ASÍ heldur uppteknum hætti

Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins hefur birt úttekt á verðbreytingum á byggingavörum í tengslum við afnám vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts. Fyrir helgi birti eftirlitið sambærilega úttekt á heimilistækjum. Í báðum úttektum er fullyrt að verðlækkanir hafi verið litlar eða ekki í samræmi við væntingar. Þannig gefur ASÍ til kynna að skattalækkanir nýrra fjárlaga hafi ekki skilað sér að fullu til neytenda.

Alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við bæði aðferðafræði og niðurstöður verðlagseftirlitsins, þar á meðal af Viðskiptaráði Íslands, Félagi atvinnurekenda og einstökum endursöluaðilum. Þessir aðilar bentu á tvö atriði: annars vegar hafi verið notast við rangt viðmiðunarverð og hins vegar hafi aðrir áhrifaþættir en álagning ekki verið skoðaðir þegar kemur að áhrifum skattbreytinganna á verð í verslunum.

Í úttekt verðlagseftirlitsins á áhrifum afnáms vörugjalda á verð á heimilistækjum var notast við viðmiðunarverð frá því í október 2014. Mánuði áður en könnunin var framkvæmd, í september 2014, höfðu margir söluaðilar hins vegar þegar lækkað verð vegna breytingarinnar. Þau fyrirtæki sem lækkuðu verð fyrst allra komu því verst út í niðurstöðum verðlagseftirlitsins.

Þá gerði verðlagseftirlitið ráð fyrir að engir aðrir þættir en álagning verslana hafi ráðið breytingum á vöruverði frá hausti 2014 fram í apríl 2015. Svo er hins vegar ekki raunin. Annars vegar styrktist bandaríkjadalur gagnvart krónu um 13% frá september 2014 til apríl 2015, sem gerir mörg raf- og heimilistæki kostnaðarsamari í innkaupum. Hins vegar hefur almenn verðlagshækkun á sama tímabili numið 1%, svo án skattbreytinga hefði verð á vörum sem báru vörugjöld átt að hækka um 1% á tímabilinu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá áætlun Viðskiptaráðs á breyttri álagningu verslana í kjölfar afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts (mynd 1). Þar er leiðrétt fyrir þessum tveimur ágöllum í aðferðafræði verðlagseftirlits ASÍ; annars vegar með því að notast við upphaflegt verð í september 2014 og hins vegar með því að taka gengis- og verðlagsbreytingar með í reikninginn. Niðurstaðan er að álagning verslana hefur lækkað um 24% á tímabilinu, sem er umfram þá lækkun sem vænta mætti.

Viðskiptaráð lýsir yfir vonbrigðum með að verðlagseftirlit ASÍ kjósi að leiða hjá sér ofangreindar athugasemdir og haldi þess í stað uppteknum hætti. Slíkt er til þess fallið að draga úr trúverðugleika verðlagseftirlitsins og gerir neytendum þannig erfiðara fyrir en áður að vera upplýstir um verðbreytingar á helstu neysluvörum. 

Tengt efni

Breskir fjárfestar og verslanir kynnast íslenskum heilsuvörum

Fulltrúar tíu íslenskra fyrirtækja sem framleiða heilsu- og snyrtivörur eru nú í ...
6. okt 2022

Stjórnvöld efni loforð sín og setji aukinn kraft í einföldun regluverks

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um tímasetta aðgerðaáætlun um ...
3. feb 2022

Frekari fjárauka þörf

Þær aðgerðir sem kynntar hafa verið vegna COVID-19 lofa góðu og styður ...
24. mar 2020