Er Ísland opið fyrir fjárfestingu?

Fjárfesting er ein af grunnstoðum hagvaxtar og forsenda þess að endurreisn hagkerfisins geti orðið að veruleika fyrr en síðar. Pólitísk afskipti af einstaka fjárfestingum eru því ekki til þess fallin að stuðla að sameiginlegu markmiði okkar allra, að efla hagvöxt og með því lífskjör hérlendis á komandi árum. Fjárfesting innlendra aðila hefur dregist mikið saman frá bankahruni auk þess sem erlend fjárfesting hefur verið í lágmarki. Til að byrja með var landið hreinlega lokað fyrir erlendri fjárfestingu, en það hefur nú færst að einhverju leyti til betri vegar.

Erlent fjármagn ekki velkomið?
Svo virðist þó sem erlent fjármagn sé í mörgum tilvikum ekki velkomið og að megn tortryggni ríki gagnvart erlendum aðilum sem hafa áhuga á að fjárfesta hérlendis. Kannski það komi ekki á óvart í ljósi þess sem á undan hefur gengið. Umræðan er þó fyrir margar sakir gamalkunn, þ.e. málinu er stillt upp í hinn svart/hvíta farveg þar sem málefnaleg rökræða skiptir litlu og varnarorð hunsuð. Að þessu leyti virðist lítið hafa breyst síðustu misseri hvað hinn mannlega þátt varðar.

Miklar takmarkanir á erlendri fjárfestingu
Hér ber hæst sú umræða sem verið hefur undanfarið um fjárfestingu erlendra aðila hérlendis. Í því ljósi er rétt að byrja á að draga fram stóru myndina og benda á að Ísland er í 2. sæti á lista yfir þau aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) sem hafa hvað mestar takmarkanir á beinni fjárfestingu erlendra aðila. Mestu hömlurnar eru í Kína, en næst á eftir Íslandi koma Rússland og Sádi-Arabía.

Pólitísk óvissa skaðar trúverðugleika
Atburðir undanfarna vikna munu ekki efla tiltrú erlendra fjárfesta á Íslandi sem fjárfestingarkosts. Eðlilegt er að spyrja sig hvort margir fjárfestar, innlendir eða erlendir, muni yfir höfuð hætta á að fjárfesta hérlendis á komandi árum af ótta við pólitísk afskipti af einstökum verkefnum eða fjárfestingum sem ríkisstjórnin er jafnvel ekki aðili að með neinum hætti. Fordæmið sem slík afskipti skapa geta verið afar skaðleg enda tekur langan tíma að byggja upp orðspor og traust sem eyðileggja má í einni svipan með vanhugsuðum og skammsýnum aðgerðum.

Hringlandaháttur, stefnuleysi og ákvarðanafælni
Aðgerðir hins opinbera að undanförnu vekja upp áleitnar spurningar um forgangsröðun stjórnvalda í ljósi þess að kröftum þeirra er beint að eðlilegum viðskiptasamningum sem stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu hérlendis. Hringlandaháttur, stefnuleysi og ákvarðanafælni í stórum og mikilvægum málum er að gera mörgum aðilum í atvinnulífinu erfitt um vik. Nauðsyn krefur á um að kastljósi stjórnvalda sé beint að þeim veigamiklu úrlausnarefnum sem enn standa út af borðinu, t.a.m fjármálum hins opinbera, peningastefnu seðlabankans, framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum, uppbyggingu atvinnuvega, mikilvægi þess að greiða úr óvissu í kjölfar dóms um ólögmæti gengistryggingar lána og svo mætti lengi telja.

Tíminn vinnur ekki með stjórnvöldum þar sem mörgum af þeim hugmyndum sem lagðar hafa verið á þeirra borð sem stuðla að atvinnuuppbyggingu hefur verið slegið á frest. Ekki er hægt að fresta úrlausn vandamála endalaust ef árangur á að nást í því að efla hagvöxt og bæta lífskjör hérlendis á komandi árum.

Skoðunina í heild sinni má nálgast hér

Tengt efni

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023