kröfu til neins endurgjalds á framlögum sínum til ráðsins né nokkurs hluta af eignum þess.

8. gr.
Heimilt er stjórn Viðskiptaráðs að má nafn aðildarfélaga af félagaskrá, hafi hann eigi greitt árgjald sitt fyrir árslok, enda hafi aðvörun þess efnis verið send honum. Framangreint gildir jafnframt um félaga sem hætt hefur rekstri. Í gerðabók framkvæmdastjórnar skal gerð viðhlítandi bókun.

Stjórn Viðskiptaráðs er heimilt að víkja félaga úr ráðinu, ef sérstök og rökstudd ástæða þykir til, og sú ákvörðun er samþykkt af 2/3 hlutum stjórnarinnar.

Í þeim tilvikum, sem um ræðir í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, skal viðkomandi, hvort heldur er um beinan aðildarfélaga að ræða eða aðildarsamtök, ekki eiga neina kröfu á endurgreiðslu á framlögum sínum til ráðsins né nokkurs hluta eigna þess.

III. kafli - Fundir og atkvæðisréttur

9. gr.
Aðalfundur Viðskiptaráðs fer með æðsta vald í málefnum ráðsins og skal hann almennt haldinn samhliða Viðskiptaþingi í febrúarmánuði, þegar ártal stendur á jafnri tölu. Heimilt er þó, er sérstaklega stendur á, að halda aðalfund síðar á árinu og þó ártal standi eigi á jafnri tölu, enda samþykki stjórn ráðsins að svo verði.

Aðalfund skal boða með minnst fjögurra vikna fyrirvara með tilkynningu til þess sem fer með félagsaðild að ráðinu fyrir hönd aðildarfélaga, sbr. 6. gr. Heimilt er að boða til aðalfundar með rafrænum hætti. Ákvæði 11.-14. gr. gilda um aðalfundi, eftir því sem við á.

Á aðalfundi skal taka fyrir þessi mál:

 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Umræða um reikninga.
 3. Úrslit formanns- og stjórnarkjörs tilkynnt.
 4. Lagabreytingar.
 5. Kosning kjörnefndar.
 6. Tekju- og gjaldaáætlun kynnt og árgjöld ákvörðuð.
 7. Önnur mál.

10. gr.
Lögmætir félagsfundir hafa annars æðsta vald í öllum málefnum Viðskiptaráðs. Til félagsfundar skal stjórnin boða með minnst sjö virkra daga fyrirvara. Heimilt er að boða til félagsfunda með rafrænum hætti, sbr. 2. mgr. 9. gr.

Félagsfund skal halda, ef stjórnin ákveður það, eða ef 50 aðildarfélagar óska þess skriflega og tilgreina fundarefni.

11. gr.
Allir félagar, sem beina aðild eiga að Viðskiptaráði, svo sem prókúruhafar og stjórnarmenn einstakra aðildarfélaga, skulu eiga rétt til fundarsetu á almennum fundum ráðsins og vera kjörgengir við kosningar.

Þeir einir eru kjörgengir til embættis formanns Viðskiptaráðs sem gefa skriflega kost á sér. Framboðum skal skilað til skrifstofu ráðsins eigi síðar en þremur vikum fyrir boðaðan aðalfund.

Sá einstaklingur sem fer með félagsaðild að Viðskiptaráði Íslands sbr. 6. gr. fer með atkvæðisrétt fyrir viðkomandi aðildarfélaga. Honum er heimilt að veita þeim aðilum sem minnst er á í 1. mgr. umboð til að fara með atkvæðisrétt viðkomandi félaga. Óheimilt er að veita öðrum slíkt umboð.

Sérhver aðildarfélagi skal hafa 100 atkvæði og síðan til viðbótar eitt atkvæði fyrir hverjar 1.000 krónur sem hann hefur greitt í árgjald til ráðsins næsta reikningsár á undan. Enginn einn félagi má þó fara með meira en 2% atkvæðamagns.

12. gr.
Félagsfundi stýrir fundarstjóri, er fundurinn kýs, og kveður hann sér fundarritara. Atkvæðagreiðsla skal fara fram skriflega, ef 10% atkvæðisbærra fundarmanna óskar þess. Félagsfundur ræður félagsmálum til lykta með meirihluta atkvæða, ef það brýtur ekki í bága við önnur ákvæði þessara laga.

13. gr.
Í fundarboði félagsfunda skal geta fundarefnis. Ályktanir verða ekki gerðar í öðrum málum en þeim, sem um er getið í fundarboði, nema með samþykki 2/3 hluta atkvæða á fundinum.

14. gr.
Í fundarbók skal rita stutta skýrslu um það, er gerist á félagsfundum, einkum allar fundarályktanir. Fundargerð skal undirrituð af fundarstjóra og fundarritara. Er hún full sönnun þess, sem fram hefur farið á fundinum.

IV. kafli - Stjórnarkjör og stjórnarstörf

15. gr.
Stjórn Viðskiptaráðs er skipuð 38 einstaklingum. Kosningar eru skriflegar. Heimilt er, að ákvörðun stjórnar, að viðhafa rafræna atkvæðagreiðslu um kosningu stjórnar og formanns.

Formaður skal kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn í einu lagi, sbr. 17. gr. Kosning til formanns er bundin en til stjórnar óbundin. Komi fram einungis eitt framboð til formanns skal engu að síður fara fram kosning.

Kynjahlutföll í stjórn skulu vera þannig að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

Náist ofangreind kynjahlutföll ekki við kosningu stjórnar á aðalfundi skal sá er fékk flest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni sem hallar á, taka sæti þess er fæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er af fjölmennara kyninu. Hafi slík kynjahlutföll ekki enn náðst skal sá er fékk næstflest atkvæði af þeim sem náðu ekki kjöri, og er af því kyni sem hallar á, taka sæti þess er næstfæst atkvæði fékk af þeim sem náðu kjöri, og er af fjölmennara kyninu o.s.frv. þar til hlutföllin samræmast kröfu 3. mgr.

16. gr.
Skuldlausir aðildarfélagar hafa einir kosningarétt og kjörgengi til stjórnar Viðskiptaráðs.

Hafi formaður setið samfleytt í fjögur ár má eigi endurkjósa hann formann fyrr en minnst tvö ár eru liðin frá því hann lét af formennsku. Hafi stjórnarmaður setið í samfleytt átta ár í stjórn má eigi endurkjósa hann í stjórn fyrr en minnst tvö ár eru liðin frá því að hann fór úr stjórn. Starfsár í embætti formanns eru þó ekki talin með í þessu samhengi. Að öðru leyti fer um kosningarétt og kjörgengi skv. 11. gr.

17. gr.
Kjörnefnd, skipuð 5-7 einstaklingum, kosin af aðalfundi Viðskiptaráðs, annast, ásamt framkvæmdastjóra eða staðgengli hans, undirbúning og framkvæmd stjórnarkosningar. Þau sjá um, að aðildarfélögum sé sendur kjörseðill 15 dögum fyrir aðalfund. Kosningu er lokið kl. 17 daginn áður en aðalfundur hefst. Kjörnefnd úrskurðar allan ágreining varðandi kosningarnar og ræður afl atkvæða úrslitum mála. Forfallist kjörnefndarmaður er stjórn ráðsins heimilt að skipa annan í stað viðkomandi úr hópi aðildarfélaga.

Á kjörseðli skal standa hve mörg atkvæði hann veitir. Kjörseðillinn skal vera þannig úr garði gerður að formann skal kjósa sérstaklega en stjórnarmenn í einu lagi. Kjörseðlinum skulu fylgja ábendingar stjórnar Viðskiptaráðs um a.m.k. 57 manns, þar af a.m.k. 15 af hvoru kyni, tilkynning um frambjóðendur til formanns, svo og félagatal ráðsins.

Fari atkvæðagreiðsla fram með rafrænum hætti skal kjörseðill, ásamt fylgigögnum, vera aðgengilegur á rafrænu formi þeim aðila er fer með félagsaðild að ráðinu, sbr. 6. gr., innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í 1. mgr.

Þegar aðildarfélagi fær kjörseðilinn skrifar hann annars vegar nafn þess formannsframbjóðanda sem hann kýs og síðan nöfn þeirra 12 einstaklinga, er hann kýs í stjórn. Óheimilt er að kjósa sama einstakling bæði sem formann og almennan stjórnarmann og telst slíkt atkvæði ógilt.

Fari atkvæðagreiðsla fram skriflega skal félagi, þegar hann hefur kosið, láta kjörseðilinn í umslag sem á er prentað "atkvæði" og loka því. Umslag þetta lætur hann í annað umslag og sendir það kjörnefnd Viðskiptaráðs eftir að hafa sett nafn sitt á ytra umslagið. Ef ytra umslagið er nafnlaust er atkvæðið ógilt. Jafnóðum og atkvæðaseðlar berast skulu þeir settir í atkvæðakassa.

18. gr.
Sá frambjóðandi sem flest atkvæði hlýtur í formannskjöri telst réttkjörinn stjórnarformaður Viðskiptaráðs Íslands.

Atkvæði greidd í formannskjöri til frambjóðanda sem ekki nær kjöri, skulu lögð við þau atkvæði sem hann fær löglega greidd í stjórnarkjöri sbr. 4. mgr. 17. gr. og teljast sameiginlega til atkvæða greiddum honum í stjórnarkjöri.

Forfallist formaður stjórnar, hvort heldur tímabundið eða varanlega, er stjórn Viðskiptaráðs heimilt að skipa annan úr röðum stjórnarmanna í hans stað til næsta aðalfundar.

Þeir 37 einstaklingar sem flest atkvæði hljóta í stjórnarkjöri, að teknu tilliti til atkvæða í formannskjöri sbr. 2. mgr., teljast réttkjörnir í stjórn ráðsins ásamt formanni. Úrslit kosninga skulu tilkynnt á aðalfundi.

19. gr.
Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund skal hún kjósa sér varaformann og 5 úr hópi stjórnarmanna, sem ásamt formanni mynda 7 manna framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs.

Ef fyrsti stjórnarfundur er ekki ályktunarfær skal boða til nýs fundar innan viku og er á þeim fundi heimilt að kjósa framkvæmdastjórn án tillits til fundarsóknar.

Kjörtímabil stjórnar og framkvæmdastjórnar er á milli aðalfunda Viðskiptaráðs.

20. gr.
Stjórn Viðskiptaráðs fer með æðsta vald í málefnum ráðsins á milli aðalfunda. Hún skal koma saman til fundar eftir því sem þörf krefur og formaður ákveður. Skrifstofa ráðsins boðar til fundar á tryggilegan hátt með þriggja daga fyrirvara. Formanni er skylt að boða til fundar innan viku ef 1/3 stjórnarmanna fer fram á það skriflega eða fram kemur ósk um það frá framkvæmdastjórnarmanni.

Stjórn er ályktunarfær ef 2/3 stjórnarmanna sitja fund.

Afl atkvæða ræður úrslitum mála og skal atkvæðagreiðsla vera skrifleg ef þess er óskað. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum. Fundargerð skal haldin um það sem fram fer á stjórnarfundum og borin undir stjórn til staðfestingar.

Forfallist stjórnarmaður, hvort heldur tímabundið eða varanlega, er stjórn Viðskiptaráðs heimilt að skipa annan í hans stað úr hópi aðildarfélaga til næsta aðalfundar. Framangreint gildir jafnframt láti stjórnarmaður af störfum hjá aðildarfélaga ráðsins og gerist ekki félagi með öðrum hætti eða verður á annan hátt ekki kjörgengur skv. 11. gr.

21. gr.
Framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs ber ábyrgð á gerðum og eignum ráðsins á milli stjórnarfunda og fundar skv. ákvörðun formanns. Fari einhver framkvæmdastjórnarmaður fram á fund skal orðið við beiðni hans innan tveggja daga. Framkvæmdastjórn er ályktunarfær ef fjórir stjórnarmenn sitja fund. Um atkvæðagreiðslur og fundargerð fer skv. ákvæðum 20. gr.

Forfallist framkvæmdastjórnarmaður, hvort heldur tímabundið eða varanlega, er stjórn Viðskiptaráðs heimilt að skipa annan úr röðum stjórnarmanna í hans stað til næsta aðalfundar.

22. gr.
Framkvæmdastjórn ræður framkvæmdastjóra og ákveður kjör hans. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk á skrifstofu ráðsins, ber ábyrgð á starfsemi hennar og fer með prókúruumboð.

V. kafli - Árgjöld, reikningshald, fjárhagsáætlun og endurskoðun.

23. gr.
Stjórn Viðskiptaráðs setur reglur um árgjald félaga og leggur þær fyrir aðalfund til samþykktar. Aðalfundur ákveður eftir tillögu stjórnar árgjöld sama árs og hann fer fram og einnig viðmiðun fyrir árið á eftir.

24. gr.
Stjórn Viðskiptaráðs skal leggja fyrir aðalfund fjárhagsáætlun um tekjur og gjöld á milli aðalfunda.

Reikningar ráðsins skulu vera samþykktir af framkvæmdastjórn með áritun að fenginni staðfestingu stjórnar og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

Reikningar Viðskiptaráðs skulu vera til sýnis fyrir félaga á skrifstofu ráðsins síðustu vikuna fyrir aðalfund, sbr. 9. gr.

Reikningsár ráðsins er almanaksárið.

VI. kafli - Viðskiptaþing, gerðardómur, heiðursfélagar

25. gr.
Viðskiptaþing skal haldið ár hvert. Þau ár sem aðalfundur er haldinn skal Viðskiptaþing almennt haldið í febrúar samhliða aðalfundi nema stjórn ráðsins ákveði annað, sbr. 9. gr. Þegar Viðskiptaþing er ekki haldið samhliða aðalfundi ákveður stjórn tímasetningu í ljósi aðstæðna.

26. gr.
Heimilt er stjórn ráðsins að koma á fót gerðardómi, til úrlausnar í viðskiptadeilum. Stjórn ráðsins skal setja nánari reglur um gerðardóminn.

27. gr.
Stjórn Viðskiptaráðs er heimilt að skipa heiðursfélaga Viðskiptaráðs Íslands. Til þeirrar nafnbótar geta þeir unnið sem lagt hafa sérstaklega mikið af mörkum í þágu viðskiptafrelsis og framfara í atvinnulífinu. Stjórnin skal setja reglur um veitingu slíkrar nafnbótar.

VII. kafli - Lagabreytingar og gildistaka

28. gr.
Tillögur til breytinga á lögum Viðskiptaráðs skulu sendar stjórn ráðsins, er leggur þær fyrir aðalfund. Slíkar tillögur þurfa að berast eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund.

Til þess að slík tillaga nái fram að ganga þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.

29. gr.
Lög þessi öðlast gildi frá og með 1. mars 1994., með breytingum á aðalfundum 11/2 1998, 8/2 2006, 17/2 2010, 12/2 2014, 11/2 2016 og 14/2 2018.