Samkeppnishæfni Íslands fer batnandi

Í morgun fór fram fundur í Hörpu þar sem úttekt IMD háskólans á samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði var kynnt.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, flutti opnunarávarp og þakkaði m.a. Viðskiptaráði fyrir að taka af skarið með þarfa umfjöllun á ýmsum sviðum, t.d. með aðkomu sinni að McKinsey vinnunni og Samráðsvettvangi um aukna hagsæld, auk þess að hafa umsjón með úttekt IMD á Íslandi. 

Í tengslum við úttektina á samkeppnishæfni Íslands ræddi Bjarni sérstaklega um þjóðarframleiðslu á mann, sem er nokkuð há í alþjóðlegum samanburði, en sem dæmi nefndi hann að þjóðarframleiðslan hér á landi er þrisvar sinnum meiri en í Póllandi og þar ríkir nokkur ánægja með þróunina. Þessi mikla þjóðarframleiðsla á mann fæst með mikilli atvinnuþátttöku og löngum vinnudögum. Bjarni taldi þó mikilvægt að einblína ekki um of á þann þátt heldur leggja aukna áherslu á framleiðslu og árangur á þeim sviðum þar sem Ísland er alþjóðlega samkeppnishæft.

Bjarni sagði stjórnvöld leggja mikla áherslu á að koma á ró og festu í rekstrarumhverfi hins opinbera og því til viðbótar er afnám gjaldeyrishafta einnig í forgangi. Staða Íslands hefur farið batnandi, verðbólga er að hjaðna, ríkið getur nú stefnt að hallalausum rekstri, sveitarfélögin eru komin á sporið og vinnumarkaðurinn er að spila með. Allt er þetta lykill að bættri samkeppnishæfni og hagsæld á Íslandi.

Ísland upp um 4. sæti á listanum
2014.05.22 IMD uttekt BBAð loknu opnunarávarpi kynnti Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, niðurstöður ársins 2014. Ísland færist upp um fjögur sæti í ár, frá 29. sæti upp í það 25. Árangurinn í ár er þó mun lakari en annarra Norðurlanda, sem skipa sér ofar á listanum.

Mesta bæting Íslands er í efnahagslegri frammistöðu vegna lægri verðbólgu og aukinnar atvinnuþátttöku. Þá batnar einnig frammistaða hins opinbera, m.a. vegna betri árangurs í ríkisfjármálum. Þá batnar atvinnulífið vegna betri aðstæðna á vinnumarkaði og bættra stjórnarhátta. Loks eru innviðir hérlendis sterkir og breytast lítið milli ára.

Stærstu viðfangsefni Íslands í dag eru útlistuð í úttektinni, en úrlausn þeirra mun ráða miklu um samkeppnishæfni Íslands að ári liðnu. Þau eru:

  1. Flýta afnámi hafta
  2. Styðja við efnahagslegan stöðugleika með aukinni samfélagslegri sátt
  3. Greiða fyrir bæði innlendri og erlendri fjárfestingu
  4. Draga úr opinberum skuldum með rekstrarumbótum
  5. Opna fyrir alþjóðaviðskipti til að auka framleiðni í innlendum atvinnugreinum

Nýtum tækifærin
Í pallborðsumræðum var rætt almennt um úttektina og samkeppnishæfni Íslands, en þátttakendur voru þau Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Já, og Sigríður Benediktsdóttir framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands.

Lögð var áhersla á þörf fyrir frekari innlenda og erlenda fjárfestingu og að draga á sama tíma úr opinberum skuldum í gegnum kerfisbreytingar hjá hinu opinbera. Í tengslum við umræður um orkuauðlindir landsins og mikilvægi þeirra þegar kemur að samkeppnishæfni Íslands þá sagði Hörður mikilvægt að stuðla að bættri nýtingu orkuauðlindanna til framtíðar. Hann sagði stór tækifæri vera í orkumálum og taldi þörf á því að koma orkunni á markað.

Í því samhengi var sæstrengur nefndur sem áhugaverð leið til að koma vöru Íslands á markað. Hörður sagði sæstrenginn ekki einu leiðina til þess að ná árangri, en hann myndi hins vegar styðja við markmið Landsvirkjunar og því líklega tímaspursmál hvenær hann verður lagður. Hann nefndi til stuðnings máli sínu að Norðmenn leggi nú aukna áherslu á endurnýjanlega orku þegar litið er til framtíðar og hún býður upp á spennandi möguleika fyrir Ísland.

2014.05.22 IMD uttekt panelumraedur

Sigríður sagði stöðuna hvað varðar fjármalin hafa komið sér á óvart, en skuldsetning er að koma í veg fyrir lánsfjármagn og stuðningur bankanna við atvinnulífið þurfi, skv. úttektinni, að vera meiri. Sigríður kallaði því eftir því að þessi tilfinning viðskiptalífsins fyrir stuðningnum verði bætt og að fjármálamarkaðurinn styðji við atvinnulífið og þróun þess.

Katrín Olga ræddi mikilvægi þess að skapa nýsköpunarfyrirtækjum betra umhverfi og brúa bilið sem vantar upp á eftir að fyrirtækin eru komin í gegnum fyrsta fasa í rekstrinum og þar talaði hún sérstaklega um möguleika tengda englafjárfestingum. Katrín Olga nefndi það einnig sem mjög jákvætt atriði að búið væri að leggja niður nefnd um erlenda fjárfestingu og einnig afnema tilkynningarskyldu. Nefndin um erlenda fjárfestingu hefur haft neikvæð áhrif á stöðu Íslands í úttekt IMD og því væri um að ræða breytingu til batnaðar.

Að lokum tók Frosti saman helstu atriði fundarins og fjallaði um helstu tækifæri Íslands til að þokast upp listann og nefndi í því sambandi að Ísland eigi að geta náð góðum árangri þar sem innviðirnir eru góðir og við eigum að geta náð góðum árangri þar sem um er að ræða hreyfanlegar stærðir í þeim atriðum sem Ísland stendur sig illa. Úttekt eins og þessi nýtist vel til að skerpa á umræðunni og færa áhersluna frá skammtímalausnum að langtímastefnu.

Tengt efni

Tengdar fréttir

Efnahagsleg frammistaða að batna (vb.is)

„Samkeppnishæfni ekki grundvallarmarkmið“ (vb.is)

Samkeppnishæfi Íslands talið hafa batnað (vb.is)

Ísland fer upp um fjögur sæti (mbl.is)

IMD World Competitiveness Yearbook 2014

Tengt efni

Skýrsla Viðskiptaþings 2024

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024

Skýrsla Viðskiptaþings 2024 - Hið opinbera: Get ég aðstoðað?

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024

Lífstílsverðbólga stjórnvalda

Lækning lífstílsvanda stjórnvalda er tiltekt og forgangsröðun í útgjöldum ...
23. okt 2023