Styrkjum fjárlagagerðina: Drög að útgjaldarömmum birt

Nýverið gaf Viðskiptaráð út skoðun þar sem kynntar eru tillögur að breytingum sem ganga út á að ýta undir farsæla framkvæmd fjármálastefnu hins opinbera. Ábati af þeim væri margvíslegur og hefði jákvæð áhrif á hagsmuni allra hópa samfélagsins, en þannig væri t.d. skattfé borgaranna frekar úthlutað þangað sem þörf væri á og nýttist þar af leiðandi betur. Ef tillögur sem þessar fengju fram að ganga væri frekar komist hjá flötum niðurskurði þar sem raunveruleg fjárþörf ráðuneyta og stofnana lægi fyrir.

Grunndrög að fjárlögum næsta árs í apríl
Í sumar komu fjármálaráðherrar Evrópusambandsins sér saman um að leggja til að aðildarríki kynni megin drög að fjárlögum næsta árs á hverju vori. Með því gæfist aðildarríkjum kostur á að kynna sér stefnu einstakra ríkja og koma með athugasemdir við frumvarpið áður en endanlegt frumvarp liggur fyrir. Æskilegt væri að sambærilegu fyrirkomulagi verði komið á hérlendis.

Gera þarf grein fyrir tillögum á vef ráðuneyta
Viðskiptaráð leggur til að horft sé sérstaklega til þess að auka upplýsingagjöf í ferlinu, þannig að það sé gagnsætt frá fyrstu stigum. Skref í þá átt væri að kynna markmið og tillögur fjármálaráðherra opinberlega og ítarlega í byrjun apríl og aftur í lok júní eftir að búið væri að taka tillit til ábendinga og athugasemda frá viðkomandi ráðuneytum.

Óæskilegt er að þær takmörkuðu upplýsingar sem þó berast komi í gegnum fjölmiðla í stað þess að gerð sé ítarlegri og heildstæðari grein fyrir tillögum ráðherra á vef ráðuneytisins. Slíkt fyrirkomulag ýtir undir opna og uppbyggilega umræðu um fjárlög hvers árs, sem stuðlar að bættri ákvarðanatöku, eykur fyrirsjáanleika í aðgerðum og dregur úr hættunni á því að útgjöld hins opinbera sú varið með óskynsamlegum hætti.

Alþingi taki sig á
Fjárlagafrumvarp ársins 2011 hefur nú verið birt. Heppilegra hefði verið að birta drög að fjárlögum mun fyrr til að gefa almenningi, atvinnulífi og öðrum ráðrúm til að yfirfara þær tillögur sem komnar eru fram, mynda sér skoðun og koma með ábendingar til úrbóta. Ætla má að málefnalega og upplýst umræða um niðurskurð og skattabreytingar næsta árs hefði hafist mun fyrr en hún gerði ef slíku verklagi hefði verið fylgt.

Þá má ætla að verulegt gagn yrði af því innan Alþingis, en skilvirkt ferli fjárlaga sem og flestra þingmála þar hefur orðið pólitískri hagsmunaorðræðu að bráð á undanförnum misserum. Fjárlög þessa árs eru gott dæmi þar um, en þau voru fyrir margra hluta sakir ein þau mikilvægustu frá stofnun lýðveldisins. Sjaldan hefur hins vegar átt sér stað jafn lítil umræða um lögin áður en þau voru samþykkt, sem er óásættanlegt.

Fyrri umfjöllun Viðskiptaráðs
Eins og áður sagði gaf Viðskiptaráð nýverið út skoðun um ríkisfjármálin þar sem kynntar eru hugmyndir að bættum vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Þá hefur ráðið hefur einnig gefið út skýrslur um fjármál hins opinbera síðustu misseri, Fjármál hins opinbera - aðrar leiðir færar sem kom út í desember í fyrra og Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur frá því í júní 2008.

Tengdar fréttir:

Tengt efni

Styrkjum fjárlagagerðina: Bindandi útgjaldaþak

Í upphafi mánaðarins kynnti ríkisstjórnin fjárlagafrumvarp ársins 2011 og hafa í ...
13. okt 2010

Efling fjárlagagerðar og sjálfstæðrar greiningar í Evrópu

Undanfarin misseri hefur nokkur umræða verið innan Evrópusambandsins um hvernig ...
29. okt 2010