Sagan endalausa: Ekki frekari skattahækkanir

Þessa dagana er smiðshögg rekið á fjárlagafrumvarp næsta árs og fjórða árið í röð er stefnt að frekari skattahækkunum. Ástæðan nú er að upphafleg markmið um frumjöfnuð í ríkisfjármálum munu ekki nást, þvert á fyrri fullyrðingar forsvarsmanna stjórnvalda. Þessar fregnir eru vonbrigði, sérstaklega þar sem viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs er eitt mikilvægasta markmiðið í endurreisn hagkerfisins. Verulegur hallarekstur til lengri tíma mun auka skuldsetningu ríkissjóðs og skerða kjör Íslendinga til framtíðar.

Síðustu þrjú ár hafa stjórnvöld gripið til margvíslegra aðgerða til að rétta af hallann og fljótt á litið mætti ætla að þokkalegða hefði tekist til. Þunginn í þessum aðgerðum hefur hins vegar verið um of á tekjuöflun með nýjum eða breyttum sköttum og annarri gjaldheimtu. Á meðan hafa aðgerðir til að auka umsvif í hagkerfinu, og auka þannig skatttekjur, ekki hlotið nægilegan hljómgrunn. Yfirlýsingar stjórnvalda síðustu daga benda því miður til þess að á árinu 2012 verði framhald á þessari forgangsröðun. Í ljósi hagvaxtarþróunar síðustu ára skýtur þar skökku við.

Ný stefna miði að vexti

Merki um skaðsemi tekjuöflunaraðgerða stjórnvalda sjást skýrt á því að atvinnuvegafjárfesting og einkaneysla, forsendur hagvaxtar og atvinnusköpunar, eru enn við söguleg lágmörk. Með hærri sköttum á stóriðju, fjármálafyrirtæki og sjávarútveg yrði hoggið í sama knérunn, áfram latt til fjárfestingar og niðursveiflan framlengd.

Þó opinber útgjöld hafi vissulega dregist saman byggir samdrátturinn um of á frestun útgjalda eða nýtingu uppsafnaðra fjárheimilda, frekar en að raunveruleg aðlögun eigi sér stað. Þetta sést ágætlega á því að launagreiðslur ríkisins eru ríflega milljarð umfram áætlanir á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, en þá eru óátalin áhrif nýrra kjarasamninga sem ætla má að verði veruleg.

Í þessu ljósi má gagnrýna stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum og ítrekaðar yfirlýsingar þeirra um árangur af eigin aðgerðum. Við blasir að núverandi stefna hefur tafið fyrir vexti hagkerfisins og að breytinga er þörf. Að Rúmeníu undanskilinni er Ísland eina landið sem er í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem ekki var hagvöxtur á árinu 2010. Að auki eru hagvaxtarhorfur hérlendis til næstu 5 ára með þeim slökustu á heimsvísu skv. nýlegri spá AGS og ekki er hagspá Seðlabanka Íslands frá 17. ágúst uppörvandi. Það er því mál að nú verði öðrum meðölum beitt til að rétta af halla ríkissjóðs svo tryggt verði að raunverulegur bati hefjist og spá AGS rætist ekki. Frekari bið eftir hagvexti og bættum lífskjörum er óásættanleg.

Skoðunina í heild má nálgast hér

Tengt efni

Fyrsta bylgjan lendir á utanríkisverslun

Veruleg lækkun varð milli ára í öllum liðum vöruskipta við útlönd frá 16. mars. ...
6. maí 2020

Gölluð og óljós leið hlutdeildarlána

Markmið frumvarps um hlutdeildarlán eru góð en leiðin að þeim er ekki líkleg til ...
22. jún 2020

Græn prik og gráar gulrætur

Mikil tækifæri eru til að bæta úr beitingu grænna skatta og ívilnana, og þannig ...
16. feb 2020