Aukin fjölbreytni í forystu íslensks atvinnulífs

Í gær var haldinn fundur undir yfirskriftinni Virkjum karla og konur - fjölbreytni í forystu, en þar kom saman um 300 manna fjölbreyttur hópur karla og kvenna úr atvinnulífinu. Kynjahlutfallið var nokkuð jafnt, en um 43% gesta voru karlar og 57% konur. Þar voru kynntar niðurstöður úr rannsókn Creditinfo, en samkvæmt þeim eru 4.321 fyrirtæki á Íslandi með blandaðar stjórnir karla og kvenna og jafnt kynjahlutfall.

Viðskiptalífið hefur sjálft sett sér það markmið að auka fjölbreytni atvinnulífsins enn frekar fram til loka ársins 2013. Á næstu misserum munu því Creditinfo, Félag kvenna í atvinnurekstri, Leiðtoga-Auður, Viðskiptaráð Íslands og Samtök Atvinnulífsins hvetja fyrirtæki og eigendur þeirra til auka að fjölbreytni í forustusveitum sínum. Það voru fyrrnefndir aðilar ásamt iðnaðarráðuneytinu og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem stóðu að fundinum í gær.

Skrifað undir samstarfssamning
Þar bættust tvö fyrirtæki í hóp þeirra sem sjá hag sinn í því að stuðla að jafnara hlutfalli kynjanna í atvinnulífinu, en Jón Axel Ólafsson, eigandi Eddu útgáfu og Sigurður Arnalds, stjórnarformaður Mannvits, skrifuðu undir samstarfssamning um að leggja sitt af mörkum til að fjölga konum í forystusveit atvinnulífsins.

Forsaga fundarins er sú að í maí 2009 skrifuðu Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands og Samtök Atvinnulífsins undir samstarfssamning til að hvetja til og leggja áherslu á að konum í forystusveit íslensks atvinnulífs verði fjölgað. Markmið samningsins er að hlutfall hvors kyns verði ekki undir 40% í lok árs 2013, en Creditinfo hefur séð um mælingar á verkefninu og skrifuðu einnig allir stjórnmálaflokkar sem sæti áttu á Alþingi undir. Með þessu er viðskiptalífið að taka sjálft ábyrgð og forystu í þessu brýna hagsmunamáli.

Mikilvægt að nýta sem best kraft allra
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, setti fundinn og þá fjallaði Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Auði Capital, um hvernig fjölbreytni getur bætt karla og kynnti því til stuðnings ágrip úr nýlegri rannsókn um áhrif fjölbreyttrar samsetningar á verklag stjórna. Þá fjallaði Alex Haslam prófessor við háskólann í Exeter um konur og forystuhlutverk sem hann hefur rannsakað ítarlega. 

Í framhaldi af því tóku við umræður um efni fundarins, en þátttakendur í þeim voru Hreggviður Jónsson, forstjóri Veritas Capital, Hafdís Jónsdóttir, formaður FKA, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Jóhanna Waagfjörð, formaður Leiðtoga-Auðar, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Katrín Olga Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri hjá Skiptum. Í umræðunum kom fram að mikilvægt væri að nýta sem best kraft allra og væri það sameiginlegt verkefni bæði karla og kvenna. 
 
Sýnd voru innslög um leiðir til að auka fjölbreytni atvinnulífsins og var þar rætt við Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP, Svölu Björgvinsson, starfsmannastjóra Icelandair, Jón G. Hauksson, ritstjóra Frjálsrar verslunar, Þórhildi Þorleifsdóttur, formann jafnréttisráðs, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, alþingismann, Margréti Pálu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar og Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra. Fundarstjórar voru Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff og Hermann Guðmundsson, forstjóri N1.

Framundan eru aðalfundir margra fyrirtækja og er þar kjörið tækifæri til að jafna hlut kynjanna í stjórnum íslenskra fyrirtækja.

Efni frá fundinum má nálgast hér að neðan:

Tengt efni

Ragnar Sigurður hefur störf hjá Viðskiptaráði

Ragnar Sigurður Kristjánsson er nýr sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs
4. sep 2023

Virkjum fallega

Skiptar skoðanir eru um raforkuframleiðslu á Íslandi. Dæmin sanna að ...
24. ágú 2022

Tryggðu þér miða á Viðskiptaþing 2022

Miðasala er hafin á Viðskiptaþing 2022 sem fer fram föstudaginn 20. maí á Hilton ...
3. maí 2022