Samstarf stjórnvalda og viðskiptalífs mikilvægt

Stjórnvöld þurfa að vinna í samstarfi við atvinnulífið og sérfræðinga þegar kemur að því að marka framtíðarstefnu í atvinnuuppbyggingu. Þetta kom fram í máli Dr. Seiichiro Yonekura, forstöðumanns rannsóknarmiðstöðvar í nýsköpunarfræðum við Hitotsubashi Háskóla í Tókýó, á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs á Grand Hótel í morgun. Dr. Yonekura tók ennfremur fram mikilvægi þess að náið samstarf væri við atvinnulífið í þeirri stefnumótun sem stjórnvöld fara út í, því annars er hætta á að hún skili ekki tilætluðum árangri.

Í því uppbyggingarferli sem fór af stað í Japan eftir seinni heimsstyrjöldina var mynduð framkvæmdanefnd sem samanstóð af hlutlausum aðilum og var þar blandað saman fræðimönnum, starfsfólki í stjórnsýslu, einstaklingum úr viðskiptalífinu, stjórnmálamönnum og öðrum. Nefndin hafði ákveðin völd til að koma verkefnum sínum í framkvæmd þar sem takmarkið var að byggja landið upp á skjótan hátt. Hann undirstrikaði einnig að hagvaxtarstefna væri ekki félagsleg- eða byggðarstefna heldur hafi verið lagt mikið upp úr því að byggja upp iðnað sem væri samkeppnishæfur á alþjóðavísu. „Einkafyrirtæki í samkeppni er það sem lætur hagvaxtarstefnu ganga upp“ sagði hann í fyrirlestri sínum og minnti á að það er ekki stjórnvalda að velja ákveðin fyrirtæki til þess að skara fram úr.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, opnaði fundinn og talaði í ávarpi sínu um mikilvægi þess að leitað væri nýrra leiða í verkefnafjármögnun, þar sem horft væri meira til samspils einkaframtaksins og hins opinbera. Hún nefndi einnig að lög um nýfjárfestingu, sem samþykkt voru á Alþingi um áramót, eigi eftir að auka samkeppnishæfni okkar í framtíðinni, en þau setja fyrirtækjum sem fjárfesta hér ákveðin ramma. Jafnframt tók hún fram að það væri „ekki markmið stjórnvalda að velja sérstaka atvinnuvegi eða fyrirtæki, heldur að skapa frjóan jarðveg fyrir atvinnulífið í heild sinni.“ Hún nefndi að ástandið hér á landi „hafi verið erfitt og verði áfram erfitt“ en þó væri nauðsynlegt að horfa fram á veginn og að stöðugt rekstrarumhverfi væri öllum mikilvægt.

Einnig fluttu erindi á fundinum þeir Björn Rúnar Guðmundsson skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og Birkir Hólm Guðnason forstjóri Icelandair. Fundarstjóri var Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík.

Glærur frá fundinum:

Tengt efni

Faglega og rekstrarlega sterk stjórn Landspítala gæti verið gæfuspor

Viðskiptaráð telur að skýra þurfi ábyrgðarsvið og heimildir stjórnar Landspítala ...
1. feb 2022

Sameiningin sem endaði ofan í skúffu

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fjallar um áform stjórnvalda ...
5. ágú 2020