Nýtt háskólaráð sameinaðs skóla Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands

Gengið hefur verið frá skipan stjórnar, sem jafnframt mun gegna hlutverki háskólaráðs, í nýjum sameinuðum háskóla sem tekur yfir alla starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands. Stjórnarmenn eru tilnefndir af stofnendum einkahlutafélags um eignarhald á hinum nýja skóla, þ.e. Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði Íslands. Starfsemi skólans grundvallast á viljayfirlýsingu þessara atvinnulífssamtaka og  menntamálaráðherra f.h. Ríkissjóðs Íslands um stofnun og rekstur nýja háskólans.

Í nýju háskólaráði sitja eftirgreindir: Ásdís Halla Bragadóttir, Elfar Aðalsteinsson, Finnur Geirsson, Jón Ágúst Þorsteinsson, Jón Sigurðsson, Katrín Pétursdóttir og Sverrir Sverrisson, sem verður jafnframt formaður háskólaráðs.  Varamenn eru Guðný Káradóttir, Kristín S. Hjálmtýsdóttir og Sjöfn Sigurgísladóttir.  Nánari upplýsingar um háskólaráð skólans fylgir hér með. 

Einkahlutafélagið verður formlega stofnað næstu daga, en stjórn þess mun þegar hefja undirbúning að samruna skólanna tveggja. Gert er ráð fyrir að starfsemi skólans verði samræmd í áföngum. Kennsla verður með óbreyttu sniði til að byrja með og undir stjórn núverandi háskólaráða og rektora beggja skólanna. Stefnt er að endanlegum samruna allrar starfsemi skólanna áður en kennsla hefst að nýju á haustmánuðum 2005. 

Meginverkefni hins nýskipaða háskólaráðs fram að sameinaðri starfrækslu hins nýja skóla verður að leiða samrunaferlið, ákvarða námsframboð og skipulag háskólans, inntökuskilyrði og skólagjöld ásamt því að marka framtíðarstefnu skólans. Jafnframt verður unnið að skoðun og ákvarðanatöku um framtíðarhúsnæði hins nýja skóla. 

 Háskólaráð

Fremri röð frá vinstri:  Sjöfn Sigurgísladóttir,  Sverrir Sverrisson, Kristín S. Hjálmtýsdóttir, Jón Sigurðsson.  Aftari röð frá vinstri Finnur Geirsson,  Guðný Káradóttir,  Jón Ágúst Þorsteinsson, Ásdís Halla Bragadóttir, Elfar Aðalsteinsson.  Á myndina vantar Katrínu Pétursdóttur.

Háskólaráð:
Sverrir Sverrisson, annar eigenda fyrirtækisins Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. Sverrir lauk doktorsprófi í hagfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann stundaði m.a. framhaldsnám við Kiel Institute of World Economics og hagrannsóknir við RISOE í Danmörku og OECD í París.  Sverrir er formaður nýs háskólaráðs.

Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ og fyrrum aðstoðarmaður  menntamálaráðherra.   Ásdís Halla lauk meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Harvard University árið 2000.

Elfar Aðalsteinsson er starfandi stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju hf. á Eskifirði.  Elfar lýkur MBA meistaragráðunámi frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2005.

Finnur Geirsson, forstjóri Nóa  Síríuss hf.   Hann lauk doktorsprófi í þjóðhagfræði frá Florida State University árið 1984. 

Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hf. Jón er með B.S. gráðu í rekstrartæknifræði frá Tækniskólanum í Óðinsvéum í Danmörku og meistaragráðu í viðskiptafræðum frá The United States International University í San Diego í Bandaríkjunum.

Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Marorku ehf.   Jón Ágúst lauk doktorsprófi í verkfræði frá Álaborgarháskóla árið 2004. Hann vann hjá Háskóla Íslands og Álaborgarháskóla 2001 til 2004, hjá York International 1998 til 2001.

Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis hf.  Katrín er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og iðnrekstrarfræðingur frá Tækniháskóla Íslands.

Varamenn í háskólaráði:

Guðný Káradóttir, framkvæmdastjóri Gagarín ehf. Guðný er með meistaragráðu í markaðsfræðum frá Háskólanum í Álaborg 1991 og er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Þýsk íslenska verslunarráðsins.  Kristín lauk meistaraprófi í hagfræði frá Albert-Ludwig Universität í Þýskalandi.

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.  Sjöfn er matvælafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með Masters próf frá Tæknisháskólanum í Halifax, Kanada og lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Bergen árið 2001.

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Andri nýr formaður Viðskiptaráðs – Ný stjórn kjörin

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fór fram í dag. Þar var kunngerð niðurstaða úr ...
7. feb 2024

Ragnar Sigurður hefur störf hjá Viðskiptaráði

Ragnar Sigurður Kristjánsson er nýr sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs
4. sep 2023