Öflugt atvinnulíf - Bætt lífskjör

Umræða um hagvöxt hefur verið áberandi síðustu misseri. Þó að flestir virðast sammála um mikilvægi aukinna efnahagsumsvifa þá eru skiptar skoðanir á álitlegum leiðum til þess. Að auki hefur verið bent á að hagvaxtarmælingar taka ekki tillit til margra þátta sem telja má til lífsgæða og sum starfsemi ratar ekki þar inn þó hún myndi raunverulegan virðisauka.

Það er þó ljóst að kaupmáttur launa á Íslandi og hagvöxtur á mann, sem er leiðréttur fyrir fólksfjölgun, hafa fylgst nánast fullkomlega að síðustu 20 ár. Jákvæð áhrif hagvaxtar á kaupmátt eru því nokkuð ótvíræð, en aukinn kaupmáttur er einn ráðandi þátta bættra lífsgæða. Sé litið til síðustu 65 ára hefur hagvöxtur á mann aukist árlega um rúm 2%, sem þýðir að lífskjör hafa fjórfaldast á tíma sem er um 15 árum styttri en meðalævilengd Íslendings.

Almenn áhersla hér heima og erlendis á aukinn hagvöxt er því ekki af ástæðulausu og óháð því til hvaða hagkerfis er horft, þá byggir hagvöxtur ævinlega á sömu þáttum, þ.e. í fjármunum og vinnuafli (framleiðsluþættir) og öðrum þáttum s.s. tækniframförum, eflingu mannauðs, auðlindanotkun og orkunoktun (heildarþáttaframleiðni).

Í grófum dráttum má svo segja að efnahagsleg velmegun byggi á því að nýta þessar uppsprettur til að skapa sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði. Í því felst viðleitni til að færri hendur vinni sama verkið, þ.e. aukinni framleiðni. Aukin framleiðni er þannig forsenda aukins hagvaxtar og kaupmáttar og því ætti stefna um hámörkun lífskjara að fela í sér varanlega aukningu framleiðni. Hvatinn til hagræðingar og skilvirkni, sem er fólginn í einkaeign í atvinnurekstri, er svo aftur almennt talinn meginforsenda þess að hægt sé að hámarka framleiðni

Efnahagsstefna, sem er ætlað að auka framleiðnivöxt til frambúðar, verður því að miða að hagkvæmu rekstrarumhverfi fyrirtækja, aukinni fjárfestingu í arðsömum verkefnum og vexti heildarþáttaframleiðni. Að því má stuðla með tækniframförum, hagkvæmri auðlindanýtingu, aukinni þekkingu og færni vinnuafls. Þeir sem taka ákvarðanir fyrir Íslands hönd í skipulagi efnahagsmála, og aðrir sem það vilja, ættu að hafa þetta gangverk í forgrunni.

Að undanförnu hefur vinnulag við stjórn Íslands of oft gengið gegn þessum grunnforsendum bættra lífskjara. Sem dæmi má nefna nýleg kvótafrumvörp, hringlanda í ákvörðunum um mikilvæg starfsskilyrði fyrirtækja - sérstaklega skatta, viðamikinn niðurskurð til háskóla og áætlanir um ríkisframkvæmdir sem ekki eru líklegar til að stuðla að verðmætasköpun.

Í skoðuninni er m.a. farið yfir eftirfarandi:

  • Hvernig megi hafa áhrif á hagvöxt
  • Hagvöxtur getur ekki byggt til langframa á lánsfjármagnaðri einkaneyslu
  • Opinberar framkvæmdir þurfa að skila hæfilegri arðsemi
  • Verðmætasköpun sem forsendu langtíma hagvaxtar
  • Aðgerðir sem geta hamlað hagvexti
  • Þátt atvinnulífsins í framleiðniaukningu og sköpun virðisauka og ábyrgð þess

Skoðunina má nálgast hér.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing 2023

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2023 sem fór fram á Hilton Reykjavík ...
20. feb 2023

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023