Skapa þarf tækifæri til fjárfestinga

Á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs, Er Ísland opið fyrir fjárfestingu - Frá orðum til athafna, sem fram fór í gær var m.a. rætt um gjaldeyrishöftin, vexti Seðlabankans og mikilvægi þess að stjórnvöld móti hér stefnu til framtíðar. Framsögumenn á fundinum voru Arnór Sighvatsson aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls og Páll Harðarsonar forstöðumaður rekstrarsviðs Kauphallar Íslands. Í framhaldi af erindum þeirra fóru fram pallborðsumræður, en þátttakendur voru auk fyrrnefndra þau Agnar Hansson forstöðumaður markaðsviðskipta hjá H.F. Verðbréfum, Kristinn Hafliðason verkefnisstjóri hjá Fjárfestingarstofu og Tanya Zharov lögfræðingur Auðar Capital. Áhugaverðar umræður sköpuðust meðal þátttakenda í pallborði og er hér farið yfir það helsta sem fram kom þar.

Skrítinn og nýr raunveruleiki
„Við megum ekki sætta okkur við gjaldeyrishöftin, þau eru hér einungis til skamms tíma“ sagði Tanya Zharov og minnti fundargesti á það að skrítinn og nýr veruleiki hafi beðið Íslendinga eftir hrun. Þá sagðist hún vilja sjá að Seðlabankinn auki gagnsæi um þær reglur sem gilda um gjaldeyrishöftin. Mikið væri um tæknileg atriði í reglunum sem þyrfti að skýra.

Þarf að koma fjármagni í vinnu
Aðspurður hvaða aðgerðir væru brýnastar næstu sex mánaða sagði Agnar Hansson „Nauðsynlegt er að átta sig á því að útlendingar eiga um 400 milljarða í íslenskum krónum, en það verður að vera hægt að eiga viðskipti með þetta fjármagn.  Það þarf að fá þetta fjármagn í vinnu og því mætti spyrja: af hverju erum við ekki að grípa til aðgerða til þess að koma þessu fjármagni í vinnu?“. Varðandi bankaumhverfið nefndi hann að hagsmunatengsl hefðu breyst frá því sem áður var, en nú eru það ekki eigendur bankanna heldur bankarnir sjálfir sem öllu ráði. Þeir eigi lánin, fyrirtækin og samkeppnisaðilana jafnvel einnig.

Agnar velti jafnframt upp þeirri spurningu hvort neikvæða raunvexti þyrfti til þess að fjármagnið leitaði eitthvað annað eins og staðan er hér á landi um þessar mundir. „Við megum ekki búa til hagkerfi þar sem status quo er kjörin staða fyrir þá sem hafa einhver völd. Hvatinn er ekki nægur inn í kerfinu til þess að hlutum sé hrint í framkvæmd“. Varðandi uppbyggingu hér á landi sagði Agnar „við verðum að sætta okkur við það að við náum okkur ekki upp úr þessum öldudal nema það verði tækifæri; tækifæri sem menn geta hagnast á“.

Gríðarleg aukning vegna gengis krónunnar
Kristinn Hafliðason sagði frá því að Fjárfestingarstofa væri að þjónusta nokkra erlenda aðila og að þeir hefðu fundið fyrir auknum áhuga upp á síðkastið. Stærsta ástæðan fyrir því væri hagstætt gengi krónunnar fyrir erlenda fjárfesta. „Stjórnvöld þurfa að ákveða í hvað eigi að nota orkuna, það vantar upp á skýrleika í þeim málum,“ sagði Kristinn og benti á að skoða þyrfti raforkulögin með tilliti til aðgengis að raforku.

Raunvextir hóflegir
Arnór Sighvatsson minnti á að vextir hafi um tíma verið 18% og hafi hann því búist við almennri ánægju með nýjustu stýrivaxtalækkun Seðlabankans. Aðspurður hve mikið fjármagn væri óhreyft á innlánsreikningum Seðlabankans þá sagði hann að um nokkur hundruð milljarða væri að ræða á misháum vöxtum. Hann benti einnig á að miðað við verðbólgu hérlendis þá væru raunvextir mjög hóflegir eða jafnvel neikvæðir.

 

Mörg fyrirtæki tilbúin á markað
„Við búum ekki við vel skilgreindan markaðsbúskap og úr því verður að bæta,“ sagði Páll Harðarson. „Ég tel afar mikilvægt að koma fyrirtækjum í eðlilegan rekstur og tel ég að það sé í raun brýnasta skammtímaverkefnið í efnahagslífinu“. Þá taldi hann einnig að mörg fyrirtæki væru nú þegar tilbúin til að fara á markað. Hann benti á að margir fagfjárfestar horfi til hlutabréfamarkaðar nú um stundir vegna upplýsingaskyldu fyrirtækja á markaði. Skráning á markað væri því ein af þeim lausnum sem hægt væri að nota við núverandi aðstæður til að efla erlenda sem og innlenda fjárfestingu.

Fundarstjóri var Benedikt Jóhannesson ritstjóri Vísbendingar en Tómas Már Sigurðsson formaður Viðskiptaráðs setti fundinn.

Glærur og ræður frá fundinum:
Arnór Sighvatsson - Ræða Arnórs á Sedlabanki.is
Páll Harðarson
Ragnar Guðmundsson

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Orkulaus eða orkulausnir?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem fór fram 9. febrúar 2023
16. feb 2023

Betra er brjóstvit en bókvit

Eru bækur dýrar?
28. okt 2022