Greiðsludreifing og frestur til greiðsluuppgjörs á opinberum gjöldum

Í gær varð að lögum nýlegt frumvarp um breytingar á tollalögum, sem lúta að dreyfingu gjalddaga á vörugjaldi og virðisaukaskatti (breytingar á tollalögum nr. 88/2005, lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum).

Í janúar síðastliðnum vakti Viðskiptaráð athygli fjármálaráðuneytis á mikilvægi þess að að greiðsludreifingu af þessu tagi yrði komið á, en greint var frá því hér á vef ráðsins. Málinu var fylgt eftir í febrúar en þá var útlit fyrir að stór gjalddagi biði margra fyrirtækja 15. þessa mánaðar. Á þetta hafa fleiri bent og er afar ánægjulegt að sjá skót viðbrögð ráðuneytisins.

Lagasetning þessi á rætur sínar að rekja til laga nr. 17/2009, en með þeim brást fjármálaráðuneytið við gjörbreyttum aðstæðum íslensks atvinnulífs vegna gengisfalls, samdráttar í eftirspurn og verðbólguskots. Lögin mæltust afar vel fyrir hjá íslenskum fyrirtækjum og samtökum atvinnurekenda og einhugur var um skjóta afgreiðslu þeirra meðal allra flokka á Alþingi.

Rétt er að benda á að í nýju lögunum er kveðið á um heimild til tveggja gjalddaga dreifingu í stað þriggja eins og var á síðasta ári, en dreifing þessi gildir fyrir fyrri helming ársins. Lög þessi koma vafalaust mörgum fyrirtækjum einkar vel í því erfiða árferði sem nú ríkir.

Einnig liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Verði frumvarpið að lögum geta þeir sem í vanskilum eru með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 sótt um frest til greiðsluuppgjörs til 1. júlí 2011. 

Hér er um að ræða dæmi um úrræði fyrir atvinnurekendur sem lengi hefur verið kallað eftir og mun styðja við lífvænleg fyrirtæki sem lent hafa í hremmingum vegna utanaðkomandi aðstæðna síðustu mánuði.

Í því mótdræga umhverfi sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi er enn brýnna en ella að draga fram það sem vel er gert. Viðskiptaráð fagnar þessu framtaki fjármálaráðuneytis og Alþingis.

Tengt efni

Um annarra manna fé

Fyrir hverja krónu sem heimili og fyrirtæki verja samanlagt, eyðir hið opinbera ...
14. apr 2024

Raunveruleg þörf fyrir sóttvarnaaðgerðir er nauðsynleg forsenda útgjalda

Viðskiptaráð kallar eftir afléttingu takmarkana og að athafnafrelsi sé komið að ...
25. jan 2022

Mikilvægi fjölbreytni er augljóst

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum ...
9. feb 2022