Hagsmunamál fyrirtækja í forgrunni

Viðskiptaráð hefur undanfarið unnið að ýmsum hagsmunamálum íslensks atvinnulífs. Á meðal verkefna má nefna formlega beiðni til fjármálaráðuneytisins þess efnis að greiðsludreifing aðflutnings- og vörugjalda verði sem fyrst komið á fyrir árið 2010.

Beiðnin á rætur sínar að rekja til laga nr. 17/2009 þar sem slíkri dreifingu var komið á vegna greiðslu aðflutnings- og vörugjalda fyrir árið 2009. Með lögunum brást fjármálaráðuneytið við gjörbreyttum aðstæðum íslensks atvinnulífs vegna gengisfalls, samdráttar í eftirspurn og verðbólguskots og á hrós skilið fyrir skjót viðbrögð. Lögin mæltust afar vel fyrir hjá íslenskum fyrirtækjum og samtökum atvinnurekenda og einhugur var um skjóta afgreiðslu þeirra meðal allra flokka á Alþingi.

Stjórnvöld létti fyrirtækjum róðurinn
Vonir Viðskiptaráðs standa til að ráðherra bregðist skjótt við og leggi fyrir Alþingi frumvarp af þessu tagi á fyrstu starfsdögum þingsins, enda er fyrsta  greiðslutímabil þessara gjalda hafið með gjalddaga þann 15. mars næstkomandi. Með því að ákveða slíka dreifingu snemma árs og það fyrir árið í heild og með því að heimila fulla innsköttun munu stjórnvöld án efa létta mörgum fyrirtækjum róðurinn.

Þá hefur Viðskiptaráð jafnframt óskað eftir því að fjármálaráðuneytið kanni hvort unnt sé að endurskoða, a.m.k. tímabundið, útreikning bifreiðahlunninda. Vegna gengisfalls krónunnar hafa mánaðarlegar skattgreiðslur starfsmanna af slíkum hlunnindum hækkað umtalsvert. Í ljósi þegar orðinnar kjararýrnunar og þar sem fyrirtæki hafa almennt ekki tök á að koma til móts við starfsmenn í þessari stöðu taldi ráðið rétt að vekja athygli ráðuneytisins á þessu máli.

Tengt efni

Viðskiptaráð leitar að framkvæmdastjóra

Viðskiptaráð Íslands er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í ...
22. jan 2024

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023

Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar ...
2. mar 2023